20.03.1928
Efri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4365 í B-deild Alþingistíðinda. (3794)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Hv. frsm. meiri hl. vjek í upphafi ræðu sinnar dálítið að eldri skoðunum og ákvæðum um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Landsbankans og afstöðu fyrverandi stjórna þar til. Þessi ummæli hv. þm. fjellu á þann veg, að jeg get ekki látið þau standa óathuguð, og þó að það, sem hv. þm. sagði nú, væri kannske endurtekning af einhverju, sem áður hefir verið sagt, og hafi áður verið svarað, þá get jeg ekki skoðað það sem neina afsökun, eða svo sem það veiti neina undanþágu frá að svara því nú aftur, úr því að það kemur fram á ný.

Það var yfirleitt skoðun lögfræðinga áður, að lög um Landsbankann frá 1885 væru tæmandi að því er snertir afstöðu ríkissjóðs til bankans, og að ríkissjóður bæri þess vegna ekki aðra ábyrgð á bankanum eða hefði aðrar skuldbindingar fyrir hann að lögum en þær, sem þar voru beint til teknar. En hitt, að hann var ríkisstofnun, gerði það, að sú stjórn, sem sat hjer frá 1922–1923, eða þáverandi bankamálaráðherra, dró þá ályktun, að ríkisstjórninni væri heimilt að taka á sig skuldbindingar fyrir bankann með sjerstökum gerningi í hvert skifti, áleit það stjórninni heimilt án þess að fá umboð frá Alþingi. Í þessu liggur viðurkenning um það, að án slíks gernings væri ríkisstjórnin ekki ábyrg fyrir skuldbindingum hans, og um þetta var enginn ágreiningur milli hinnar íslensku stjórnar og þeirra útlendinga, sem veittu bankanum lán. Það, sem svo urðu nokkrar deilur um, m. a. á síðasta þingi, var það, hvort stjórnin gæti þannig skuldbundið ríkið eða þyrfti að hafa sjerstakt umboð frá Alþingi til þess, og það er náttúrlega, ef svo má segja, mál um skiftingu valds í landinu á milli umboðsvalds og löggjafarvalds, en skiftir ekkert það mál, hvort ríkissjóður að lögum beri ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans.

Jeg hefi altaf litið svo á, eftir að hafa rannsakað það, að ríkissjóður bæri ekki að lögum ábyrgð á skuldbindingum bankans, en náttúrlega gat ríkið, hvenær sem því sýndist, gengið í ábyrgð fyrir skuldbindingum hans. En hvort stjórnin þurfti samþykkis þingsins til þess, var alt annað mál, en hún varð að framkvæma þetta í hvert skifti gagnvart lánardrotni Landsbankans. Það var þess vegna í lögunum frá 1927 ekki gerð nokkur breyting á þessu atriði frá því, sem áður hafði verið. Það stóð við það sama, að alment tekið átti ríkissjóður ekki að bera ábyrgð á skuldbindingum bankans, ekki nema það, sem sjerstaklega var fyrir mælt í hvert sinn. Þetta hefir áður komið fram í löggjöfinni, og að svo hafi verið, sjest m. a. í hverjum lögum, sem sett hafa verið um veðdeild Landsbankans. Þau hafa inni að halda tryggingarákvæði um veðbrjef Landsbankans, og þessi ákvæði hafa verið mismunandi fyrir veðdeildarflokkana, og sumstaðar ákveðið svo, að ríkissjóður bæri ábyrgð að einhverju leyti, en sumstaðar enga. Jeg held t. d., að það hafi verið svo um 1. flokk, en sumstaðar átti ríkissjóður að bera fulla ábyrgð, t. d. um 4. flokk, en á eftir öðrum tryggingum. Þetta sýndi greinilega, að löggjafarvaldið leit svo á, að það yrði að tiltaka það á einhvern hátt, ef ríkissjóður átti að verða ábyrgur fyrir skuldbindingum bankans. (JBald: Hvers vegna þurfti þá að takmarka ábyrgðina í Landsbankalögunum í fyrra?). Það var vegna þess, að ákveðinn, merkur lögfræðingur ljet í ljós gagnstæða skoðun. Það var með rjettu álitið óviðeigandi, að um jafnmikilvægt atriði gæti verið nokkur óvissa. Nú er stungið upp á þeirri breytingu í þessu frv., að ríkissjóður taki fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans innanlands, en á nýjum, erlendum lánum svo, að lagaheimild komi til í hvert sinn, og er hið síðara í samræmi við það, sem sagt er í lögum frá 1927, að til ábyrgðar á skuldbindingu bankans þurfi sjerstaka heimild í hvert sinn. En það er farið fram á það hjer í þessu frv., að ríkissjóður bæti á sig ótakmarkaðri ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans innanlands.

