10.04.1928
Neðri deild: 67. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4546 í B-deild Alþingistíðinda. (3861)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Hæstv. fjmrh. bar það fram við fyrri hluta þessarar umr., að þetta frv. gengi út á að færa Landsbankann í svipað horf og milliþinganefndin 1925 lagði til. Jeg var byrjaður í fyrri hluta ræðu minnar að hrekja þessa staðhæfingu hæstv. ráðh. Jeg lagði áherslu á það, að þeir, sem voru í nefndinni þá og gátu aðhylst það fyrirkomulag, sem hún lagði til, gætu gjarnan verið á móti þessu frv. Þær breytingar, sem farið væri fram á, gætu verið svo lítilvægar, þótt þær væru til bóta, að ekki svaraði kostnaði að fara að breyta ársgömlum lögum þeirra vegna. Jeg tók til dæmis landsbankanefndina, sem milliþinganefndin lagði til, að kosin yrði á Alþingi og væri nokkurskonar yfir-yfirstjórn í bankanum. Alveg sama get jeg sagt um það atriði, að bankaráðið skuli ekki hafa daglegt eftirlit nema fyrir milligöngu formanns bankaráðs, sem tekið hefir verið upp í þetta frv. og milliþinganefndin lagði til. Eftir lögunum á alt bankaráðið að hafa þetta eftirlit á hendi. Jeg er nú á þeirri skoðun, að slíkt sje fremur óþarft; jeg álít, að nægilegt sje, að alt bankaráðið komi saman á hálfsmánaðarfresti. En þetta er lítið atriði og jeg álít óheppilegt að fara nú að draga úr þessu eftirliti, úr því að það er komið inn í lögin á annað borð.

En það er heldur alls ekki rjett hjá hæstv. ráðh., að verið sje að færa lögin í sama horf og milliþinganefndin lagði til, eins og jeg skal nú sýna.

Í fyrsta lagi var ótakmörkuð ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum í bankanum ekki borin fram af milliþinganefndinni allri, heldur aðeins af meiri hl. meiri hlutans í nefndinni. Nefndin klofnaði um mikilsvert „princip“-mál í tvo hluta, en jafnvel meiri hl. var ekki allur sammála um þetta ákvæði. Og auk þess er orðalag frv. um ríkisábyrgðina alt annað og óviturlegra í frv. en í till. meiri hl. meiri hlutans í milliþinganefndinni.

Þá er ákvæðið um stofnfje bankans. Það er langt frá því, að verið sje að færa það í sama horf og milliþinganefndin hafði hugsað sjer. Hún lagði til, að bankanum væri borgað út stofnfje fram yfir innskotsfje ríkissjóðs 1913. Þar sem ríkissjóður átti að ábyrgjast, að þetta stofnfje hjeldist óskert, hefði það átt að vera óskert í upphafi. En til þess er ekkert tillit tekið í frv., hvernig hagur bankans er nú. Milliþinganefndin vildi láta bankann byrja með 3 milj. kr. stofnfje, sem væri raunverulega til, er seðlabankinn tæki til starfa. Það er aðeins áframhald á sömu braut, að Landsbankalögin ákveða, að stofnfjeð skuli vera 5 miljónir með tilliti til þess, að ríkisábyrgðin er þar af tekin; en hitt er beint frávik frá till. nefndarinnar, að stofnfjeð skuli ekki vera annað en innskotsfje ríkissjóðs, jafnvel þótt greitt sje viðbótarstofnfje eins og lagt var til í Ed.

Þá lagði milliþinganefndin til, að einn bankastjóranna skyldi vera aðalbankastjóri. Þetta ákvæði hefir verið tekið upp í Landsbankalögin, en eftir þessu frv. eiga allir bankastjórarnir að vera jafnir að völdum.

