12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4313 í B-deild Alþingistíðinda. (3775)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Af því að mál þetta er borið fram í Ed. og frsm. nefndarinnar er ekki við, vil jeg fara nokkrum orðum um frv. Frv. þetta hefir verið borið fram sem sparnaðarfrv. og verið vel tekið. Eins og sjest á skýrslunni, sem fylgir frv., á þskj. 296, má búast við, að verulegan sparnað leiði af frv.

Árið 1926 var rekstrarkostnaður þeirra stofnana, er frv. ræðir um, Brunabótafjelagsins, Samábyrgðarinnar og Slysatryggingarinnar, sem hjer segir: Brunabótafjel. um 42 þús. kr., Samábyrgðin um 23 þús. kr. og Slysatryggingin um 14 þús. kr. Á bak við samsteypuhugmyndina liggur sú hugmynd, að einn forstjóri standi fyrir öllum stofnununum, og einnig að líklegt sje, að hægt verði að spara mannahald og húsnæði. Þetta er merkileg tilraun, því að á þennan hátt fæst reynsla um það, hvort slíkar samsteypur gefist betur en margar smáskrifstofur. Um þetta er ekki hægt að fullyrða fyrirfram, en líklegt er, að svo sje.

Hjer kemur og annað atriði til greina. Ef þetta kemst í framkvæmd, er hjer kominn vísir að öðru stærra. Nú eru tryggingarstofnanir landsins dreifðar og veikar, hver út af fyrir sig. Þannig vinna t, d. margir við Slysatrygginguna, að vísu ekki fyrir fult kaup, en enginn beitir sjer fyrir tryggingarmálum. Hjer hefir verið samþ. frv. um búfjártryggingar. Ennfremur er hjer á leiðinni þáltill. um ellitryggingar, — að fela stjórninni að láta rannsaka, hvernig þeim verður best fyrir komið. Hefir að vísu oft verið rætt um ellitryggingar áður, en ekkert verið aðhafst. Þó eru þær eitt hið merkasta framtíðarmál þjóðarinnar. Með þeim skapast sívaxandi höfuðstóll, er lána mætti til tryggrar starfsemi, svo sem bygginga og ræktunar. Jeg hygg einmitt, að með því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, fengist góð aðstaða til að vinna að eflingu þessara tryggingamála og annara. Býst jeg við, að kostur verði á mönnum, sem lært hafa tryggingafræði. Einn hefir þegar lokið námi og annar bætist við næsta vor, og fær nú styrk í fjárlögunum. Þetta er því í senn sparnaðarfrv. og lyftistöng fyrir eflingu tryggingamála í landinu.

Mjer skilst, að hv. 2. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Rang. álíti, að þetta frv. nái ekki nógu langt og ætti að taka víðar yfir. En eins og jeg hefi sagt áður, á þessi stofnun að verða vísir til annars meira. Tryggingarmálin eru í örum vexti hjer á landi. Þetta á að vera stofnun, sem bætir við sig nýjum og nýjum viðfangsefnum. Eins og nú standa sakir, flytja erlendu líftryggingarfjelögin mörg hundruð þúsund krónur út úr landinu á ári hverju. Það er blóðtaka, sem þarf að hindra, og það sem fyrst. Það getur ekki liðið á löngu áður en allsherjartryggingarstofnun verði komið á stofn hjer á landi.

Jeg tel rjett að samþykkja þetta frv. óbreytt, því að verði svo gert, er áreiðanlegt, að meira verður gert til að koma tryggingarmálunum á rekspöl.

„Kritik“ hv. 1. þm. Skagf. var í því fólgin, að gera þyrfti eðlisbreytingar á lögum Brunabótafjelagsins. Þetta frv. útilokar alls ekki, að svo verði gert, því að hjer er aðeins um breytingu á stjórnarháttum fjelagsins að ræða. Eftir forsendum hans hefði átt að breyta lögunum af því að fjelagið væri vaxið upp úr þeim stakk, er þau sníða því. En hv. þm. getur mæta vel fylgt frv. út frá þessum forsendum sínum. Með þessu frv. er tryggingarstofnununum, að Brunabótafjelaginu meðtöldu, sjeð fyrir því stjórnarfyrirkomulagi, sem veitir þeim best vaxtarskilyrði.