Jeg skal nú játa það, og jeg hefi altaf sagt það, að ef hjer væri að ræða um seðlabanka einungis, þá er hægt að ræða um slíka tillögu, og það getur verið álitamál, hvort ekki væri rjett að taka upp eitthvert slíkt ákvæði, ef eingöngu væri um seðlabanka að ræða; þá yrði að skoða slíkt ábyrgðarákvæði í raun og veru hliðstætt því, ef ríkisstjórnin vildi ábyrgjast það, að stofnfje seðlabankans væri jafnan fyrir hendi og óskert, og það er vikið að því í nál. minni hl. og hefir verið um það getið hjer í dag, þó að hæstv. fjmrh. hafi ekki haft það rjett eftir, að slík ábyrgð fyrir seðlabanka getur verið önnur leið til að afla honum stofnfjár. Ábyrgðin er tekin og freistað þess, hvað hann geti unnið sjer inn upp í stofnfjeð með arði sínum á komandi árum. En eins og þetta ber nú að, þá er hjer um alt annað og miklu víðtækara spor að ræða með þessari ábyrgð. Það er farið fram á það að taka ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum veðdeildarinnar, sem er ásæðulaust, því að í lögum veðdeildarinnar eru ákveðin fyrirmæli um það, hvort ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum hvers flokks, og hvernig hann gerir það, og því er haldið í því frv. um framhald á veðdeildinni, sem hefir verið lagt fyrir þetta þing og nú er í Nd. En uppástungan í þessu frv. er ábyrgðarfull, ljettúð, sem ekki getur verið til annars en að rýra traust þess aðilja, sem slíka ljettúð sýnir um almenna ábyrgð fyrir sparisjóðsdeild bankans. Þetta er sú stærsta ábyrgð, sem orðuð hefir verið hjer á landi, því að Landsbankinn hefir nú stærsta sparisjóð á landinu í sambandi við aðalbanka sinn hjer og allstóra sparisjóði við öll útibú sín. Jeg hygg, að reynsla manna með útibú þessa banka sje á þá leið, að ekki muni þykja líklegt, að tala þeirra verði aukin fyrst um sinn. En eins og nú er vantar mikið á það, að allir landsmenn geti náð til Landsbankans eða útibúa hans. Þau rjettindi, að fá ríkisábyrgð fyrir innlögum sínum, eru því tilskilin þeim einum, sem búa í námunda við aðalbankann eða útibú hans. En ef á að taka ábyrgð á sparifje þeirra manna, sem ná til Landsbankans og útibúa hans, en sú ábyrgð á ekki að ná til hinna, sem verða að ávaxta sitt sparifje í þeim öðrum sjóðum og útibúum annara banka, sem hjer eru, þá er þetta fáránlegt misrjetti, sem ekki getur átt sjer stað til lengdar. Afleiðingin af slíkri ótakmarkaðri ábyrgð verður sú, að ríkissjóður verður einnig að taka að sjer samskonar ábyrgð á innlánum manna í aðra sparisjóði, eða í svo marga, að allir landsmenn eigi kost á að nota sjer ábyrgð ríkissjóðs fyrir sparifje sínu. Það getur vel verið, að sá meiri hl., sem nú er í þinginu, telji forsvaranlegt að gera þetta; en það er varhugavert. Við höfum sjeð þess dæmi nýlega, að það geta komið þær kreppur, að Landsbankinn geti ekki svarað út öllu innstæðufje, sem þar stendur, og það er varhugavert að haga þessu máli þannig, að ríkið neyðist til að gefa sig upp eða verði gjaldþrota, þó að jafnvel dynji yfir þeir tímar, að innstæðufje almennings geti ekki haldið áfram að vera óskert. En ef sú væri meiningin að láta Landsbankann og útibú hans hafa þessi forrjettindi, af því að Landsbankinn er opinbert fyrirtæki, eða ríkiseign, sem kallað er, en láta aðra sparisjóði ekki njóta sömu rjettinda, þá er með þessu ákvæði alveg áreiðanlega bruggað banaráð öðrum sparisjóðum í landinu, því að jafnvel þó að það sjeu erfiðleikar á því fyrir menn í öðrum hjeruðum að sækja til Landsbankans og hinna tiltölulega fáu útibúa hans, þá fer það samt svo, ef menn eiga ríkissjóðsábyrgð þar, en ekki heima í hjeruðunum; þá taka menn innstæðu sína út úr sparisjóðnum heima og senda hana til Reykjavíkur eða til einhvers útibús bankans. Þannig verður þetta til að draga blóð úr öllum sparisjóðum landsins og veita því til Landsbankans, hvenær sem það kemur fyrir, að menn hjer á Íslandi fara að óttast það, að einhver kreppa komi yfir.

