26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4482 í B-deild Alþingistíðinda. (3829)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla aðeins að leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar, hvort hún vilji ekki láta þingmönnum eða þingnefnd í tje skjöl og skýrslu þeirrar nefndar, sem athugaði hag bankans. Það er nauðsynlegt fyrir þingmenn að fá að vita um niðurstöðu þeirrar rannsóknar, sem úttektarnefndin gerði á bankanum, til þess að mynda sjer skoðun í þessu máli. Vitanlega verður það að skoðast trúnaðarmál gagnvart þingmönnum, ef eitthvað er í skjölum nefndarinnar, sem ekki má fara út fyrir þingið. Það er hættulegt, þegar ýktar og afbakaðar sagnir berast um hag bankans, og sýnist sjálfsagt, að þingmenn að minsta kosti fái að vita hið sanna.