20.03.1928
Efri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (3797)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Til þess að stytta það, sem jeg þarf að segja við 3. umr., ætla jeg nú þegar að svara sumu, sem sagt hefir verið hjer í kvöld.

Háttv. 5. landsk. gerði borgunina til matsnefndarinnar að umtalsefni, fyrst á þann hátt, að hann sagði — og var heldur en ekki rökveila í hugsuninni —, að borgun sú, er matsnefndarmennirnir fóru fram á fyrir störf sín við úttekt bankans, væri á mína ábyrgð, af því að jeg hefði ekki um hana samið. Ef hann hefði getað sagt, af því að jeg hefði samið um einhverja vissa upphæð, þá bæri jeg ábyrgð á, hversu há hún væri, þá var það þó hóti nær rökrjettri hugsun. En jeg hafði ekki samið um neitt kaup, og býst jeg við, að fáir verði hv. þm. sammála um að eigna mjer ábyrgðina. Sannleikurinn er sá, að um starf þetta var svo ákveðið, að ráðherra hefði úrskurðarvald um upphæð reiknings fyrir kaupgreiðslunni. Hvort upphæðin, sem farið var fram á, hafi verið of há ellegar ekki, skal jeg ekkert um segja. Jeg tel mig ekkert um það vita, þótt jeg hafi heyrt hv. 5. landsk. hafa það eftir sögusögnum hjer úr bænum, að kaupkrafan hafi verið ískyggilega há. Hæstv. fjmrh. hefir valið þann kostinn að borga reikninginn umtölulaust. Skal jeg hvorki lofa hæstv. eftirmann minn nje lasta fyrir það.

Mjer er legið á hálsi fyrir það og það ekki talið rjett af mjer að hafa skipað nefndina og formann bankaráðsins, þar sem kosningar fóru fram og stjórnarskifti voru í vændum. Jeg taldi þessar stjórnarathafnir skyldu mína, sem jeg gæti á engan hátt skorast undan, ekki af því að jeg hafi svo gaman af sem sumir aðrir að sinna stjórnarstörfum, heldur vegna hins, að lögunum var mjer skylt sem ráðherra að framfylgja, eða gerast sekur um lögbrot ella. Landsbankalögin gengu í gildi nokkru áður en kosningar fóru fram með þeim úrslitum, sem kunn eru orðin. Jeg varð að álíta mjer skylt, er jeg hafði útvegað konungsstaðfestingu á lögunum, að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru til þess að byrja framkvæmd laganna. Og fyrsta sporið varð þá vitanlega að vera það, að skipa nefnd þá, er átti að annast úttekt bankans.

