12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4320 í B-deild Alþingistíðinda. (3780)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Jeg gat ekki verið viðstaddur, þegar þetta mál var tekið fyrir, og bjóst heldur ekki við, að það mundi koma svo fljótt, eftir þeirri röð, sem málin voru í á dagskránni. Jeg veit því ekki, hvað hv. þm. kunna að hafa sagt, og býst við, að það sje þegar fullseint að gera grein fyrir ástæðum meiri hlutans. Jeg vona þó, að þetta valdi ekki neinu tjóni, því málið er svo einfalt, að hv. deildarmenn ættu vel að geta áttað sig á því.

Það hefir mjög verið talað um það hin seinni árin, að fjöldi starfsmanna ríkisins væri alt of mikill og nauðsynlegt væri að finna einhverja hentuga leið til þess að sameina ýms embætti, svo hægt væri á þann veg að fækka starfsmönnum ríkisins. Þetta frv. er því borið fram í samræmi við þá stefnu og miðar að því að koma á eina hönd störfum, er fleiri hafa gegnt. Það er því auðsætt, að það leiðir til sparnaðar fyrir þjóðfjelagið, ef þessi tilhögun verður tekin. Jeg get líka bent á annað atriði, sem gefur líkur fyrir því, að ávinningur verði að því á annan hátt, ef þessi skyldu mál komast undir eina yfirstjórn. Eins og kunnugt er, á íslenska þjóðin mikið óunnið í tryggingamálum, og er frekari von til þess, að með þessari sameiningu fengist sú forganga, sem nauðsynleg er til þess að koma þessum málum í gott horf.

Jeg kom að í því er frsm. minni hl. lagði það til, að þessu máli yrði vísað til stjórnarinnar með það fyrir augum, að það yrði íhugað betur og svo lagt fyrir næsta þing. Get jeg ekki sjeð, að þetta sje nauðsynlegt. Að vísu heyrði jeg ekki ástæður hv. þm. fyrir þessu, en jeg fæ ekki sjeð, að þetta atriði, sem hann nefndi, komi í bág við frv. Hinsvegar á það fyllilega skilið, að því sje gaumur gefinn. En mjer finst það óþörf tímaeyðsla, að bíða með það mál eitt ár enn.

Eins og hv. þd. hefir tekið eftir, hafa 2 nefndarmenn skrifað undir nál. með fyrirvara, og geri jeg ráð fyrir því, að þeir geri grein fyrir honum, og hafi ef til vill þegar gert það. Verð jeg svo fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar að halda fast við till. hennar í nál. og vænti þess, að hv. deild samþ. frv. eins og það liggur fyrir.