20.03.1928
Efri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4362 í B-deild Alþingistíðinda. (3793)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður, með því að hæstv. fjmrh. var bæði fáorður og meinlaus í minn garð. Hann mótmælti, eins og hv. frsm meiri hl., því, að samkomulag hefði orðið um málið á síðasta þingi. Það er rjett, að það varð ekki samkomulag alls þingsins um þetta, en það var samkomulag milli Íhaldsflokksins og nokkurra framsóknarmanna í hv. Nd., enda hefðu lögin annars ekki náð fram að ganga í því formi, sem þau nú eru. Hæstv. fjmrh. hjelt því fram, að breyting hefði orðið á stefnu okkar hjer í deildinni í fyrra, en þetta stafar af því, að hann hefir ekki næga þekkingu á þessum málum og skilur því ekki þetta. Hann hefir aldrei verið starfandi í banka, og getur því ekki lagt dóm á þetta. Annars trúi jeg ekki, að hann vilji halda því fram, að allar aðrar þjóðir, sem fylgja þessum reglum, sem við höldum fram, sjeu vitfirringar; þjóðir, sem hafa miklu meiri þekkingu og reynslu en við í þessum efnum. Jeg vildi óska þess, að hæstv. fjármálaráðherra og hans flokkur vildi gefa sjer tíma til að setja sig inn í málið áður en til atkv. er gengið. Þá sagði hæstv. ráðh., að matsnefndin hefði neitað að láta af hendi skýrslu um málið. Jeg kannast nú ekki við þetta. Nefndin gaf þá skýrslu, sem venja er að gefa um svona mat. (Fjmrh. MK: Er þetta nokkur skýrsla, þessi ómynd?). Þá sagði hæstv. ráðh., að hann hefði með miklum eftirgangsmunum fengið upplýsingar um það frá nefndinni, hvernig tapið skiftist milli bankans og útibúanna. Við vorum spurðir að, hvort formaður mætti gefa skýrslu um þetta, og svöruðum því þegar játandi. Jeg get sagt hæstv. ráðh. það, að svo langt var ekki gengið við matið á Íslandsbanka.

Þá sagði hæstv. ráðh., að nefndin hefði ekki tekið með í reikninginn gróða ársins 1927. En hvernig átti hún að geta vitað um, hver hann varð. En hún mun hafa tekið fram, að sá gróði ætti að dragast frá væntanlegu tapi, hver sem gróðinn yrði. Þá sagði hæstv. fjmrh., að ekki væri nema eðlilegt, að þetta væri alt háð pólitík, og sagði, að bankaráðið hefði verið kosið eftir pólitík í fyrra. En hvað er það, sem nú er að gerast? Það er verið að setja bankann undir einvaldan flokksráðherra.

Jeg skal taka það fram, að jeg væri ekki svo mjög kvíðinn um þetta, ef hæstv. fjmrh. rjeði þessu einn. En það er nú ekki svo, að hann sje einn í stjórn landsins, og því þykir mjer þetta ískyggilegt. Jeg get tæplega verið að fást við einstök atriði. Til dæmis það, að bankastjóri skuli skrifa athugasemd í dagbók bankans, ef eitthvað það gerist í fjarveru hans, sem hann er ósamþykkur. En þetta er þó ekki svo lítilsvert. Það hefir komið fyrir, og líka hjer á landi, að bankastjóri hefir farið burtu til þess að koma á hina bankastjórana að veita lán, sem hann þorði ekki sjálfur að bera ábyrgð á.

Jeg endurtek það, að þess er ekki að vænta, að hæstv. ráðh. viti þetta, því að hann hefir ekki þekkingu á svona málum. (Fjmrh. MK: Mikið er sjálfsálitið).

Hæstv. ráðh. viðurkendi það að lokum, að hann hefði athugað þetta frv., en lýsti samt yfir því, að hann hefði haft of nauman tíma til að athuga það nægilega. (Fjmrh. MK: Alls ekki, jeg sagðist hafa athugað það). Mjer finst þetta mál vera svo stórt og mikilsvarðandi fyrir þessa þjóð, að mjer finst það vera of mikil fljótfærni og að það sje jafnvel hættuleg fljótfærni, ef farið er þannig með svona mál. Þess vegna vildi jeg óska þess, að hæstv. forseti gæfi hv. þm. heimild til þess að athuga málið í ró og næði til morguns og láta atkvæðagreiðsluna þá fyrst fara fram.

Jeg skrifaði ekki hjá mjer fleiri atriði úr ræðu hæstv. fjmrh., vegna þess að mjer þótti ekki fleira þess virði, að farið væri að ræða það.