Þá er sá mikli munur á frv. milliþinganefndar og Landsbankalögunum, að eftir tillögum nefndarinnar átti ekki að skifta bankanum í þrjár deildir, heldur aðeins aðskilja bókhald deildanna. En lögin kljúfa bankann ofan frá og niður í gegn. Að vísu á að vera ein stjórn yfir öllum bankanum, en hinsvegar sjerstakur varasjóður fyrir hverja deild. Þessu er ekki breytt í frv.

Þá lagði nefndin ekki til fullkomna gullinnlausn, heldur gullmiltainnlausn. Það er nokkurnveginn sama og taka upp gullvíxilfót í staðinn fyrir gullmyntfót. Með því móti gæti ekki hver sem er farið með 10 kr. seðil í bankann og heimtað gull út á hann, heldur yrði gullmiltainnlausnin aðeins notuð, er um stórar upphæðir væri að ræða, eða sendingar. á milli landa.

Í Englandi og Finnlandi hefir þannig innlausn með gullmiltum verið upp tekin og hefir þótt gefast vel. En jafnvel þar sem um svona mikið „princip“-atriði er að ræða, færir frv. lögin ekki í sama horf og milliþinganefndin lagði til.

Þá má enn nefna gulltryggingarhlutfallið. Nefndin lagði til, að gulltryggingin næmi 1/3 upp að vissri upphæð, en hlutfallið átti að hækka eftir því sem veltan ykist. Þessu er ekki fylgt í frv., heldur gömlu Íslandsbankareglunni um 3/8 hluta, og ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á hlutfallínu, þótt seðlaflóðið aukist. Það er því hrein fjarstæða, að þetta frv. gangi í sömu átt og till. milliþinganefndar, heldur er jafnvel vikið frá Landsbankalögunum, þar sem þau eru í samræmi við nefndina.

Jeg ætla ekki að fara út í einstök atriði í ræðu hæstv. fjmrh., enda er sumt af því, er hann sagði, farið að fyrnast fyrir mjer, og svo er hæstv. ráðh. ekki viðstaddur. Hann sagði t. d., að það bæri vott um örar framfarir í atvinnulífinu, að oft þyrfti að breyta lögum. Mjer finst, að það geti alveg eins borið vott um hraflkenda löggjöf og óþarflega mikla löngun til að breyta.

Þá sný jeg mjer að frv. sjálfu og einstökum greinum þess. Verður þá fyrst fyrir mjer 1. gr., þar sem langmikilvægasta breytingin er fólgin, sú, að ríkissjóður beri ábyrgð á innstæðum bankans, í stað þess, að í núgildandi bankalögum er skýrt tekið fram í fyrstu grein, að ríkið beri ekki ábyrgð á þeim. Þetta er mikilvæg breyting, sem kemur til með að hafa ýmsar afleiðingar, og er því ekki furða, þótt menn greini á um hana.

Vil jeg nú fyrst líta á, hvaða ábyrg ríkissjóður hafi borið á bankanum fram að lögunum í fyrra. Það hefir verið dregin inn í þessar umræður sú spurning, hvort ríkið hafi borið ábyrgð á bankanum þangað til. Til að ganga úr skugga um þetta verður að gæta í landsbankalögin frá 1885. Þar er ekkert tekið fram um ábyrgð á bankanum, en í síðustu grein laganna segir svo, að ef bankinn verði lagður niður, skuli fyrst greiða öllum kröfur þeirra á bankann, nema landssjóði aðalskuldina. Það, sem þá verði afgangs, gangi svo til landssjóðs, en hann innleysir seðlana.

Það er ljóst af þessu, að ríkið ber ábyrgð á seðlum bankans. Jeg hefi spurt lögfræðinga um það, hvort ríkissjóður bæri ábyrgð á öðru en seðlunum eftir þessum lögum. Að vísu hefi jeg fengið misjöfn svör, en flestir hafa verið á þeirri skoðun, að svo væri ekki.