Þetta álít jeg afsskaplega rangt að gera. Jeg álít, að fyrir efnalegar framfarir landsins sje það nauðsynlegt, að þær peningastofnanir, sem upp eru komnar í ýmsum hjeruðum og hafa verið starfræktar jafnvel miklu viturlegar á þessum erfiðu árum heldur en Landsbankinn og útibú hans, fái að starfa án skaðlegrar samkepni frá hendi hins opinbera. Jeg álít varhugavert að fara svo að, að þær eigi ekki annað eftir en veslast upp af þeirri tæringu, sem af því leiðir, að ríkissjóður ber ekki ábyrgð á innstæðum manna í þeim, en ber aftur á móti ábyrgð á innstæðufje Landsbankans í Reykjavík og útibúa hans.

Jeg skal nefna þá tvo sparisjóði, sem jeg hygg, að hafi verið næststærstir í landinu yfir stríðstímabilið. Það eru sparisjóðirnir á Sauðárkróki og Blönduósi. Mjer er sagt, að sparisjóðurinn á Sauðárkróki hafi tapað einni lítilli upphæð, sem var innan við hundrað kr., og hinn sama sem engu. Þegar slík starfsemi er að vaxa upp í hjeruðunum, borin uppi af íbúum hjeraðanna, þá er ekki rjett að gera neitt það, sem leggur þetta í auðn og dregur fjármagnið til Reykjavíkur eða annara þeirra staða, þar sem útibú Landsbankans eru. Hinsvegar er í lögunum frá 1927 þannig gengið frá þessu, að í raun og veru þurfa þeir, sem nú eiga sparifje sitt inni í Landsbankanum, ekkert að óttast, vegna þess að það var áður búið að fá Landsbankanum nokkurt innskotsfje frá ríkissjóði til tryggingar skuldbindingum hans, og lögin frá 1927 segja, að það skuli halda áfram að vera sem trygging fyrir sparisjóðsdeild bankans, þar til varasjóður hennar er kominn upp í 10% af innstæðufje, sem talið er fullkomlega tryggilegt.

Þetta er nú viðvíkjandi 1. gr., eins og hún er í frv. sjálfu, en svo ber hv. meiri hl. nefndarinnar fram brtt. við þessa grein, og þar sýnist mjer skjóta heldur skökku við, og jeg held, að það væri ráð fyrir hv. meiri hl. og hæstv. fjmrh. að segja lítið um, að það þurfi ekkert að tala um þetta frv. og að best sje að láta það ganga fram athugasemdalaust.

Þessi fyrsta brtt. fer fram á það, að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, innlendum og útlendum, og það er þá útfærsla ábyrgðarinnar frá því, sem er í frv. En svo kemur framhaldið: „Til þess að taka lán erlendis án tryggingar í sjálfs sín eignum, sbr. 15. gr., þarf sjerstaka lagaheimild í hvert sinn, að undanteknum lánum þeim, er ræðir um í lögum nr. 10, 31. maí 1927, svo og lánum þeim, er koma kunna í stað þessara lána“. Þessi 15. gr., sem í er vísað, er sú grein í Landsbankalögunum, sem segir, að seðlabankinn megi taka lán gegn tryggingu í sjálfs sín eignum. Til þess að setja slíka tryggingu þarf samþykki bankaráðsins og ráðherra, en í brtt. er nú farið að gera ráð fyrir því, að Landsbankinn taki lán án tryggingar í sjálfs sín eignum, og veit jeg ekki, hvað hv. meiri hl. hugsar sjer með því. Það getur ekki komið fyrir; það fær engin stofnun milli himins og jarðar lán án þess að hennar eignir sjeu til tryggingar fyrir láninu, svo að það þarf ekki að gera ráð fyrir því, sem segir í seinni hluta brtt. Það er hreinn og beinn misgáningur að hafa sett þetta nokkurntíma á prent. Það kemur sem sje aldrei fyrir með Landsbankann, fremur en aðra banka, að þeirra eigin eignir standi ekki sem trygging fyrir skuldum þeirra; en eins og greinin er orðuð, verður ekki annað skilið en að slíkt þurfi ekki að eiga sjer stað. (JBald: Þetta er misskilningur). Það er ekki misskilningur hjá mjer, en það kann að vera, að hv. meiri hl. meini eitthvað annað en í brtt. stendur, og þá ætla jeg ekki að reyna að geta í eyðurnar um það, hver meiningin er. Jeg treysti mjer ekki til þess, en eins og brtt. er orðuð, þá stendur alt efni hennar í fyrstu línu. Hvenær sem bankastjórnin notar heimild 15. gr. til að taka lán gegn tryggingu í eignum bankans, þá ber ríkissjóður ábyrgð á því, en því neitar hv. meiri hl., að um það sje getið í greininni, og dettur mjer þá í hug, að þetta sje einhver prentvilla í greininni; jeg get ekki sagt um það.

