07.04.1928
Neðri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4544 í B-deild Alþingistíðinda. (3859)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Mjer þykir hálfleiðinlegt, þegar hæstv. fjmrh. loks úthellir anda sínum hjer í deildinni yfir okkur, að hann skuli eyða eins miklum tíma eins og hann gerði til að kalla þessar umr. af hálfu andstæðinga sinna málþóf, skæklatog og fleiri fögrum nöfnum, sem þó eru óneitanlega lítil rök í málinu. Það er líka leiðinlegt að heyra þá, sem málið flytja, halda því fram, að hjá hinum komi ekki fram neitt nýtt.

Þetta mál hefir nú fengið þá meðferð hjer á þingi, sem er því algerlega ósamboðin. Það hefir verið mikið rætt á undanförnum þingum, og má að vísa segja, að þau atriði, sem nú er mest deilt um, geti ekki talist alveg ný í sögunni. En þegar loks var búið að ganga frá þessu máli og þegar svo næsta þing á eftir tekur málið upp aftur til gagngerðra breytinga, þá er ómögulegt að átelja það, þó að upp rísi menn, sem deila á þetta, Það verður að teljast mjög óviðfeldið að ætla að stinga þannig upp í þm. (Fjmrh. MK: Hver hefir sýnt sig í því?). Hæstv. fjmrh. hefir gert það, með því að kalla þessar umr. óþarft málþóf, og fleiri nöfnum nefndi hann þær, sem mjer ekki tókst að skrifa upp. Vonandi hefir þingskrifaranum tekist betur.

Þegar þetta mál kom inn í þingið nú að tilhlutun stj., var það svo flausturslega samið, að enn er ekki búið að lagfæra þá smíðagalla, sem á því voru. Það er ekki ofmælt, að ef frv. hefði verið samþ. eins og það var, þá hefðu slík vinnubrögð orðið þinginu til skammar. Jeg verð að álíta, að það hefði verið leiðinlegt til afspurnar fyrir okkur, þegar lögin hefðu verið þýdd og send út um heim, að Alþingi hefði gengið þannig frá þeim, að til dæmis sama starfið væri ætlað tveim aðiljum. Þegar svo frv. kemur hingað til þessarar hv. deildar, er það tekið til 1. umr. þegar komið er undir miðnætti. Þá var farið fram á, að málinu væri frestað, en það fjekst ekki, þrátt fyrir það, að hæstv. fjmrh. var fjarstaddur. Hefði það þó átt vel við, að hann hefði þá verið í sínum stóli og fylgt málinu af stað með því að biðja vel fyrir því. Þá sagði hæstv. forsrh., að umr. mætti fresta til 2. umr. En hvað skeður svo? Málið er tekið til 2. umr. á laugardaginn fyrir páska, þegar nokkrir þm. eru fjarverandi með leyfi forseta og fundur getur hvort sem er ekki staðið nema skamma stund vegna hátíðarinnar. Það hefði meira að segja alls ekki verið of mikið, þó að þm. hefðu haft „frí“ í dag frá fundahöldum, svo mikið hefir verið starfað hjer undanfarið.

Það er ekki til neins að kalla þessar umr. málþóf o. s. frv. Hæstv. fjmrh. ætti að spyrja þann ráðh. (JJ), sem venjulega situr við hlið honum, hvort hann hafi ekki oft þurft að halda langar ræður, þegar hann var í stjórnarandstöðu.

Þegar talað er um vinnuhörkuna hjer á Alþingi, er altaf farið að tala um togaravökulög o. s. frv. En hvað kemur slíkt málinu við? Ef þm. sitja óhóflega lengi á fundum, hafa þeir þeim mun minni tíma afgangs til að athuga þau mál, sem fyrir þinginu liggja. Slíkt gengur því út yfir þingstörfin. Þau verða ekki eins vel athuguð og ella mundi.

Það hefir verið sagt hjer, að ekki væri um annað að ræða nú en að færa bankalögin í það horf, sem milliþinganefndin hefði stungið upp á. Mun með því fyrst og fremst vera átt við landsbankanefndina. Jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að yfirleitt hafi nefndin ekki talið þetta ákvæði mjög mikils virði, þó að hún styngi upp á því. Að minsta kosti var það svo um mig. Hugmyndin var, að nefnd þessi ætti að halda bankanum utan við þær snöggu sveiflur, sem oft verða á þingmeirihlutanum og raskað geta ró hans. Landsbankanefndin ætlaði þessari nefnd svipað hlutverk við bankann eins og hluthafafundur hefir í hlutafjelagi. Jeg skal ekkert hafa á móti fyrir komulagi landsbankanefndarinnar út af fyrir sig; en það er langt frá því, að jeg vilji fara að breyta lögunum nú til þess að bæta þessu inn í þau, úr því að það var ekki gert strax. (Forseti BSv: Er þm. kominn nálægt lokum ræðu sinnar?).

Hæstv. forseti spyr mig, hvort jeg hafi bráðum lokið máli mínu. Það er langt frá því. En hinsvegar get jeg skift ræðu minni hjer, ef hæstv. forseti telur það heppilegt.