23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4448 í B-deild Alþingistíðinda. (3810)

103. mál, Landsbanki Íslands

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hefi enga ástæðu til þess að svara hv. minnihl.mönnum viðvíkjandi þessum síðustu ræðum þeirra, því að alt, sem þeir hafa sagt nú, það er áður margþvætt um, og það er alveg fráleitt að vera hjer með endurtekningar, frekar en orðið er.

Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. G.-K., sem jeg skal benda á; það er, að þó sá hv. þm. læsi upp þennan kafla um reglur í erlendum bönkum, þá er megnið af þeim ákvæðum, sem honum þótti svo mikils um vert að koma inn í lögin á síðasta þingi, beinlínis reglugerðarákvæði, sem nýtt kynni að vera í tillögum hv. þm., svo að jeg tel það ekki hafa neina þýðingu, hvort það stendur í lögunum eða ekki. Hvort bankaráðsmennirnir koma í bankann einn eða fleiri, mun jeg halda fram, að sje reglugerðarákvæði, svo að sú ástæða er afarljettvæg.

Hvað snertir ræðu hv. 3. landsk., þá var það aðalinntakið, sem margir hafa áður tekið fram, að með þessu ákvæði, sem nú er í frv., væri kipt í burtu öllum öryggisráðstöfunum. Mjer er öldungis óskiljanlegt, hvernig hv. minni hl. getur haldið slíku fram og endurtekið það hvað eftir annað, því að jeg hygg, að það sje alveg sama öryggi til staðar, hvort sem þessar breytingar verða samþyktar eða ekki.

Sami hv. þm. tók það fram, að hjer væri um þrjú aðalatriði að ræða. Eitthvert hið mikilvægasta þeirra væri það, að hjer er gert ráð fyrir burtfelling stofnfjárins. Jeg álít, að þetta sje ofsagt, því að það er ekki gert ráð fyrir því skilyrðislaust að fella í burtu stofnfjeð; það er einmitt opin leið til þess, að bankanum sje veittur allur sá stuðningur, sem hann þarf á að halda, í hverju sem er. Jeg hefi áður gert nokkurnveginn grein fyrir því, að allár líkur benda til þess, að af þessu muni alls ekki þurfa að leiða það, að skift verði um bankaráðsmenn, og jeg hefi ekki orðið var við, að hv. 3. landsk. hafi hrakið það, því eins og við vitum, eru engar líkur til þess, að kosning bankaráðsnefndar muni þurfa að hafa það í för með sjer, þar sem hlutfallskosning þeirra manna gerir það að verkum, að búast má við, að nákvæmlega sama niðurstaða komi fram. En hvað hitt snertir, ef svo skyldi takast til, að einhverjar breytingar yrðu á um bankaráðsmennina, að þá myndu þeir að lögum hafa skaðabótarjett, það held jeg, að hvorugur okkar sje fær til að fullyrða nokkuð um, og jeg er alls ekki neitt kvíðandi um það, hver niðurstaðan mundi þá verða.

Af því að jeg tel það óþarft og ástæðulaust að vera að lengja þessar umræður meira, skal jeg láta hjer staðar numið, og jeg geri ráð fyrir því, að þótt þessir hv. þm., sem hjer hafa talað á móti frv., telji, að hjer sje verið að breyta til hins lakara, þá mun jeg láta hjer við sitja.