23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4437 í B-deild Alþingistíðinda. (3806)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Eins og jeg tók fram áðan, þá eru aðeins 3 fastir starfsmenn við bankann auk bankastjóranna, aðalfjehirðir, bókari og fjehirðir. Það er næsta ósanngjarnt, að mismunandi reglur gildi um þessa starfsmenn. Tveir þeirra eiga að halda stöðum sínum með óbreyttum kjörum, en hinn þriðji á að eiga það undir náð, hvort hann verður rekinn eða ekki. Bankastjórarnir allir hafa lagt með því, að stöðunni verði haldið meðan hans nýtur við, og að hann fái að vera kyr í þessari stöðu, sem hann hefir gegnt með sóma um langt skeið. Jeg leyfi mjer því að vænta þess, að hv. deild geti fallist á þessa sjálfsögðu breytingu.