Hvað kosningarnar snertir, þá hefir það hingað til verið föst venja, sem fyrst var vikið frá í sumar, að stjórnarskifti fari ekki fram nema á þingi. Þótt sýnt þætti, að breyting sú, er kosningarnar höfðu í för með sjer á flokkaskipun þingsins, mundi óhjákvæmilega leiða til stjórnarskifta, mátti við því búast, að þau yrðu ekki framkvæmd fyr en Alþingi kæmi saman laust eftir áramót. Um það gat jeg ekkert vitað ákveðið, þótt jeg fyrir mitt leyti hefði allar óskir um það, að stjórnarskifti gætu fram farið sem fyrst. Jeg gat ekki dregið þessa stjórnarathöfn vegna kosninganna, þar sem jeg gat búist við, að það þýddi drátt á framkvæmd laganna fram á næsta þing, en það hefði verið alveg óverjandi og við því búið, að jeg hefði fyrir þá vanrækslu verið dreginn fyrir landsdóm, ef svo hefði farið, sem alt eins mátti búast við, að stjórnarskifti yrðu ekki fyr en um áramót eða eftir þau. Hefi jeg aldrei, hvorki fyr nje síðar, heyrt þetta átalið af nokkrum manni, nema nú af hv. 5. landsk. Hvernig þessi útnefning hafi tekist, um það má aftur á móti deila. Og svo er um flestar, ef ekki allar stjórnarathafnir, að deildar meiningar eru um það, hversu þær sjeu af hendi leystar, þótt hitt orki ekki tvímælis, að þær hafi átt að framkvæmast, en ekki að vera látnar ógerðar. En jeg vil nota tækifærið til þess að segja frá því, af hverju jeg ljet leiðast í valinu á úttektarmönnum bankans. Það voru ekki eintómir flokksmenn mínir, sem jeg valdi í þessa nefnd, eins og haldið hefir verið fram hjer í deildinni af hv. 5. landsk. (JBald: Það voru alt flokksbræður hv. þm. nema einn embættis- eða sýslunarmaður, sem ekki varð framhjá gengið vegna stöðu hans). Það voru ekki pólitískar skoðanir, sem jeg fór eftir, heldur áleit jeg fyrst og fremst æskilegt að reyna að stilla svo til, vegna þess sem fer milli stjórnar Landsbankans og viðskiftamanna hans, að sem fæstir óviðkomandi menn ættu sæti í nefndinni, þannig að tala þeirra manna, sem vitneskju hefðu um innri hagi bankans, þyrfti ekki að aukast mikið. Við þetta var valið miðað. Eftirlitsmann banka og sparisjóða tók jeg í nefndina vegna þess, að hann á að vera sjerstaklega fær til þess að framkvæma slíkt mat sem nefndinni var ætlað, sakir kunnugleika síns af þeim málum. Þá tók jeg skattstjórann hjer í Reykjavík, sem samkvæmt stöðu sinni hefir embættisskyldu til að vera kunnugur efnahag og ástæðum manna hjer í Reykjavík, en hjer eru margir stærstu viðskiftamenn bankans búsettir. Sem þriðja mann tók jeg fyrv. bankastjóra við Landsbankann, sem auðvitað hafði fullan kunnugleika á högum viðskiftamannanna til þess tíma, er hann ljet af bankastjórn. Þá tók jeg sem fjórða mann í nefndina þann mann, er jeg áleit, að skipaður myndi verða endurskoðandi samkvæmt bankalögunum. Jeg gerði ráð fyrir því, að til þess myndi valinn maður með fullri sjerþekkingu í þeirri grein, og hann var þá hinn eini í landinu, sem hafði þá sjerþekkingu, þótt einn hafi bætst við síðan. Og loks tók jeg sem hinn fimta þann mann úr verslunarstjettinni, sem njóta mun einna almennasts og óskoraðsts trausts allra sinna stjettarbræðra og alls almennings. Jeg held því, að valið á þessari nefnd hafi ekki tekist illa. Enda hefi jeg aldrei heyrt neinar aðfinslur um það fyr en nú. Og þær aðfinslur hefir heldur ekki verið reynt til að rökstyðja, enda hygg jeg, að það sje ekki hægt. — Þá skal jeg um leið segja frá því, að þegar jeg valdi formann í bankaráðið, þá var það tvent, sem jeg óskaði að sameina. Annað var það, að hann hefði þekkingu á bankamálum, hitt, að hann nyti fullrar virðingar út á við. Jeg held nú, að jeg hafi getað fullnægt þessari ósk minni um að sameina þetta tvent. Maður sá, er valinn var formaður bankaráðsins, hefir tekið háskólapróf í þeirri fræðigrein og hann er sá maður, sem vegna þekkingar sinnar og hæfileika mun auka virðingu bankans út á við, auk þess sem hann er þektur og velmetinn borgari fyrir langt og gott starf. Um stjórnmálahlutdrægni um þessa skipun getur ekki verið að ræða, þar sem þessi maður hefir ávalt haldið sjer algerlega utan við stjórnmál, að öðru leyti en því, að hann hefir sem borgari neytt kosningarrjettar síns. — Til viðbótar því, er jeg sagði um nefndarskipunina, skal jeg taka það fram, að það kom mjög til yfirvegunar fyrir mjer, þegar jeg skipaði nefndina, hvort ekki væri fært að taka aðra menn, og þá einkum úr öðrum stjórnmálaflokkum. En um alla þá menn, er annars gátu komið til greina, var því svo varið, að þeir voru annaðhvort sjálfir stórir viðskiftamenn og lántakendur Landsbankans, eða þeir voru í þjónustu stærri fyrirtækja, sem einnig voru lántakendur bankans, en slíkir menn áleit jeg, að ekki gætu átt sæti í matsnefndinni.

