12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4290 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

82. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg vil gera nokkra frekari grein fyrir afstöðu minni en gert er í nál. á þskj. 685. Það er enganveginn tilgangur minn að gera lítið úr hugsun og starfi þeirra manna, sem vinna af einlægni og áhuga fyrir bannmálið. En það á við um þetta mál eins og mörg önnur, að skamt er öfganna á milli.

Það er einkennilegt, að þótt meiri hl. nefndarinnar leggi til, að frv. verði samþ., álítur hann engu að síður — það er mjer óhætt að fullyrða — að ekki verði synt fyrir öll sker og boða í þessu efni. Og jeg er þess sannfærður, að þessi mikli lagabálkur, þó að fyrirferðarmikill sje, verður á meðal hinna mörgu tilgangslausu laga, sem sett hafa verið með þessari þjóð.

Jeg hefi bent á það í nál. mínu, að mörg refsiákvæði frv. eru þannig úr garði gerð, að ekki er frambærilegt. Til þess að fara nákvæmlega út í það þyrfti að drepa á hverja grein, því að það eru ekki aðeins sjerstök ákvæði um sektir og fangelsi fyrir frv. í heild, heldur nærri því eins og greinarnar eru margar. Þó vil jeg benda á nokkur atriði. Það þarf meira en meðalmannstrú til að trúa því, að ölvaður maður, sem engan óskunda gerir, verði leiddur fyrir dómara til þess að gera grein fyrir því, hvar hann hafi keypt það áfengi, sem hann hefir drukkið, þar sem hjer er fullkomlega lögleg áfengissala. Eða hver vill trúa því, að ákvæði 24. gr. frv. komi að haldi? Þar segir svo:

„Bannað er að neyta áfengis í veitingastofum, veitingatjöldum eða öðrum stöðum, þar sem veitingar fara fram“.

Og enn stendur þar:

„Ekkert fjelag manna má hafa um hönd í fjelagsskap áfengisveitingar, nje heldur má áfengisnautn fara fram í fjelagsherbergjum, hvort sem er í húsi fjelagsins eða annara“.

Trúa menn því í raun og veru, að þetta verði haldið? Svona má rekja allflestar gr. frv. og sýna fram á, að þetta er til einskis gagns. (MG: Þetta er í gildandi lögum). Veit jeg það. En til hvers er að vera að setja þetta inn í þennan lagabálk til einskis? Er ekki nóg að hafa það þar? (MG: Þessu er komið hjer í eina heild). Jeg veit, að hv. 1. þm. Skagf. er svo víðsýnn og ærlegur maður, að hann hefir enga trú á þessum lögum.

Jeg verð að líta svo á, að það sje mjög bagalegt, að búið er að nema dauðarefsingu úr gildi. Hún hefði dugað best. (HjV: Þeir koma þá að minsta kosti ekki aftur). Nei, það er áreiðanlegt. Og hver heldur, að hægt verði að framfylgja ákvæðum 42. gr.?

Jeg finn ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta mál. Það væri bara til að tefja tímann, því að þótt hv. þm. hafi enga trú á þessum lögum, ætla þeir að samþ. þau samt. Jeg vildi aðeins sýna það með þessum fáu orðum, auk þess sem það er tekið fram í nál. mínu, að jeg vil engan þátt í því eiga að samþ. þessi lög, sem jeg veit, að eru mjög svo meingölluð í velflestum meginatriðum.

Bindindismálið verður ekki til lykta leitt með harðri refsilöggjöf. Komandi kynslóð verður að læra að bera þá virðingu fyrir sjálfri sjer, að hún telji sjer ósæmandi að neyta víns úr hófi. En jeg tel það ekki úr hófi fram, þó að menn neyti dálítils víns við einstök tækifæri, og það á fullkomlega löglegan hátt. (JAJ: Hæstv. dómsmrh. getur sett reglurnar). Já, hann getur það og hefir líka leitast við að gefa slíkar fyrirskipanir.

Jeg held, að þetta frv. geri það að verkum, að bindindisstarfsemi minki og þeir verði því fyrir vonbrigðum, sem að því standa. Jeg skil ekki í bindindissinnuðum mönnum, að þeir skuli varpa allri áhyggju upp á löggjöfina í þessu efni og búast við, að hún bæti það mikla böl, sem af ofnautn áfengis leiðir og mjer dettur ekki í hug að mæla bót. Umbætur í þessu máli felast ekki í öfgafullri löggjöf, sem sumpart er óframkvæmanleg og sumpart á móti rjettarmeðvitund almennings. Umbætur, sem byggjast á siðferðislegum þroska manna, verða aldrei framkvæmdar með öfgafullri refsilöggjöf.

Jeg skal enda á því, sem jeg tók fram í upphafi, að jeg ætla mjer ekki að fara að vekja deilur. Jeg mun láta málið hlutlaust hjer eftir; jeg hefi einungis bent til þess, af hverju jeg get ekki fylgt þessu frv. Jeg veit, að ef spár mínar rætast, þá muni það verða mörgum vonbrigði, en hitt finst mjer ekki óeðlilegt, að þeir verði nokkrir, sem samþykkja frv. og hafa þó enga trú í hjarta sínu á því, að það komi að gagni.