Þá hefir verið deilt um það, hvort ábyrgð ríkisins leiddi ekki af því, að ríkið ætti bankann. Jeg ætla ekki að hætta mjer út í svo hárfínar lögfræðiskýringar, en meiri hl. bankanefndarinnar, sem var með ríkisábyrgð, var þó ekki viss um það og segir um það í áliti sínu, bls. 27:

„Um það má sjálfsagt deila, hvort ríkið beri samkv. núgildandi löggjöf um Landsbankann ábyrgð á bankanum lagalega. Sjálfsagt mun það rjett, að sú ábyrgð sje ekki ótakmörkuð lagalega“.

Það má að vísu segja, að bankanefndarmenn hafi ekki haft meiri skilning á þessu en hverjir aðrir, en nefndin gerði sjer þó far um að afla sjer upplýsinga og glöggur lögfræðingur, Sveinn Björnsson, átti sæti í henni.

Hitt hefir ávalt verið ofarlega í mönnum, að ríkið bæri siðferðislega ábyrgð á bankanum, af því að það ætti hann. Sá munur er á siðferðislegri og lagalegri ábyrgð, að ef ábyrgðin er aðeins álitin siðferðisleg, er það Alþingis að skera úr á hverjum tíma, hvort ríkið hafi meiri siðferðislega ábyrgð gegn bankanum eða skattþegnunum. Jeg man, að þegar rætt var um Íslandsbanka í Ed. 1921, þá var talað um, að ríkið bæri siðferðislega ábyrgð á þeim banka, og jeg tel það rjett vera, þar sem það hefir veitt honum rjett til seðlaútgáfu. Jeg held, að einnig sje hægt að tala um nokkurskonar siðferðislega ábyrgð á innstæðufje í sparisjóðum, en alt til þessa hefir engum dottið í hug að blanda lagalegri ábyrgð þar inn í. Svo var um sparisjóðinn á Eyrarbakka, að það kom til kasta Alþingis að úrskurða um það, hvort Landsbankinn skyldi ljetta tapi af innstæðueigendum þar.

Sýnir sú ráðstöfun, að ríkið taldi sjer ekki alveg óviðkomandi, hvort innstæðueigendur í sparisjóðum tapa eða eigi, og er þó alveg tvímælalaust, að þar er engin lagaleg ábyrgð.

Aðalröksemdin með ríkisábyrgðinni er sú, að úr því að ríkið beri siðferðislega ábyrgð á bankanum, þá sje heimska að neita lagalegri ábyrgð á honum. Þetta er sú eina verulega röksemd, sem fram hefir verið borin.

Verður þá að rannsaka, hvort það sje holt fyrir peningamál þjóðarinnar, að bein lagaleg ábyrgð á bankanum komi í stað hinnar siðferðislegu ábyrgðar.

Meiri hl. milliþinganefndarinnar var á þeirri skoðun, að ekki væri um lagalega ábyrgð að ræða, nema tekið væri fram um það í lögum.

Þá er allmikill munur á orðalagi í till. milliþinganefndar og frv. því, sem yfirlýst er, að flutt sje fyrir hönd stjórnarinnar. Í þessu frv. er tekið fram í 1. gr., að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans. Þetta er miklu viturlegar orðað í till. milliþinganefndar.

Í áliti milliþinganefndar var ákveðið, að stofnfjeð skyldi ávalt vera 3 milj. og jafnan haldast 3 milj. Ef bankinn tapar svo miklu, að arður bæti ekki upp nje varasjóður, skyldi bæta stofnsjóði það upp, svo að hann hjeldist ávalt 3 milj. Þetta er varlega til tekið, og jeg skil ekkert í stjórninni að taka ekki þetta ákvæði upp, úr því hún þykist hafa verið að færa lögin í það horf, sem milliþinganefndin lagði til.

Fyrst verður að líta á þá áhættu, sem fylgir ábyrgðinni. Hún er þó ekki aðalatriðið að mínum dómi. En þó er áhættan ekki svo lítil, þegar það er aðgætt, að í bankanum er innstæðufje, sem nemur 30–40 milj. króna, og bankinn starfar oft með mörgum miljónum erlends lánsfjár. Skuldbindingar bankans eru því miklar og aukast með ári hverju.

