12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4315 í B-deild Alþingistíðinda. (3776)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Gunnar Sigurðsson:

Jeg vil aðeins leiðrjetta þann misskilning, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Skagf., að mál þetta hefði ekki verið tekið fyrir á nefndarfundi. Hann var ekki viðstaddur, er það var tekið fyrir, en hinsvegar við þrír, er stöndum undir nál.

Jeg vil aðeins stuttlega gera grein fyrir fyrirvara mínum. Þótt mjer finnist, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, að frv. gangi ekki nógu langt, tel jeg þó sjálfsagt, að það nái fram að ganga. Það liggur í augum uppi, að hagkvæmara er, að allar tryggingar sjeu undir sömu stjórn, bæði hvað snertir kostnað og rekstur þeirra mála.

Þá var fyrirvari minn einnig með tilliti til 25. gr. laganna frá 1915. En eins og hæstv. dómsmrh. tók fram, mun vera hægt að taka tillit til þeirrar greinar síðar, og að mínu áliti er ekki nauðsynlegt, að breytingin fari fram strax. Vil jeg leggja til, að breytingin gangi í þá átt, sem 25. gr. gerir ráð fyrir, þar sem hin eldri lög eru ekki úr gildi numin, þótt þetta frv., sem aðeins fer fram á samsteypu, verði samþykt.