20.03.1928
Efri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4393 í B-deild Alþingistíðinda. (3796)

103. mál, Landsbanki Íslands

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg þarf engu að svara hv. frsm. meiri hl. Hann gaf ekkert tilefni til þess. En vegna þess að hv. 3. landsk. skoraði á mig að standa upp aftur, vil jeg verða við tilmælum hans. Skal jeg þá fyrst víkja nokkrum orðum að hv. frsm. minni hl., áður en jeg vík að ræðu hv. 3. landsk.

Aðalrökin hjá þessum hv. þm. (BK) voru þau, að ekkert mark væri takandi á mjer í þessu máli, þar sem jeg hefði aldrei fengist nokkuð við bankastarfsemi. En jeg get sagt hv. þm., að jeg hefi nú einmitt fengist nokkuð við þess háttar starfsemi, þótt það sje vitanlega engan veginn nóg til að gera mig nokkurn sjerfræðing í þeim efnum. Jeg var á sínum tíma í stjórn Sparisjóðs Norðuramtsins, og jeg hefi stundum verið fenginn til að gegna bankastjórastörfum í fjarveru aðalbankastjóra. Eftir þessar upplýsingar vona jeg, að hv. frsm. finnist það engin goðgá, þótt jeg leggi hjer orð í belg. Annars datt mjer það í hug, að mikið er sjálfsálit þessa manns. Það lítur út fyrir, að hann haldi, að enginn annar á þessu landi hafi nokkurt vit á fjármálum, og þá síst bankamálum. Jeg vona, að honum megi auðnast að lifa sem allra lengst í þessari sælu trú, og vil jeg ekki gera neitt til að raska rósemi hans.

En það var annað einkennilegt hjá hv. frsm. minni hl. Hann var að knýja mig sagna um starf þeirrar matsnefndar við Landsbankann, sem hann er sjálfur í; þessarar nefndar, sem bæði hann og flokksbræður hans hafa fyrirskipað, að haldi öllu leyndu. Hann spyr mig og liggur mjer á hálsi fyrir að gefa honum ekki upplýsingar um, hvað hann hefir sjálfur gert. Þetta tekur engu tali. Mjer virðist óneitanlega, að það sje hann, sem á að koma hjer og gefa mjer skýrslu, en ekki jeg honum. Aðalorsökin, sem veldur þessu vandræðaskrafi hjá hv. þm., mun vera sú, að honum fellur þungt að sjá, að andstæðingar hans hafi í náinni framtíð ráðstöfunarrjett um þessa stofnun, Landsbankann.

Háttv. þm. er sí og æ að stagast á því, hve hættulegt þetta einveldi sje, sem stefnt sje að með frv. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje nokkur eðlismunur á því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir, og því, sem fyrir honum vakir. Það er síður en svo einveldiskeimur af því, að mannmörg nefnd, valin af þingflokkunum með hlutfallskosningum, annist yfirstjórn bankans. Háttv. þm. ætti að gera sig rólegan, þar sem mikil líkindi eru til, að hans flokkur komi til með að hafa þar allmikinn íhlutunarrjett.

Þá mun jeg reyna að verða við áskorun háttv. 3, landsk., því að svo undarlega brá við, að hann þóttist ekki mega mæla fyr en hann heyrði álit mitt í þessu máli. Hann hefir þó ekki að jafnaði hingað til þótst þurfa að draga sig í hlje, þótt honum væri ókunnugt um afstöðu annara í þeim málum, sem hann lætur til sín taka. Jeg ætla fyrst að víkja að nokkrum smávægilegum atriðum, áður en jeg svara beinlínis spurningunni, sem hann lagði fyrir mig.

