23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4451 í B-deild Alþingistíðinda. (3812)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. 3. landsk. segist hafa haldið fram sinni skoðun um skipagjöldin, en ekki öðru. En sýslumenn og bæjarfógetar, sem hlut áttu að máli, munu hafa litið svo á, að þeir ættu þessi gjöld að lögum. Hjer deilum við þannig um þetta, að við höfum hvor sína skoðun. Jeg lít þannig á, að bankaráðsmennirnir hafi engan rjett til skaðabóta, en hv. 3. landsk. segir, að ef bankaráðið verði lagt niður, þá eigi þeir engan kröfurjett, en mjer finst, að ef þetta verður samþykt hjer, bankaráðið lagt niður og annað nýtt bygt upp á alt öðrum grundvelli, þá sje ákaflega hæpið að halda þessu fram.

Svo er það að segja viðvíkjandi sambandslaganefndinni, að hún taldi sig hafa rjett til hærri launa en þingið vildi vera láta. Þeir töldu sig hafa loforð stjórnarinnar og fóru í mál um þetta. Í þessari nefnd voru tveir færustu lögfræðingar landsins, núverandi skattstjóri í Reykjavík og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh: Þm. Seyðf. fór ekki í mál). En það gerði skattstjórinn, og hv. þm. Seyðf. hefði notið góðs af, ef hann hefði unnið málið. En nú tapaði hann þessu máli, svo að það er alveg hliðstætt því, sem hjer er um að ræða. Það er þingið, sem getur breytt þessu. Það getur breytt um launakjörin; það er sýnt af umræðum málsins, og þá eiga þessir bankaráðsmenn heldur ekki kröfu til neinna skaðabóta, þótt breytt sje með lögum og starf þeirra lagt niður, enda er líka hv. 3. landsk. kominn svo langt í játningu sinni um þetta, að hann getur á engan hátt sloppið frá henni.