Jeg býst við, að ef ætti að bæta þessari ábyrgð við, þá verði hún sá segull, er drægi samskonar fje inn í bankann, sem þá um leið yki ábyrgð ríkissjóðs.

Nú mætti náttúrlega benda á reynsluna. Landsbankinn er nú búinn að starfa yfir 40 ár og Íslandsbanki talsvert á þriðja áratug, og það mætti benda á, að mikil fjárkreppa hafi ekki getað riðið þessum bönkum að fullu eða komið það fast við þá, að menn hafi tapað innstæðum í þeim. En þó finst mjer, að þessi reynsla sje ekki svo löng, að maður geti alveg á henni bygt. Það verður að líta á það, að það er varla hægt að hugsa sjer, að bankastörf geti verið öllu hættulegri en hjer á landi. Sá atvinnuvegur, sem krefst mests lánsfjárins, sem sje sjávarútvegurinn, er ákaflega stopull og hættulegur atvinnuvegur; svo að þótt hann með skynsamlegum rekstri geti á nokkuð löngum tíma gefið yfirleitt meiri ágóða heldur en tapið er í vondu árunum, þá er altaf sá möguleiki fyrir hendi, að lánsstofnanir verði að taka þennan atvinnuveg að sjer að svo og svo miklu leyti. Og það er reyndar á allra vitorði, enda sjest það af reikningum bankanna, að þeir hafa þegar orðið að afskrifa á nokkrum árum stórfje, sem hefir tapast. Reikningarnir bera þetta ekki svo alveg með sjer að vísu, en jeg býst við, að frá 1922 og fram til þessa tíma hafi bankarnir afskrifað vafalaust mikið á annan tug miljóna. Þetta sýnir, hvað það er ákaflega fjarri í raun og veru, að bankarnir hjer sjeu stofnanir, sem svo vel eru grundvallaðar, að þær geti ekkert haggast.

Það hefir verið sagt, að enginn sje munur á raunverulegri ábyrgð og siðferðislegri ábyrgð. En jeg get ekki fallist á það óskorað. Þó að maður geti sagt, að eftir því sem getan leyfir eigi þar enginn munur að vera, þá verður mikill munur raunverulega. Við skulum hugsa okkur, að svo færi, að Landsbankinn yrði fyrir svo miklum skakkaföllum, að innstæðufje væri komið í verulega hættu. Þá er óhugsandi annað en á undan slíkum ósköpum hafi farið svo mikið hrun atvinnuveganna, svo mikil óáran, ef til vill eldgos, hallæri og drepsótt, eða alt til samans, að mjer þykir trúlegt, að það færi að álítast vafamál, hvort lengur væri rjett að taka miljónir af skattþegnum slíkrar þjóðar, sem það hefði þolað, til þess eins að greiða innstæðueigendum. Jeg býst við, að það Alþingi, sem kæmi saman á slíkum hörmungatíma, myndi eiga svo erfitt með að fá upp í brýnustu þarfir, að það færi að renna á margan tvær grímur um það, hvor siðferðislega ábyrgðin væri meiri og hvort innstæðueigendur ættu ekki að taka þátt í því stóra sameiginlega skipbroti, sem allir hefðu orðið fyrir.

Eða ef maður tekur það dæmi, að gjaldeyririnn, fyrir aðgerðir einhverrar stjórnar eða fyrir byltingar í viðskiftalífinu úti um heim, fjelli til grunna, líkt eins og gjaldeyrir sumra stríðsþjóðanna. Á slíkum tímum gæti það verið meira en lítið hæpið að bera ábyrgð á öllum innstæðum. Yfirleitt finst mjer þessi ótakmarkaða ábyrgð að því er snertir áhættuna gera alt of lítið fyrir þeim raunverulega möguleika, sem fyrir getur komið, þótt ólíklegur og óæskilegur sje. Jeg vil láta hina siðferðislegu ábyrgð eina gilda, svo að þegar innstæðufje er komið í hættu vegna hörmunga, sem hafa yfir dunið, þá sje þinginu frjálst, að hve miklu leyti ætti að greiða innstæðu eigendum.