Þessi hv. þm. hefir aðallega gert að umtalsefni, hve óheppilegt væri, að ríkið tæki að sjer ábyrgð á Landsbankanum. Jeg gat þó ekki skilið orð hans á annan veg en þann, að í raun og veru teldi hann ekki miklu skifta, hvort ábyrgðin væri sú lagalega eða siðferðislega, því að í augum almennings stæði ríkið sem eigandi bankans á bak við skuldbindingar hans. (JÞ: Jeg sagði ekkert orð um þetta). Þetta sagði hann, að hvort sem ábyrgðarskyldan væri lögfest eða ekki, þá stæði það svo í huga almennings, að tryggingarskyldan hvíldi á ríkissjóði. (JÞ: Hæstv. fjmrh. fer Jóna-vilt. Það var nafni minn, háttv. 5. landsk., sem sagði þetta). Ennfremur sagði háttv. þm., að fleiri leiðir væru til en þessar tvær. Og jeg skal þegar geta þess til stuðnings mínu máli, að jeg veit ekki betur en þegar þetta mál kom fyrst inn í þingið 1926, þá væri háttv. 3. landsk. ekki búinn að átta sig á þessari hættu, er ríkissjóði gæti stafað af skuldbindingum bankans. Mjer finst því ekki með öllu ótrúlegt, að hv. þm. gæti aftur skift um skoðun við nánari athugun frv. og fallist á það fyrirkomulag, sem þar er gert ráð fyrir. Það eitt er víst, að háttv. þm. leist ekki fráleitlega á það framan af. En jeg vil geta þess til, þó jeg þori ekki að fullyrða neitt um það, að orsökin til þess, að hann söðlaði um, muni hafa verið sú, að hann hafi viljað mikið til vinna að kaupa fylgi hv. 1. þm. G.-K. alldýru verði til þess að missa hann ekki úr flokknum, og þess vegna hafi hann fallist á allar firrur háttv. 1. þm. G.-K., er lesa má í frv. eins og háttv. Alþingi samþ. það í fyrra. Jeg þori hiklaust að fullyrða, að svo mikill Sjálfstæðismaður sem hv. 1. þm. G.-K. hefir altaf verið, svo mikill framfaramaður, svo mikill bankafræðingur og svo mikill vísindamaður, — jeg vil segja meira en að eigin áliti —, þá hafi hann ekki altaf kunnað jafnvel við sig í Íhaldsflokknum. Jeg er hræddur um, að vistin hafi verið honum stundum lítt bærileg og hann hafi orðið að leggja á sig ýmsar þjáningar til þess að þola hana. Hinsvegar hafi háttv. 3. landsk. orðið að bjóða allmikið í háttv. 1. þm. G.-K. til þess að hann gengi ekki úr vistinni.

Jeg skal þá víkja lítillega að þeim tveimur atriðum, sem háttv. 3. landsk. hefir lagt mikið upp úr, og það er þetta: Meginástæðan til þess, hvað minni hl. álítur varhugavert, að sú breyting komist á, sem í frv. felst, er tryggingarfyrirkomulag landssjóðs gagnvart Landsbankanum.

Háttv. þm. segir, að í raun og veru lægi beint við, og verði enda að teljast sjálfsagt, ef ábyrgðarskyldan er samþykt, að taka samskonar ábyrgð á öllu innstæðufje sparisjóðanna alstaðar á landinu. Og jafnvel það eitt út af fyrir sig gæti orðið til þess að baka ríkissjóði gjaldþrot. Ennfremur segir hv. þm., að veiti ríkissjóður ekki sparisjóðunum samskonar hlunnindi og bankanum, þá sje það sama sem að brugga sparisjóðunum banaráð. Þetta er mikils til ofmælt. Jeg veit ekki betur en um margra ára skeið hafi þetta fyrirkomulag staðið á þann hátt, að opinberir sjóðir og stofnanir hafi orðið að hafa fje sitt í Landsbankanum, að sjálfsögðu á ábyrgð ríkissjóðs, án þess að hann tæki á sig neina slíka skuldbinding vegna sparisjóðanna. Þrátt fyrir það eru þeir enn í fullum gangi. Hv. þm. fullyrti, að afleiðingin af þessu, sem frv. gerir ráð fyrir um tryggingu ríkissjóðs fyrir skuldbindingum Landsbankans, mundi verða sú, að alment yrði tekið út úr Sparisjóðunum alt innstæðufje og flutt í Landsbankann til þess að láta það njóta ríkisábyrgðar. En jeg spyr: Hví hefir ekki borið á þessu alt það langa tímabil, sem fyrirkomulagið var að nokkru leyti svo sem nú er til ætlast, að það verði? — Jeg get ekki varist því að efast um, að alt þetta hafi verið talað í fullri alvöru. Mjer hefir fundist sú aðferð, sem notuð hefir verið til þess að vekja andúð gegn frv., hafa verið — jeg vil ekki segja lævísleg — en þó eitthvað í þá áttina; hefir alt verið týnt til, sem fært hefir þótt að bera fram, til þess að gera ákvæði frv. tortryggileg.

