27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4297 í B-deild Alþingistíðinda. (3762)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, er það ekki svo ákaflega mikið, sem meiri og minni hl. greinir á í þessu máli, og mjer skilst nú, sem hv. frsm. vildi jafnvel gera minna úr því heldur en kemur fram í þingskjölunum.

Mjer skilst, að hv. þm. telji sig samþykkan fyrri brtt. minni hl. á þskj. 583, en það er þó rjett, sem stendur í nál. minni hl. á sama þskj., að hv. meiri hl. vildi ekki fallast á að bera fram brtt. um þetta.

Við í minni hl. álítum í sjálfu sjer eðlilegt að stíga það spor, þegar hentugleikar leyfa, að sameina þessar opinberu stofnanir undir eina stjórn, og þá fyrst og fremst undir einn forstjóra, þótt ekki sje farið lengra í þessu frv., en það gæti líka verið álitamál, hvort ekki væri rjett að gera nokkru víðtækari sameiningu á stjórn þeirra, þannig að það þyrfti ekki að vera sjerstakur gæslustjóri eða meðstjórn fyrir þessar stofnanir hverja út af fyrir sig, eins og verður eftir frv., heldur ein sameiginleg stjórn. Við höfum samt ekki viljað bera fram brtt. um þetta, af því að við gerum ráð fyrir, að það geti ef til vill farið eins vel að gera þetta smátt og smátt. En það, sem fyrir okkur vakir, þegar þetta spor er stigið, er, að það verði gert á þann hátt, að þetta geti orðið til frambúðar og gagnsemi fyrir þennan þátt í starfsemi hins opinbera, og það hyggjum við, að ekki geti orðið nema það verði beinlínis ákveðið að forstöðumaðurinn hafi fullkomna sjerþekkingu á tryggingarmálum. Við gerum ráð fyrir að aðalástæðan fyrir þessari samvinnu sje sú, að geta átt völ á nægilega hæfum manni til þess að vera ráðunautur stjórnarinnar, er hafi sjerfræðilega forgöngu um breytingar og aukningu þeirrar löggjafar og þeirrar starfsemi, sem að eðlilegum hætti þætti hentug í slíku starfi. Það er eingöngu með tilliti til þeirrar sjerþekkingar, sem við álítum, að hægt verði að sameina allar þessar stofnanir undir eina stjórn. Við höfum ekki sjeð okkur fært annað en að gera brtt. um nokkra launahækkun frá því, sem í frv. stendur; sú launaupphæð, 4000 kr., myndi samsvara því nokkurnveginn, sem hægt væri að fá mann með venjulegri skrifstofu- eða verslunarmentun fyrir, en ef á að fá hæfan sjerfræðing, hygg jeg, að hann fengist ekki fyrir lægri laun en það, sem við stingum upp á, sem eru sömu laun og ýmsum öðrum sjerfróðum forstjórum í þjónustu ríkisins eru greidd.

Þá varð ágreiningur um það, hvenær lögin eiga að koma til framkvæmda. Í frv. er það orðað þannig, að þetta á að koma til framkvæmda strax að því er snertir Brunabótafjelag Íslands og Slysatrygginguna, þar sem enginn forstjóri er, heldur aðeins þriggja manna stjórn, og einn af þeim formaður en að því er snertir samábyrgðina, þá á það ekki að koma til framkvæmda fyr en sú staða losnar. Þetta sýnist okkur líta dálítið undarlega út, vegna þess að svo stendur á, að ungur maður hefir verið skipaður forstjóri Brunabótafjelagsins, en sá maður, sem hefir forstöðu Slysatryggingarinnar, er 74 ára að aldri, og á því að öllu sjálfráðu, ekki langan starfsaldur eftir. Okkur sýnist þess vegna, þótt náttúrlega verði ekkert um það vitað, að það hefði verið alt eins eðlilegt og sennilegt, að það myndi bráðum koma til þess, að það losnaði forstjórastaðan við Samábyrgðina, vegna aldurs núverandi forstjóra, og þá þætti okkur eðlilegt, að svona breyting kæmi til framkvæmda, þegar sú staða losnar, eða þegar hin staðan losnar, ef það verður fyr, sem náttúrlega getur orðið, þótt mikill sje aldursmunur manna. Eins og þetta er núna í frv., þá lítur það nánast svo út, sem þessi lagasetning sje gerð til þess að losna við núverandi forstöðumann Brunabótafjelagsins, án þess að stjórnin þurfi að taka það upp á sig að skifta þar um forstöðumann. Við í minni hl. álítum ekki, að ástæða sje til þess að vera að gera með svona frv. neina tækifærislöggjöf, miðaða við það eitt að hafa mannaskifti í opinberum stöðum. Okkur sýnist málið eiga að ganga fram á þeim grundvelli, sem við höfum lýst og álftum eðlilegan, en það verður þegar önnurhvor forstjórastaðan losnar. Eftir venjulegum reglum myndi það þykja rjett, þegar svona breyting er gerð, að sá eða þeir forstjórar, sem láta af starfi vegna breytingarinnar, fengju einhverja uppbót fyrir atvinnumissi, í einhverju formi. Um embættismenn er svo ákveðið í slíkum tilfellum, að þeir fá fyrst biðlaun, en síðan eftirlaun. Þessar stöður við Brunabótafjelagið og Samábyrgðina eru nú ekki þann veg skipaðar, að minni hl. hyggi, að þeir forstjórar, sem þar eru, geti gert nokkra slíka kröfu, þótt þeirra stöður leggist niður vegna breytinga á löggjöfinni, og við höfum ekki í sambandi við okkar brtt. komið fram með neina uppástungu um það, hvernig fara skuli um þá forstjóra, sem verða að láta af stöðu, ef til kemur, m. a. af því, að eftir okkar tillögum er ekki gott að sjá fyrir, hvernig það verður eða hvor þessara tveggja forstjóra það yrði, sem þyrfti að víkja fyrir öðrum manni. Við treystum landsstjórninni til þess, ef til kemur, að sýna sanngirni í þessu og sjá svo til, ef forstjóri þarf að láta af sínu starfi vegna þessarar lagabreytingar, að þá verði honum sýnd samskonar eða svipuð sanngirni eins og hið opinbera sýnir starfsmönnum sínum, þegar verður að víkja þeim frá starfi fyrir það, að staða hefir verið lögð niður eða breyting gerð á embættum eða stöðum, sem hefir þetta í för með sjer.