En það er samt ekki þetta, sem er aðalatriði fyrir mjer viðvíkjandi þessu máli. En mjer fanst rjett, að það yrði einnig dregið fram, að það er ekki tómur leikur að taka ábyrgð á 30–50 miljónum, eða hvað það nú er, sem svo lauslega er orðað í 1. gr. frv. Það er alls ekki formssök ein. Það var líka einu sinni reynt að telja mönnum trú um, að það væri ekki nema formssök að gerast ábekingur á víxlum.

Í þessu sambandi rifjast upp fyrir mjer, að hæstv. fjmrh. sagði, að það mætti ekki spilla fyrir bankanum með því að neita honum um þessa ábyrgð. Jeg mun koma að því síðar, að jeg tel það síður en svo spilla fyrir bankanum. En ef hann má heyra til mín, vildi jeg minna hann á, hve viðkvæmur hann var gagnvart öðrum banka, sjerstaklega 1923. Þá var ekki eins mikil viðkvæmni í málrómnum.

Önnur hlið þessa máls er það, að jafnvel þó að aldrei kæmi til, að ríkið þyrfti að borga neitt af innstæðum manna í Landsbankanum og skuldbindingum bankans inn á við eða út á við, þá hlýtur ábyrgð á bankanum að hafa áhrif á lánstraust landsins. Það er ómögulegt annað. Fjármálamenn, sem leitað er til um það að leggja fje hingað, eru eðlilega mjög tortryggir. Þeim finst þetta vera einkennilegt fyrirbrigði, að hjer sje þjóð upp á 100 þús., sjálfstæð í stjórnmálum og atvinnurekstri. Þeir gæta alveg sjerstaklega vel að því, hvort í raun og veru sje tryggilega um alt búið hjá henni. Við höfum orðið að kenna mjög á því, hve erfitt er fyrir okkur að afla trausts útlendra fjármálamanna, og hefir það komið fram í þeim vaxtakjörum, sem við höfum átt við að búa. Það er óhugsandi annað en þessir fjármálamenn taki tillit til þess, hvort ríki, sem hefir fjárlög fyrir 8–10 milj., sje í ábyrgð fyrir banka, sem stendur í viðskiftum við hættulegan atvinnuveg, og ábyrgist fyrir hann 30–50 milj. króna. Það hlýtur að hafa áhrif á lánstraustið. Það myndi a. m. k. hver banki láta eitthvað slíkt hafa áhrif á sitt álit á hverjum einstökum viðskiftamanni. Það hefir reynst svo þráfaldlega, að einmitt þær ábyrgðir, sem taldar voru öruggar, hafa samt sem áður tekið að gerast ískyggilegar; og það hefir vitanlega áhrif á lánstraust hlutaðeigenda, hvort sem það eru einstakir menn, bæjarfjelög eða ríki. Jafnvel ró að ríkið þurfi aldrei að greiða innstæður manna, mun það verða að greiða stórfje fyrir þessa ábyrgð í erfiðari vaxtakjörum. Þau erfiðu vaxtakjör lenda síðan á öllum atvinnuvegum landsins, öllum þeim, sem á peningum þurfa að halda. Jeg hefi ekki sett upp það reikningsdæmi, hvað það kostar, ef vextir hækka um ¼%, en það verður allmikið, þegar til lengdar lætur. Jeg hefi aldrei sjeð þá hlið málsins athugaða, en jeg vildi vekja athygli hv. þdm. á þessu atriði.

