27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (3763)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Dómsmrh. (Jónas Jónason):

Eftir því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagðist, þá hefir meiri og minni hl. nefndarinnar aðallega borið það á milli, að minni hl. vill ekki, að frv. nái strax til Brunabótafjelagsins, en frv. gerir sjálft ráð fyrir því. Hv. meiri hl. hallast að því, að það nái bæði til Brunabótafjelags Íslands og Samábyrgðarinnar, en gildi ekki um hana fyr en við næstu forstjóraskifti. Lít jeg svo á, að þetta ákvæði sje sett vegna manns þess, sem unnið hefir við Samábyrgðina frá því fyrst að hún var stofnuð, og lengst fyrir lág laun. Hann hefir ávalt unnið ákaflega vel, en eins og tekið hefir verið fram áður, má náttúrlega búast við því, að hans njóti ekki mjög lengi við hjer eftir, svo að jeg skil þetta fyrirkomulag svo, sem hjer sjeu ákveðin einskonar heiðurslaun handa honum fyrir það, hve vel hann hefir staðið í sinni stöðu.

Um slysatrygginguna er ekki hægt að segja neitt að svo stöddu. Það er ung stofnun, en hefir þó, að því er sjest á því skjali, sem hjer með fylgir, orðið mjög dýr í rekstri. En nú hagar svo til, að við hana vinna í hjáverkum margir vel launaðir menn, sem hafa aukakaup fyrir starf sitt þar, og gæti það sennilega að mestu fallið niður með skipulagsbreytingu þeirri, sem hjer er farið fram á.

Þá er Brunabótafjelagið stofnað árið 1915, og því orðið nokkuð gamalt; en það er ekki hægt að segja, að starfræksla þess hafi farið jafnvel úr hendi eins og við samábyrgðina, að minsta kosti. Hin síðari árin sýnist hafa verið frekar ljeleg stjórn á þessari stofnun, og jafnvel ekki hvað síst eftir að fyrverandi stjórn hafði skipað þar nýjan mann, og jeg býst ekki við, að það hafi breytst til batnaðar við það, að forstjórinn hefir nú tekið að sjer fyrir flokk sinn starf, sem annars er talið fullkomið eins manns verk.

Jeg ætla nú ekki að fara langt út í þetta mál. En mjer finst það vera oftraust á sjálfum sjer af hálfu þessa manns, sem ekki sýnist hafa náð alveg út yfir stjórn Brunabótafjelagsins, að hann skuli nú hafa tekið að sjer annað umfangsmikið starf, án þess, að því er jeg hygg, að hafa talað um það við húsbónda sinn, atvinnumálaráðherrann, og þaðan af síður beðið um leyfi til að mega bæta þessu á sig.

Frv. gerir ráð fyrir að sameina undir einni stjórn þrjár tryggingarstofnanir, og jeg býst eins vel við, að fleirum verði bætt við. Er þá auðvitað mikið undir því komið, að stjórn þeirra sje falin reglusömum og heiðarlegum manni. Það er sama, hvaða stofnun það er, sem annaðhvort drykkjumaður stjórnar eða menn vinna við, sem tímum saman eru viti sínu fjær af ölæði, því að þá er og verður stjórnin altaf ljeleg. Það kemur ótrú á fyrirtækið, og þá verður það engum til farsældar. Jeg vonast eftir, að einmitt ef þetta frv. nær fram að ganga, verði það til þess, að ein mikilsverð tryggingarstarfsemi verði upp tekin, nefnilega ellitrygging. Jeg fer ekki út í hana hjer, en hún er samt eitthvert hið stærsta mál þjóðarinnar. Hlutverk slíkra trygginga er ekki aðeins að leysa úr vanda ellinnar fyrir allan þorra manna, heldur líka að skapa í landinu sje til nauðsynlegra framkvæmda, án þess að leita til útlanda. Það er vitanlega óhugsandi, að nokkrar framfarir í Brunabótafjelagi Íslands hafi getað átt sjer stað með þeirri stjórn, sem á því hefir verið síðan Sveinn Björnsson, núverandi sendiherra, ljet af stjórn þess, því að hún hefir, vægast sagt, verið höfð í hjáverkum. Þangað er því ekkert að sækja, sem megi verða þjóðinni fyrirmynd í tryggingarstarfsemi. Er með öllu óþolandi, að slíkar stofnanir sjeu svo reknar, að ekkert gott sje hægt að læra af reynslu þeirra. Þess vegna miðar það frv. sem hjer liggur fyrir, að því að koma heilbrigðu skipulagi á tryggingarmálin, sterku og ódýru, svo að sá vísir til tryggingarstarfsemi, sem hjer er nú, geti smátt og smátt hlaðið utan á sig.

Umhyggja hv. 3. landsk. fyrir þeim mönnum, sem af einhverjum ástæðum er sagt upp starfi í þjónustu ríkisins, er mjög athugaverð. Starfsmenn ríkisins verða auðvitað að vera háðir sömu lögum og starfsmenn annara stofnana, og þar er það heiður þeirra, dugnaður, trúmenska og rjettlæti, sem ákveður það, hvernig þeim vegnar.