Þá skal jeg víkja að 2. gr. frv., sem er um stofnfjeð. Hv. frsm. minni hl. hefir þegar tekið það fram, og vísað til álits meiri hl. fjhn. frá því í fyrra, að það geti komið fyrir, að niðurstaðan af því mati, sem þá var ákveðið á bankanum, kynni að gera nauðsynleg einhver önnur ákvæði um stofnfje bankans. Út af þessu var það, að fjhn. öll bað formann sinn að bera upp þá spurningu fyrir fjmrh., hvort nefndin gæti fengið nokkra vitneskju um matið á bankanum, svo að þá yrði bygð ákveðin ályktun um stofnfjárþörf bankans. En formaður nefndarinnar, sem er hv. 2. þm. S.-M., flutti þau boð frá fjmrh., að hann óskaði ekki að láta nefndinni í tje neina vitneskju um niðurstöðuna af matinu. Bæði hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. hafa síðan gert tilraun til að mæla á móti því. Jeg skal nú ekki koma með nein mótmæli gegn því, þótt hæstv. fjmrh. taki þá afstöðu að mæla á móti þessu, því að það er hans að ákveða um það. En hitt er varla nema undandráttur, og varla sæmandi nokkurri stjórn, að bera það fram, að hún geti ekki gefið upplýsingar í málinu, af því að hún hafi ekki fengið nema svo litlar upplýsingar. Það ætlast enginn hjer í deildinni til þess, að stjórnin láti nefndinni í tje upplýsingar fram yfir það, sem hún hefir fengið frá matsnefndinni. En það stendur fast, að stjórnin hefir ekki viljað láta fjhn. fá þær upplýsingar um hag bankans, sem matsnefnd hefir látið hana fá. Jeg er ekkert að finna að þessu, en það verður að segja það eins og það er, að á meðan nefndin getur ekki fengið neinar slíkar upplýsingar, þá getur hún heldur engar tillögur um breytingar á ákvæðum um stofnfje bankans bygt á því.

Það hefir verið talað um það eins og það væri aðfinsluvert, að stjórninni hefir ekki verið gefin upp nema ein tala af nefndinni, sem þó síðar var sundurliðuð. En mín skoðun er sú, að eftir ákv. í 57. gr. bankalaganna, þá sje þar ekkert, er bendi til þess, að ætlast sje til, að stjórninni sje gefin sundurliðuð skýrsla um viðskifti einstakra skuldunauta bankans við hann.

Og jeg held, að nefndin sje í góðum rjetti, þó hún vilji ekki láta stjórn í tje slíka skýrslu. Yfirleitt er það svo, þegar svona mat fer fram, að niðurstaðan er fólgin í einni tölu. (JBald: Hún er ekki altaf rjett). Annað mál er það. En hjer er ekki verið að tala um það, hvernig matið hafi tekist. Og það er alls ekki aðfinsluvert, þó stjórnin hafi ekki fengið nema þessa einu tölu.