Jeg vil leyfa mjer að lesa nokkur orð úr milliþinganefndaráliti, bls. 29, þar sem jeg geri grein fyrir ágreiningi mínum út af þessu atriði:

„Í raun og veru er afstaða mín tekin skýrt fram í ummælum Ryggs bankastjóra, þeim, sem tilfærð eru hjer að framan. Þó að hjer sje nauðsynlegt að leyfa seðlabankanum að reka sparisjóðsstarfsemi, til þess að gera hann öflugri, þá er að mínu áliti jafnnauðsynlegt að forðast alt það, sem safnar óeðlilega að honum sparifje, en það mundi ríkisábyrgðin gera. En í þessu liggur hætta, bæði fyrir bankann sjálfan og heilbrigða bankastarfsemi yfirleitt í landinu“.

Rygg bankastjóri hafði einmitt lagt áherslu á, að seðlabankinn mætti ekki nota aðstöðu sína til þess að slá aðra banka af hólmi.

Jeg býst við, að með þessum orðum bankastjórans og þeim orðum, sem jeg dró út af þeim í milliþinganefndinni, sje gripið á sjálfu kýlinu, — það eru áhrifin, sem þetta hefir á hreyfingu sparifjárins í landinu. Þetta er í mínum augum stærsta atriðið í málinu.

Hæstv. fjmrh. hafði talað um það, að andstaða móti ábyrgð miðaði að því að spilla fyrir bankanum; en jeg vil leitast við að sýna fram á, að of mikið aðstreymi sparifjár, sem myndi leiða af ábyrgðinni, verður bankanum beinlínis til skaða. Jeg byggi einmitt á orðum, sem jeg las upp eftir meiri hl. bankanefndarinnar áðan, þar sem hann telur of mikið sparifje geta orðið bankanum til erfiðleika. Þar er þetta prentað með skáletri í nefndarálitinu: „Meiri hl. lítur svo á, að bankanum beri að hafa hemil á sparisjóðsstarfsemi sinni, í samræmi við greint álit Ryggs bankastjóra“. — Þetta sögðu þeir, sem voru með ríkisábyrgð í milliþinganefndinni.

Þetta segir ekki meiri hl. til þess að spilla fyrir bankanum, heldur af því, að þeir, sem hafa sett sig inn í þetta mál, þeir geta ekki komist á aðra skoðun en þessa. Og þetta liggur í augum uppi, að á þeim, sem tekur við miklu sparifje og greiðir af því vexti, hvílir sú erfiða skylda að lána þetta fje út aftur til þess að láta það bera meiri vexti en hann borgar öðrum. En atvinnuvegurinn, sem stærstu lánin þiggur, er óviss og nokkuð hættulegur fjárhagslega. Jeg hefi bent á, að töpin, sem bankarnir hafa orðið fyrir á 6 árum, nema hátt upp í 20 milj. króna. Þetta er það, sem beinlínis er komið í ljós, en ekki verður sagt, hvað meira kynni að koma í ljós, ef skoðað væri niður í kjölinn. Þetta sýnir, að það er ekki eintómt fagnaðarefni fyrir banka, sem á að vera seðlabanki og á að geta hagað sjer eftir peningamarkaðinum, að það rakist að honum 30–50 milj. króna innlánsfje til að ávaxta. Nei, einmitt þetta of mikla sparifje neyðir bankann út í of víðtæka starfsemi, sem áður en nokkur veit af er búin að binda hendur bankans meira en honum er heppilegt. Því var það, að þó að meiri hl. væri sammála um það, að það væri miklu frekar styrkur fyrir Seðlabankann að mega taka við innlánsfje, þá var það örugg sannfæring allra, að það ætti að hafa hemil á slíkri viðskiftastarfsemi, eftir því sem heilbrigt yrði að teljast.