Þá sýndi hv. 5. landsk., að hann hefir ekki skilið muninn á almennri ríkisábyrgð á bankanum annarsvegar og þeirri ábyrgð, sem stjórnin hefir tekið á tilteknum skuldbindingum bankans hinsvegar, og telur, að jeg hafi haft skoðanaskifti um þetta mál. En jeg hefi aldrei talið það rangt hjá Klemens Jónssyni, þótt hann teldi sig hafa heimild til að ganga í slíka ábyrgð. Jeg hefi þvert á móti stuðst við það fordæmi sem heimild fyrir mig til að gera hið sama. En þetta sannar það, að þessar tvær fyrverandi landsstjórnir hafa litið svo á, að til þess að um ábyrgð ríkisins væri að ræða, þá þyrfti að skrifa upp á, enda hefir Landsbankinn ekki talið sig hafa fullgilda ábyrgð ríkisins nema það væri gert. Þetta er því engin undantekning frá hinni almennu reglu.

Hæstv. fjmrh. hjelt því fram, að jeg hefði verið á annari skoðun um þetta mál árið 1926. En jeg held, að hæstv. ráðh. sje nú farið að förlast minni, því þetta mál kom fyrir á þingi 1924 og hefir verið til meðferðar á hverju þingi síðan. En í því frv., er jeg lagði fyrst fyrir þingið, var það ótvírætt tekið fram, að ríkið legði ekki fram aðra almenna ábyrgð en stofnfje eða innskotsfje það, er ríkið leggur bankanum. Allri annari almennri ábyrgð, nema sjerstök ákvörðun sje um það tekin, hefi jeg altaf verið mótfallinn. Það er því alger óþarfi fyrir hæstv. fjmrh. og hv. 5. landsk. að vera að bregða mjer um skoðanaskifti í þessu máli. Skoðun mín hefir ávalt verið hin sama. (JBald: Nei, hún breyttist á þinginu í fyrra!). Nei, hún breyttist ekkert þá. Í frv. þá kom alveg hið sama fram og Klemens Jónsson lagði til grundvallar fyrir sínum gerðum, það, að ríkisstjórnin hefði heimild til að ganga í ábyrgð fyrir bankann, en ekki það, að bankinn nyti ábyrgðar ríkissjóði alment án þess að ríkisstjórnin gæfi sjerstaka skuldbindingu út í hvert skifti.

Þá hjeldu þeir því báðir fram, hæstv. fjmrh. og hv. 5. landsk., að í meðvitund almennings væri það álitið, að ríkið bæri algerða ábyrgð á bankanum. Jeg fullyrði, að þetta er ekki svo. Það er alls ekki almenningsálit, að ríkið beri lagalega ábyrgð á bankanum. En það er alment álitið, að til þess muni ekki koma, nema um alveg sjerstaka og óviðráðanlega atburði sje að ræða, að innstæðueigendur geti tapað fje sínu þar. Í þessu sambandi er rjett að nefna það, að það hafa verið gerðar tilraunir til þess hvað eftir annað á síðari þingum, af hálfu sumra þeirra manna, er nú standa að þessu frv., að skerða þetta innlánsfje með tillögum um stýfing eða lækkun krónunnar. Þeirri ráðstöfun átti ekki að undanþiggja innstæðueigendur í Landsbankanum. Og þær till. bera vitni um, að ríkissjóður bæri ekki ábyrgð á innstæðufje manna í bankanum. (JBald: Þetta er nokkuð langt sótt skýring!). Nei, það er ekki langt sótt; það þarf ekki að fara lengra en til þingsins í fyrra. — Þá hafa þeir litlu getað svarað, sem naumast heldur er von, því, er jeg sagði nú og hefi sagt áður á þingi um hættu þá, er af því mundi stafa fyrir sparisjóði landsins, ef ríkisábyrgð væri veitt á sparisjóðsfje Landsbankans, en ekki á öðru sparisjóðsfje. Það hefir enn ekkert ríki leyft sjer að gera slíkan mannamun á rjetti þegnanna eins og hjer er farið fram á að gera. Þetta gæti hvergi átt sjer stað, nema þá í ráðstjórnarlöndum, þar sem bankarnir eru algerlega í höndum ráðstjórnarinnar. Og vegna hvers? Jú, það er af einni og sömu ástæðu alstaðar, að enginn hefir sjeð sjer fært að gera þetta. Og ástæðan er sú, að sú stofnun, sem tekin væri slík ábyrgð á, myndi algerlega eyðileggja aðrar samskonar stofnanir. Það hefir að vísu verið gert í einstaka löndum að veita bönkum takmarkaða ábyrgð um stundarsakir á krepputímum, vegna þess að þeir hafa komist í þröng og talinn hefir verið þjóðarhagur að styðja þá í bili. En þeir hafa um leið verið settir undir opinbert eftirlit, sem meðal annars hefir varnað því, að þessir bankar drægju til sín óeðlilega mikið fje frá öðrum bönkum eða stofnunum. Þetta hefir aðeins verið gert sem neyðarráðstöfun og alment verið álitið, að mjög varlega þyrfti að fara í því efni, ef það ætti ekki að verða öðrum peningastofnunum til tjóns. Þetta myndi koma afarilla niður hjer, því stórir landshlutar eru svo settir, að þeir ná ekki til Landsbankans nje útibúa hans um viðskifti sín. Og þegar búið væri að eyðileggja sparisjóðina í þeim hjeruðum, þá væru þau svift öllum bankaviðskiftum. Einkum næði þetta til allra smærri viðskifta.