Út af umtali og orðahnippingum milli mín og hv. 1. þm. G.-K. út af störfum matsnefndarinnar gat háttv. 3. landsk. þess, að nefndin hefði ekki verið skyldug til þess að gefa sundurliðaða skýrslu um störf sín.

Eftir þessa yfirlýsingu hv. þm. verð jeg að álíta svo, að það hafi verið með hans ráði, að nefndin hefir neitað að gefa slíka skýrslu. Því finst mjer það óbilgirni að heimta þessa skýrslu, sem ekki er til, af mjer; skýrslu um störf nefndarinnar, sem hún var ekki skyldug til að láta mjer í tje, að áliti hv. 3. landsk.

Báðir hv. minnihlutamenn, hv. 1. þm. G.-K. og hv. 3. landsk., eru sammála um það, að öll trygging, sem væri í frv. frá 1927 um eftirlitsstörf bankaráðs, væri nú numin burtu, og þykir þeim það mjög bagalegt, sem vonlegt er, ef rjett væri. En þetta eru hreinustu öfugmæli. Eftirlit það, sem bankanefndin og bankaráðið koma til með að hafa með bankanum, er í raun og veru langtum meira og vissara heldur en lögin gera ráð fyrir. En jeg býst ekki við, að vitinu verði komið fyrir háttv. þm. í því efni, og verði við svo búið að standa.

Jeg ætlaði mjer áðan að minnast á það sjerstaklega, hve fráleitt það væri, að þessir hv. þm. væru svo mjög að fárast yfir því, hve hættulegt það væri, að pólitík kæmi nærri þessum málum. Jeg ætlaði mjer aðallega að leggja út af þessu. En hv. frsm. meiri hl. tók efnið og ómakið af mjer, og ætla jeg ekki að fara að endurtaka ummæli hans. Til þess að eyða ekki tímanum í óþarfa er þá rjettast að koma nú þegar að spurningunni, sem fyrir mig var lögð. Reyndar álít jeg í sjálfu sjer óþarft að svara henni, því að svarið liggur svo í augum uppi. Jeg fæ ekki annað sjeð en öllum ætti að vera ljóst, að verði frv. samþ. nú á þessu þingi í þeirri mynd, sem það birtist nú í, hljóti afleiðingin af því að verða sú, að bankanefndin verði kosin áður en þessu þingi slítur og nefndin muni þá um sama leyti velja bankaráðsmenn, sem henni ber. — Hvað snertir formann bankaráðsins, þá er allmikið samband þar á milli. Geri jeg fastlega ráð fyrir því, að ekki verði hjá því komist, að ný skipun fari fram eftir að undan er gengin kosning nefndarinnar og val fjögurra bankaráðsmanna, og til þess að samræma það, sem í lögunum stendur, verði skipun formanns bankaráðs af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara fram á svipuðum tíma. — Jeg skil ekki annað en hv. 3. landsk. fallist á, að þetta sje sú rjetta skoðun á þessu atriði málsins. Framkvæmdirnar hljóta að fara fram mjög bráðlega eftir samþykt laganna.