Það er rjett, að því var beint til hæstv. fjmrh., hvort hann vildi gefa fjárhagsnefnd frekari upplýsingar um niðurstöðu matsnefndarinnar, en því var svarað neitandi.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að eftirlitinu í bankanum, til viðbótar því, sem hv. frsm. minni hl. sagði. Um það eru ítarleg ákvæði í lögum frá 1927, og er þar svo gengið frá, að Alþingi og stjórn hafi jöfnum höndum aðstöðu til að ganga eftir því, að eftirlitið sje framkvæmt. Annars skal jeg játa, að það er vafasamt, hvort heldur á að taka slík ákvæði í lög eða reglugerð. En nauðsynlegt er, að ekki sje vanrækt að setja tryggilegt ákvæði um eftirlit með bankanum. En hvernig stendur nú á því, að stjórnin leggur svo mikið kapp á að fá flest eftirlitsákvæðin úr lögum numin samtímis því, sem ríkissjóður á að taka á sig ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum bankans? Jeg get fyrir mitt leyti ekki fundið nokkra heila brú í því, að setja þetta tvent hvort við hliðina á öðru. Jeg vil nú ekki gera hv. meiri hl. neinar getsakir út af þessu, en jeg býst við, að fleiri en jeg hnjóti um þetta. Jeg held, að svo framarlega sem hv. meiri hl. vill halda fast við það ákvæði, að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum bankans, þá sje það skylda hans að fella niður úr frv. öll þau ákvæði, er miða að því að rýra eftirlit Alþingis með honum. Því það lítur ekki vel út hjá þjóð, sem þó telst lifa við þingræði, að taka upp þá stærstu og víðtækustu ábyrgð á þjóðina, sem nokkurntíma hefir verið orðuð, en taka jafnframt burtu þau tryggingarákvæði, er þóttu nauðsynleg, þó ríkissjóður bæri ekki slíka ábyrgð.

Hv. frsm. meiri hl. komst svo að orði í ræðu sinni, að minni hl. hefði verið með hótanir til Landsbankans og gert tilraun til þess að rýra álit hans. Þetta er alls ekki rjett. Við höfum hvorki haft í hótunum við hann nje gert tilraun til þess að rýra álit hans. En það verður ekki komist hjá því, þegar svona till. koma fram, að benda á, að valdhafarnir verða að fara varlega í till. sínum. Og það er full ástæða til þess að benda á það einmitt nú, þar sem sum ákvæði þessa frv. ganga lengra en áður hefir átt sjer stað í því að beita flokkspólitík gangvart Landsbankanum. Eins og hv. þdm. muna, lagði milliþinganefndin til, að 15 manna bankanefnd skyldi vera yfir bankanum. Fyrv. stjórn tók svo þetta ákvæði í frv. það, er hún bar fram. Ekki af því, að henni fyndist það svo girnilegt, heldur af þeirri ástæðu, að henni fanst ekki taka því að fara að gera ágreining um þetta. Og jeg hefi aldrei heyrt nema eina ástæðu borna fram fyrir þessari tilhögun, og hún er sú, að hugsanlegt væri, að þessi 15 manna nefnd, þó kosin væri af Alþingi, yrði ekki eins bundin flokksböndum og þingið sjálft.

Nú fór það samt svo, að þetta var felt burt á síðasta þingi, því það þótti óþarfi og menn höfðu enga trú á því, að þessi nefnd yrði hlutlausari í vali sínu í bankaráðið heldur en þingið sjálft. En til hvers er nú verið að koma með þessa breytingu á æðstu stjórn bankans nú? Jeg fæ ekki betur sjeð en að hún sje notuð sem átylla til þess að setja af alla núverandi þingkosna bankaráðsmenn. Skal jeg að vísu játa, að þetta er ekki ljóst, og því vil jeg leyfa mjer að leggja þá spurningu fyrir hæstv. fjmrh., hvort það sje tilætlunin og skilja beri ákvæði frv. svo, að þessir 4 bankaráðsmenn, er á að kjósa, skuli strax taka sæti í bankaráðinu, eða að þeir taki við af þeim þingkosnu jafnóðum og þeirra kjörtímabil er útrunnið. — Jeg vildi helst mega geyma mjer framhald þessarar ræðu minnar, þar til hæstv. fjmrh. hefir svarað þessari spurningu minni. Og þó hæstv. forseti vilji þá telja þetta sem tvær ræður, mun jeg sætta mig við það og geyma þá til 3. umr. það, sem jeg mundi hafa sagt nú. En sem sagt, þá vil jeg helst ekki tala meira um þetta fyr en jeg hefi fengið svar við þessari spurningu minni frá hæstv. fjmrh., sem ber ábyrgð á þessu frv.