Það má náttúrlega segja, að svo lengi sem lán bankans eru hreyfanleg, þannig að hann geti náð þeim inn á skömmum tíma, þá sje ekki mikið að óttast. En það er svo um hreyfanlegu lánin, að þau geta áður en nokkur maður veit af orðið óhreyfanleg. Fyrirtæki, sem hefir svo og svo langan tíma getað staðið í skilum, getur alt í einu komist í kreppu; og sú sama kreppa hefir þá gengið yfir mörg fyrirtæki, svo að áður en nokkur veit af, er fjeð orðið fast og óseðlabankahæft. Á erfiðu árunum hefir reynslan sýnt það, að mikið fje bindst í aðalatvinnuvegum landsmanna, sem þeir geta ekki svarað út á sama ári og kemur þá fram í skuldum bankanna, og eins og hjer hagar til, í skuldum bankanna erlendis. Þetta verður því til að fjötra bankann við erlent lánsfje, sem honum er sem seðlabanka mjög óhentugt. Bankinn ætti að komast í það horf, að hann þyrfti aldrei að vinna með slíku erlendu lánsfje, nema ef vera skyldi með löngum umsömdum lánum. Bankanum er vitanlega hentugast að geta trygt seðla sína með innieign erlendis, í stað þess að þurfa að liggja með gersamlega arðlausan gullforða. En þeim hagsmunum er haldið fyrir bankanum meðan hann verður að nota erlent lánsfje að svo og svo miklu leyti; því að vitaskuld verður sú erlenda innieign, sem tryggir seðlana, að vera að frádregnum skuldum bankans.

Jeg hefi orðið ákaflega mikið var við það síðan jeg kom á þing, að menn halda, að það sje einungis til góðs að safna fje í Landsbankann. Þetta kemur fram í ýmsu, meðal annars ákvæðunum um það að geyma alla opinbera sjóði og þvílíkt í Landsbankanum. Það getur náttúrlega verið gott og blessað, að Landsbankinn hafi mikið sparifje, en það má alls ekki halda, að það sje einungis til góðs að safna að honum sem mestu af fljótandi sparifje, sem bæði þarf að ávaxta og taka áhættu af, og má meira að segja kippa úr bankanum án mjög langs fyrirvara. Og það verður sjálfsagt fyrir bankann að taka upp þá reglu, að setja sjer ákveðna upphæð, sem heppilegt sje að hafa af sparifje, og fara þar ekki út fyrir.

Eins og kunnugt er, telja margir erlendir bankafræðingar, að seðlabanki sje þess eðlis, að hann eigi að starfa með eigið fje einungis, en ekki sælast eftir öðru starfsfje. Þannig starfa seðlabankar yfirleitt, og starf þessa seðlabanka á að hníga í sömu átt.

Hæstv. fjmrh. sagði, að hann gæti ekki skilið í því, hvar sparisjóðsfje væri betur komið annarsstaðar en í Landsbankanum. — Þetta er sú villukenning, sem þörf er að leiðrjetta. Jeg er viss um það, — og jeg get sagt það, að jeg er vinur Landsbankans, svo það álit mitt stafar ekki af því, að jeg vilji Landsbankanum ilt —, að það er mjög óheppilegt, ef alt sparisjóðsfjeð sogaðist að honum. Miklu heppilegra er, að sparifjeð standi í dreifðum stofnunum.

