23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4445 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Um þetta margþvælda og mikla daglega eftirlit vil jeg aðeins segja það, að jeg sje ekki, að það sje til neins annars en að draga úr ábyrgðartilfinningu bankastjóranna og tefja störf þeirra. Jeg álít alveg fullforsvaranlega gengið frá því atriði í því frv., sem fyrir liggur. Það hefir verið klifað á því, að bankaráðsmennirnir fái ekkert að vita um, hvað fram fer í bankanum, nema formaðurinn einn. Jeg vil nú aðeins, þessu til skýringar, lesa ákvæði 14. greinar frv. um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Formaður bankaráðsins hefir fyrir hönd ráðsins stöðugt, daglegt eftirlit með starfsemi bankans — —“.

Jeg sje ekki neina þörf á að taka sterkara til orða um þetta til þess að veita bankaráðinu rjett til íhlutunar og eftirlits með rekstri bankans, enda getur slíkt falist í reglugerð, er setja á um þetta.

Hv. 1. þm. G.-K. las upp kafla úr erindisbrjefi sínu sem matsnefndarmanns. Þar er lögð áhersla á, að engum óviðkomandi megi skýra frá neinu um hag einstakra manna og fyrirtækja. En þá vil jeg spyrja hv. þm.: Telur hann hæstv. fjmrh. óviðkomandi þessi mál? Álítur hann fjmrh. óviðkomandi mann í þessu falli? Hann, sem hefir skipað nefndina og kveðið svo á, að hún skuli gefa skýrslu um starf sitt. Jeg býst við, að fleiri en jeg muni líta svo á, að fjmrh., sem líka er yfirmaður bankans, sje ekki óviðkomandi maður í þessu máli, og því geri matsnefndin rangt í því að halda fyrir honum matinu.

Þá voru nokkur atriði í ræðu hv. 3. landsk., sem jeg ætla að athuga nokkuð. Hann álítur, að þeir bankaráðsmenn, sem ekki verði kosnir aftur í bankaráð af Landsbankanefndinni, samkvæmt þeirri breytingu, sem hjer er um að ræða, geti gert kröfu til skaðabóta vegna launataps.

Já, það má segja sem svo, en jeg skil ekki, að þó einhverjir þessara manna ekki yrðu áfram, vegna þess að Alþingi breytti lögunum, þá fylgi því nein skylda til að greiða þeim laun áfram, og jeg skil ekki í, að slíkt skaðabótamál mundi vinnast fyrir dómstólunum. Sennilega er þá ekki um gagnkvæma skyldu að ræða. Jeg veit heldur ekki betur en að stöður hafi þráfaldlega verið lagðar niður án þess að viðkomandi mönnum væri bætt það tjón, sem þeir biðu við það.

Þegar hv. 3. landsk. var fjmrh. 1925, var af hans hálfu flutt frv. í þinginu, sem gekk í þá átt, að minka mjög tekjur lögreglustjóra í landinu, er þeim hafði áður verið veitt með lögum.

Í lögum frá 1921 um skipagjöld og lögum um rjett til fiskveiða í landhelgi eru lögreglustjórum veitt öll skipagjöldin sem aukatekjur. En hv. 3. landsk. fjekk fjhn. Nd. til þess að flytja frv. um að svifta þá þessum tekjum að miklu leyti. Jeg hefi ekki orðið var við, að þeir hafi komið fram með neinar skaðabótakröfur út af þessu. Það kom að vísu fyrir hjer um árið, þegar laun ráðgjafarnefndarmanna voru lækkuð, að nefndarmönnum þótti sjer gert rangt til og fóru í mál. En hvernig fjell sá dómur? Nefndarmenn töpuðu málinu. Þetta ætti að vera bending um það, að það kemur ekki til mála, að dómstólarnir mundu fallast á slíkar kröfur.

Það er ekki rjett hjá hv. 3. landsk., að vilja líta á bankaráðsmennina sem embættismenn. Þessir menn eru alveg fyrir utan það, því að jeg hygg, að það sje ekki aðalstarf nokkurs mannsins að vera í bankaráðinu; þetta er sýslun, sem þeir eru kosnir í, og algerlega ólíkt því, þegar embættismenn eru skipaðir af konungi eða landsstjórn í embætti, sem stofnuð eru með lögum. Það getur ekki komið til nokkurra mála, að skaðabætur verði dæmdar bankaráðsmönnunum, og þess vegna er óhætt að samþykkja breytingarnar.

Svo vil jeg að lokum minnast á kaup það, sem matsnefnd Landsbankans hefir verið greitt. Það er náttúrlega ekki nokkur vafi á því, að það kaup, sem þeir hafa fengið, er alt of hátt. Það voru 5 menn að þessu starfi í tæpa 7 mánuði og unnu að sögn eigi meira en 2–3 klt. á dag, og er mjer sagt af nákunnugum manni, að þetta hefði verið sæmileg vinna í 2 til 3 mánuði. Þeir hafa þá haft um 3 þús. króna laun á mánuði, og þykja það ekki nein smánarlaun, svo að þeir hafa sannarlega ekki hikað við að setja upp fyrir vinnu sína við þennan starfa, og ekki sleptu þeir heldur niður aðalstarfi sínu. Jeg býst við, að það hefði orðið sama sagan, ef fjmrh. hefði ætlað að takmarka kaup þeirra; þeir hefðu sjálfsagt hótað að fara í mál.

Það er búið að tala svo mikið um þetta mál, að það er hætt að koma fram nokkuð í því, sem er nýtt. Jeg hygg því, að rjettast væri að láta til skarar skríða um atkvæðagreiðslu í þessu máli. Jeg býst ekki við, að neitt það komi fram, sem geri neinar breytingar á hugum manna til málsins.