Ef litið er á þetta mál frá pólitísku sjónarmiði, þá má nú segja það, að jeg ætti ekki að álíta, að það væri andstæðingum mínum of gott að gera þessa skyssu, sem áreiðanlega mundi verða þeim að falli. En þótt jeg vildi ekki telja þá undan því, þá vil jeg þó ekki, að það lendi svo geipilega á landsmönnum sem þetta myndi gera, því þetta myndi verða til ómetanlegs tjóns fyrir alla þá mörgu, sem ekki ná greiðlega til Landsbankans, svo sem er um afskekt hjeruð og flest smærri viðskifti manna, sem nú fara fram við sparisjóðina. Hv. 5. landsk. hefir ekki getað svarað þessu öðru en því, að ríkið eigi Landsbankann; en það er ekki nema önnur hlið málsins. Hin hliðin snýr að landsmönnum, og þeim er sama ranglætið sýnt, hvort sem bankinn er eign ríkisins eða ekki. Jeg get fullvissað hv. 5. landsk. um það, að það er misskilningur hjá honum, að það sje almenn ósk, að ríkið taki slíka ábyrgð fyrir Landsbankann. Það kann að vera almenn ósk um það, að innstæðueigendur hans verði ekki fyrir neinu tapi á innlánsfje sínu. En það er áreiðanlega alt annað en almenn ósk, að gert sje þannig upp á milli lánsstofnananna, að allar innieignir manna dragist frá sparisjóðunum og lendi hjá Landsbankanum, svo að hann verði hin eina lánsstofnun, sem hefir yfir sparifjárpeningum að ráða. Reynslan síðan í fyrra, er lögin voru samþykt, hefir líka sýnt það, að bankinn þarf ekki þessarar ábyrgðar við. Bankinn hefir engan álitshnekki beðið af þeim lögum, enda þurfti ekki við því að búast, þar sem það fje var aukið, sem skoða má sem tryggingu fyrir innlánsfjenu.

Þá hefir hv. 5. landsk. algerlega mistekist að skýra tilgang brtt. við 1. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir því, sem ómögulega getur skeð, sem sje að bankinn geti tekið lán „án tryggingar í sjálfs sín eignum“. Þetta getur aldrei komið fyrir. Allar stofnanir, sem taka lán, tryggja það með eigin eignum. Svo er það t. d. með bæjarfjelagið hjer. Jeg hefi átt sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur, og er mjer kunnugt um, að öll lán, sem þar voru tekin, voru trygð með eignum lántakanda. (JBald: En það er ekki nægilegt fyrir Landsbankann). Mjer skilst af því, sem hv. 5. landsk. segir nú, að hann muni meina ný erlend lán og að til þess þurfi lagaheimild. Það er nú fult vit í því, ef brtt. gerði ráð fyrir þessu, en hún bara gerir það nú ekki.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði sagt, að það myndi vekja tortryggni gagnvart bankanum, ef ábyrgðin væri samþykt. Það sagði jeg ekki. En jeg sagði, að það mundi vekja tortrygni, að verið væri að nema úr lögum alt eftirlit með bankanum, um leið og tekin væri ábyrgð á öllum skuldbindingum hans. Þessu reyndi hv. þm. ekki að hnekkja.

Umr. hv. þm. (JBald) um pólitík mun jeg geyma mjer að svara, þar til við 3. umr. þessa frv. Mun jeg þá koma að því nánar í sambandi við þann þátt þessa frv., er jeg mun þá gera að umtalsefni.

Jeg hefi nú með því, sem jeg hefi sagt, svarað hæstv. fjmrh. að mestu leyti. En jeg get þó sagt hæstv. ráðh. það, að hann fór höfuðvilt, þegar hann eignaði mjer, að ekki skifti máli, hvort ábyrgð ríkisins á Landsbankanum væri lagaleg eða siðferðisleg. Það var hv. 5. landsk., sem hjelt því fram.

Þá sagði hæstv. ráðh., að jeg hefði ekki verið á móti landsbankanefndinni áður. Það er satt, að jeg gerði það ekki að neinu ágreiningsatriði, þótt jeg hinsvegar sæi enga ástæðu til að halda fast í hana. Mjer fanst, þar sem þingið er nú svo fáment, að þá væri það í raun og veru tilgangslítið að vera að hafa tvöfaldar kosningar. En jeg var þó ekki neitt mótfallinn henni, og er ekki enn. En jeg er á móti því, að þetta sje notað sem átylla til að fremja þá óhæfu móti Alþingi og þess virðing og valdi, sem aldrei hefir þekst fyr. — En jeg mun geyma mjer nánari umræður um það efni til 3. umræðu.

Þá viðhafði hæstv. fjmrh. nokkur skemtileg ummæli um þjáningar fyrv. sjálfstæðismanns, háttv. 1. þm. G.-K., er hann hlyti að líða við það að vera í Íhaldsflokknum. Jeg verð nú að segja það, að hæstv. ráðh. nýtur þess oft hjá fyrverandi flokksbræðrum sínum, að hann er gamall heimastjórnarmaður. Fyrir þá sök hefir hann oft notið velvildar og hlífðar. En eigi fæ jeg annað skilið en að núverandi sambandi hans við sósíalista sje þannig varið, að hann ætti ekki að vera að tala um þjáningar hjá öðrum. Jeg skil ekki í, að hæstv. ráðh. sje, svo dauður úr öllum æðum, að slíkt samband veki ekki óþægilegar tilfinningar svona við og við.

Þá hjelt hæstv. ráðh. því fram, að ríkissjóður bæri ábyrgð á innstæðufje manna í Landsbankanum síðan 1914, eða nálægt þeim tíma. Jeg veit nú ekki, hvað hæstv. ráðh. á við með þessu. Jeg veit ekki til, að 1914, eða á neinu ári nálægt því, hafi verið gerð nokkur breyting á aðstöðu ríkissjóðs til Landsbankans hvað þetta snertir. Jeg vildi gjarnan heyra við 3. umr. þessa frv., hvað hæstv. ráðh. á við.

Þá sagði hæstv. fjmrh. út af matinu á bankanum og þögn hans um niðurstöðu þess, að það væri óbilgirni af mjer að ætlast til þess, að hann gæfi upplýsingar hjer, af því að nefndin hefði ekki gefið honum sundurliðaða skýrslu. Jeg held nú, að jeg hafi sagt áður, að það hafi enginn ætlast til þess, að hann gæfi aðrar upplýsingar en þær, sem hann hefir fengið frá nefndinni, og það getur held jeg ekki talist óbilgirni. Það er miklu frekar óbilgirni gagnvart þinginu, að það fái ekkert að vita um niðurstöðuna af þeirri athugun á hag bankans, sem það hafði ákveðið, að fram skyldi fara. Jeg vil þó ekki ámæla hæstv. ráðh. fyrir þetta. Hann getur haft gilda ástæðu til að vilja ekki skýra frá þessu, en hann getur þá ekki talið það óbilgirni af mjer, þó jeg spyrji hann, hvort hann vilji skýra frá því. Annars skal jeg nú, þar sem nú er orðið áliðið kvölds, geyma frekari athugasemdir til 3. umr.