26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (3834)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Mjer er sama, þótt hv. þm. Norður- og Vestur-Ísfirðinga komi saman um það; það er samt alls ekki fullkomin ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans í gildandi lögum. Ef sá skilningur er rjettur, sem jeg lagði í 5. gr., en hann er þó ekki vafalaus, má að vísu segja, að ríkið beri ábyrgð á, að stofnsjóður bankans sje óskertur, þegar bankinn tekur til starfa eftir nýju lögunum. Önnur ákvæði eru ekki um ábyrgð ríkissjóðs á bankanum. Í 56. gr. er raunar bráðabirgðaábyrgð á sparisjóðnum, en hún fellur úr gildi, þegar varasjóður hans er orðinn 10% af innstæðunum. Það er því ljóst, að í Landsbankalögunum frá síðastl. ári er engin almenn ábyrgð tekin á skuldbindingum bankans, heldur þvert á móti skýrt tekið fram, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans fram yfir stofnfje og varasjóð.

Líking hv. þm. Dal. um það, að við ættum eftir minni röksemdaleiðslu að leggja niður togaraveiðar og gufuskip til milliferða, en taka upp skútuveiðar og seglskipaferðir, er ekki rjett. Það er ekki sagt, að hver þjóð þurfi að ganga gegnum öll millistig í þróuninni. Ef við tökum upp seðlabankafyrirkomulag stórþjóðanna, er það hliðstætt því, að við tækjum upp 15 þúsund smálesta línuskip til milliferða. Svo stórir farkostir hæfa okkur ekki nú, en þar með er engan veginn sagt, að við eigum ekki að nota þá, þegar við erum orðnir miljónaþjóð, hvenær sem það nú verður. — Þetta skildi Rygg bankastjóri Noregsbanka, þótt hv. bankastjóra Íslandsbanka gangi illa að átta sig á því. Rygg bankastjóri segir meira að segja, að það komi ekki til mála, að Noregsbanki sleppi þeim beinu viðskiftum, er hann hefir nú. Þau sjeu honum nauðsynleg, ef bankastjórnin eigi ekki að trjenast upp og komast algerlega úr snertingu við atvinnuvegina.

Það var áreiðanlega rjett spor, sem við stigum, þegar við fórum eftir tillögum hinna erlendu bankastjóra og sniðum bankann eftir staðháttum og því stigi, sem við stöndum á, en höfðum fyrirkomulagið þó svo liðugt, að bankinn gæti tekið eðlilegri þróun. Því er honum skift í deildir, sem eru ekki í nánara sambandi en svo, að hægt er að skilja sparisjóðinn og veðdeildina frá bankanum, hvenær sem þess þykir þörf.