26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4491 í B-deild Alþingistíðinda. (3836)

103. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er rangt hjá hv. þm. N.-Ísf., að jeg hafi sagt, að jeg sæi engan mun á þeim tveim tegundum ábyrgða, sem hjer ræðir um. Jeg sá þann mun í fyrra, og sje hann enn. En það, sem jeg lagði áherslu á, var það, að enginn munur er á ábyrgðinni á núverandi ástandi bankans eftir þessu frv. og eftir gildandi lögum. Því er þessi ábyrgð engin röksemd fyrir því að heimta opinberaða þá rannsókn, sem fram hefir farið á bankanum. (MG: En mega þingmenn ekki vita um rannsóknina fyrir því?). Jú, vitanlega, en sú krafa kemur ekki þessu máli við. Eins og jeg sagði áður, hefir það engin áhrif á núverandi ástand um ábyrgð á bankanum, hvort þetta frv. er samþykt eða ekki. Ef hjer er um synd að ræða, er hún drýgð af fyrverandi stjórnarflokki með því að ábyrgjast óskert stofnfje bankans. — Hv. 1. þm. Reykv. vildi ekki fallast á, að ríkisábyrgð væri á bankanum eins og nú er. Út af þessu get jeg vitnað í orð, sem sögð voru í fyrra af þáv. fjmrh.: „En um stofnfje hans (bankans) fer vitanlega eftir mati úttektarmanna, hve mikið ríkissjóður leggi til“. (Alþt. 1927, B. 3229). Þessi orð eru ótvíræð og þeim var ómótmælt af hv. 1. þm. Reykv. (MJ: Þau voru framkölluð af mjer). Ummælunum var ómótmælt af háttv. þm., en komu fram út af ræðu, sem jeg hafði haldið. — Mjer virðist ekki þurfa frekar um það að deila, að koma verða fram einhver önnur rök fyrir því að heimta opinbera skýrslu um hag bankans heldur en þau, að þetta frv. geri breytingu á ábyrgðinni.