23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4436 í B-deild Alþingistíðinda. (3805)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Meiri hl. fjhn. getur ekki fallist á þessa brtt., af sömu ástæðum og tekið var fram við 2. umr. Það er óþarfi að hafa slíka stöðu sem þessa ákveðna í lögum. Mætti þá eins hafa líka bókara með ákveðnum launum og skipaða af bankaráðinu. Bankastjórar Landsbankans hafa fallist á, að þetta væri óþarfi. En þetta atriði heyrir annars undir bankaráðið eða framkvæmdarstjórn bankans.

Það munu flestir líta svo á, að engin ástæða sje til að hafa svo hátt launaða stöðu í bankanum sem þessi fjehirðisstaða er. Jeg geri ekki ráð fyrir, að sá maður, sem henni gegnir nú, verði látinn fara úr bankanum fyrir því, þó að hún sje ekki ákveðin í lögum eins og nú. Það mætti eins setja bókara auk aðalbókara eins og hafa fastan fjehirði auk aðalfjehirðis. Vitanlega þarf fleiri til þess að telja peninga heldur en aðalfjehirði einan. Hann aðeins sjer um það og hefir aðalverkið með höndum. Álit meiri hl. fjhn. er því, að ekki sje rjett að samþykkja till., en það er fjarri því að hann sje fyrir því að amast neitt við manni þeim, sem í stöðunni er.