Þá hefi jeg nú vikið að því, hvaða áhrif það hefir fyrir bankann sjálfan, að sogað sje óeðlilega að honum sparifje með ríkisábyrgð. Næst er þá á það að líta, hvaða áhrif það hafi á aðrar stofnanir. Það hefir engu síður áhrif á heilbrigt ástand peningamálanna í landinu, og þar með óbeinlínis á seðlabankann, hvort þeim er gert nokkuð til miska eða ekki. Á undanförnum árum hefir sparisjóðsfjeð aðallega sogast í þá tvo banka, sem hjer hafa starfað, og þó langmest til Landsbankans. Eftir því sem jeg man best, hefir Landsbankinn yfir 30 milj. kr. af sparisjóðsfje, Íslandsbanki um 11 milj. kr. og um 50 sparisjóðir, sem til eru alls á landinu, liðugar 7 milj. kr. Jeg hefi ekki athugað þetta nýlega og hefi ekki tölurnar fyrir mjer, en jeg hygg þó, að þetta sje nálægt því rjetta. Þegar þetta er athugað, sjest, að hjer er um alveg einstætt fyrirkomulag að ræða, borið saman við það, sem er hjá nágrannaþjóðunum. Þar er langminstur hluti sparisjóðsfjárins hjá seðlabönkum. Án þess að mjer detti í hug, að það sje rjett að breyta þessum hlutföllum hjer mjög skyndilega, þá er þó ekki heppilegt að auka á þessi öfugu hlutföll, sem hjer ríkja á þessu sviði. — Áreiðanlega er það heppilegt, að innlög manna sjeu dreifð milli sparisjóðanna. Sparisjóðirnir hafa yfirleitt reynst þjóðþrifastofnanir fyrir þau hjeruð, sem hafa notið þeirra. Afstaða þeirra er líka sú, að þeir geta lánað út án mikillar áhættu, og jafnvel með vægari kjörum, en þó staðist. Þetta er og eðlilegt, því þau nokkur hundruð augu, sem líta á ástæður lántakenda, sjá eðlilega betur en þau 6 augu, sem horfa út um Landsbankagluggana og eiga þaðan að meta hag manna um alt land. Óhugsandi er því, að bankastjórar eins banka geti eins vel ráðstafað 50 milj. kr. sparisjóðsfje eins og forstöðumenn sparisjóða, sem dreifðir eru víðsvegar og gerþekkja ástæður manna, hver á sínu svæði. Þetta liggur í augum uppi og reynslan hefir líka staðfest það. Gæti því þessi breyting á bankalögunum orsakað það, að fjeð streymdi frá heilbrigðara skipulagi til verra. Vjer höfum ekki úr svo miklu fje að spila, að ástæða sje til að fara þannig með það. En nú mætti segja sem svo, að þetta sje nú gott og blessað, en spurningin sje bara sú, hvort þetta sje annað en hugarburður. Hvort þetta muni breytast nokkuð við þetta. En jeg vil þá sem svar endurtaka þá samlíkingu, sem jeg notaði við 1. umr. þessa máls. Jeg sagði, að þetta mundi fyrst um sinn haga sjer líkt og þegar sóttkveikja af hættulegum sjúkdómi berst inn í mann. Það ber að vísu ekkert á henni fyrst í stað, en maðurinn er eigi að síður smitaður og veikin situr um hvert tækifæri til að fá yfirhöndina. Seinast fer svo, að ekki þarf nema dragsúg eða annað lítið atvik til þess að sjúkdómurinn nái yfirhöndinni og sjúklingurinn verði altekinn. Eins verður um sparifjeð, að ekki mun bera mikið á þessu meðan alt gengur vel. En verði sparisjóðirnir tæpt staddir á einhverjum tíma, þá streymir fjeð þaðan, þangað sem öruggara er. Og það er alveg eðlilegt. Jeg þarf ekki annað en stinga hendinni í minn eiginn barm. Ef jeg væri búsettur norður í Skagafirði eða austur á landi og ætti 50–60 þúsundir í sparisjóði, þá myndi jeg hugsa mig um tvisvar áður en jeg afrjeði að breyta ekki til um geymslu á því. Ekki þarf nú svo mikið fyrir að koma, svo sparisjóðunum geti ekki skrikað fótur. Ekki þarf til þess annað en grasbrest, felli í því hjeraði eða annað því um líkt. Jeg myndi því sennilega velja heldur þann kostinn, að hafa peninga mína svo vel geymda, sem það er víst, að ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar. — Þetta ástand gerist vitanlega ekki á augabragði. En það smákemur. Þessi ríkisábyrgð dregur áreiðanlega peningana að Landsbankanum frá sparisjóðunum. Þá þarf vitanlega ekki að tala um það, hvernig fer með aðra banka, sem eiga viðskifti sín undir því, hvernig atvinnuvegirnir ganga og líða súrt og sætt með þeim. Það má minna á Íslandsbanka, sem á svipstundu tapaði svo miljónum skifti af sparisjóðsfje, nú fyrir nokkru, við það, að sá kvittur flaug fyrir, að bankinn væri ekki svo sterkur sem vera bæri. Og þetta er ofureðlilegt. