27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4284 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

82. mál, áfengislög

Jónas Kristjánsson:

Jeg ætla aðeins að fara fáum orðum um frv. alment, en ekki ræða um einstakar brtt.

Það má ætla, að frv. hafi fengið sæmilegan undirbúning. Það lá við, að það yrði borið fram á þingi í fyrra, en varð ekki af, svo að ætla mætti, að það væri betur útbúið nú en áður. Breytingar frá núgildandi lögum eru að mestu í því fólgnar að herða á sektarákvæðunum. Má ýmislegt um það segja. Ýmsir eru þeirrar trúar, að óheppilegt sje að setja lög, sem mikill hluti þjóðarinnar er mótfallinn. Frægur amerískur þjóðmegunarfræðingur hefir haldið því fram, að hættulegt sje að setja lög, sem ekki eru í samræmi við rjettlætistilfinningu mikils meiri hluta þjóðarinnar. Ef á móti þessu er brotið, verður það til þess, að lögin verða brotin og það vekur alment virðingarleysi fyrir lögum yfir höfuð. Sektarákvæðin verða því að falla saman við það, sem mönnum finst nokkurnveginn rjett í því efni. Það er ekki góður undirbúningur undir lögin, þegar menn þeir, sem einna hæst eru settir í þjóðfjelaginu, lýsa yfir jafnmismunandi skoðunum og á þessu máli, þar sem einn segir, að Íslendingar sjeu ekki samkvæmishæfir án víns, og annar, að vín sje matur og ekki eitur, sem það þó er í raun og veru. — Þetta eru tvennar andstæður. Þess vegna er hætt við, ef lögunum er harðleiknislega beitt í byrjun; að þjóðin snúist á móti þeim, og ef það verður, þá getur svo farið, að það kosti það, að bannið verði afnumið. Ef þjóðin þolir ekki hlekki þá, sem á hana eru lagðir með lögunum, þá koma þeir tímar, að hún hristir þá af sjer. Jeg álít, að þetta fari mest eftir því, hvernig lögin verða framkvæmd, hvort þau verða framkvæmd með lempni og rjettlæti eða harðleikni. Það er nauðsynlegast af öllu, að lögin verði framkvæmd stranglega, en þó með fylsta rjettlæti. Jeg bíð óhræddur eftir úrskurði reynslunnar; hann verður í samræmi við það, hvernig á lögunum verður haldið. Það er hætt við, ef mönnum finst lögunum vera ranglega beitt, þá leiði það til smyglunar og bruggunar. En besta ráðið til að fyrirbyggja það er að framkvæma lögin með rjettlæti og takti. Allra hættulegust er bruggunin; hún getur haft afskaplegar afleiðingar, getur svift menn bæði heilsu og fjöri. Það er sagt, að nú sje talsvert um vínbruggun hjer á Suðurlandsundirlendinu. En að því verður að stefna að fyrirbyggja það.

Mjer finst stundum bresta á, að gætt sje þeirrar varúðar og takts, sem nauðsynlegt er við samningu laga. Sjerstaklega fanst mjer það í fyrra, þegar borið var fram og sótt af kappi frv. um að afnema útsölu vína á Siglufirði. Jeg áleit þá það vera rjett að greiða atkvæði móti þessu frv. Flestir munu nú játa, að jeg hafi þá haft rjett fyrir mjer. Þó hefir þetta verið notað í ofsókn gegn mjer, sem endaði með því, að jeg gat ekki legið undir þeirri ofsókn og sagði mig úr reglunni. Þó ann jeg þessu máli og vinn því, það sem jeg get. Þarna var leikinn skopleikur, sem hæglega gat endað með sorgarleik, ef svo hefði farið, að hann hefði kostað það, að sagt var upp samningum við Spánverja af þeirra hálfu. Jeg vildi ekki eiga þátt í því og greiddi atkvæði á móti frv. Jeg býst við því, að þeir, sem greiddu atkv. með því frv. í fyrra, mundu hafa lagt það fyrir þingið nú, ef þeir hefðu sjeð sjer það fært. Þetta sýnir, að jeg hefi haft rjett fyrir mjer þá. Jeg hefi reynt að breyta sem rjettlátast í þessu máli sem öðrum, til þess að árangurinn verði sem bestur fyrir málefnið og þjóðina í heild.