Það er óverjandi hugsunarháttur hjá leiðtogum þjóðarinnar og trúnaðarmönnum, að þjóðfjelagið sje mjólkurkýr fyrir þá menn, sem um eitt skeið hafa verið valdir til að starfa fyrir það. Fái sá hugsunarháttur að ráða, myndast latur og sljór embættislýður, oft drykkfeldur og alt of fjölmennur. Menn vita þá, að hvernig sem þeir haga sjer, er landssjóðsjatan samt altaf opin og ekki hægt að losna við þá, þó að nauðsyn beri til. Þjóðfjelagið á að sjálfsögðu á hverjum tíma að velja sína hæfustu menn til opinberra starfa.

— Jeg kem þá að brtt. hv. minni hl. Jeg álít, að fyrsta brtt. sje í sjálfu sjer ekki óskynsamleg, en aðeins óþörf, af því að hver stjórn velur í þessa stöðu með það fyrir augum að hafa sem færastan mann. Jeg þykist vita það, að þegar fyrverandi forsrh. (JÞ) valdi síðast í eina slíka stöðu, þá hafi hann þótst sannfærður um að velja mjög góðan mann, vegna þess að þá sótti maður á móti, sem hafði bestu meðmæli og var aðstoðarmaður við hæstarjett og hefir síðan unnið talsvert afreksverk í vísindalegum efnum. En þessi maður fjekk ekki starfið, og það hlýtur að vera af því, að viðkomandi ráðherra hafi haldið, að sá maður, sem hann valdi, þótt ekki hefði sjerþekkingu, væri best fallinn til þess. Án tillits til þessarar veitingar get jeg vel fallist á, að fyrv. stjórn hafi haft rjett fyrir sjer að því leyti, að rjett geti verið og sjálfsagt að veita slíka stöðu manni, sem hefir almenna tiltrú og dugnað og menningu til að gegna starfinu þótt eigi hafi hann próf. En þar sem fyrv. stjórn veitti ekki embættið eftir hinum ytri skilyrðum, þ. e. viðurkendri sjerþekkingu, virðist mjer koma fram nokkurt vantraust á núv. stjórn, ef brtt. er samþ. Með því væri eiginlega gefið í skyn, að hún mundi velja ver, ef til mannaskifta kæmi, en fyrirrennari hennar. Og jeg sje eiginlega ekki ástæðu til þess fyrir hv. flm. (JÞ) fylgja þessari brtt. fast fram, því að með samþykt hennar væri brotin regla sú, sem fyrv. stjórn fylgdi. M. a. mundi hún útiloka þann mann, sem nú gegnir forstjórastöðunni í Brunabótafjelaginu, en það væri ástæðulaust, ef hann hefði skilyrði að öðru leyti.

Um launahækkunina verð jeg að segja það, að mjer finst hún ekki æskileg, sjerstaklega þegar á það er litið, að á næstu missirum verður ef til vill farið að athuga launamál landsins, og þá ætti hver maður, sem kunnugt er um það, að geta beðið svo sem 1–2 ár eftir því, að laun hans verði ákveðin í sambandi við laun annara starfsmanna ríkisins. Jeg mun því greiða atkv. á móti þessari brtt.

Um 2. brtt. hv. minni hl. er það að segja, sem jeg tók fram áðan í öðru sambandi, að í almennum málum á ekki að líta á hag einstaklingsins, heldur heildarinnar. Þótt einhver maður hafi unnið við einhverja stofnun, og jafnvel þótt hann hafi unnið vel, þá nær ekki neinni átt að draga nauðsynlega skipulagsbreytingu á henni — ef til vill heilan mannsaldur — hans vegna.

Nú vil jeg spyrja hv. 3. landsk. hvort honum detti í hug að halda því fram í alvöru, að vel sje ráðið fram úr þessum málum með því að samþykkja brtt. hv. minni hl. Eftir þeim getur maður búist við því, að frv. geti komið til framkvæmda, þegar forstjórastaðan við samábyrgðina losnar, sem sennilega verður eftir fáein ár. Ennfremur segir hv. þm., að sá maður, sem hann rjeð að Brunabótafjelaginu, sje ungur maður, og má þá búast við, að hann eigi langt líf fyrir höndum. Mundi hann þá, ef brtt. yrði samþykt, verða sjálfskipaður til forstöðunnar.

En er það þá skoðun hv. þm., að Brunabótafjelagið sje nú í svo góðs manns höndum, að þjóðin geti örugg trúað honum fyrir öllum sínum tryggingarstofnunum? Ef fyrv. stjórn hefir ekki tekist að útvega mann með næga sjerþekkingu í þessum efnum, þá er heldur ekki rjett að binda framkvæmdarstjórastöðuna í hinni væntanlegu samsteypu við núverandi forstjóra Brunabótafjelagsins, nema því aðeins, að hægt sje að sanna, að hann sje besti maðurinn, sem völ er á til slíks. Jeg legg því til, að feldar sjeu brtt. á þskj. 583, því þær spilla allar að miklum mun þeirri viðleitni, sem fram kemur í frv.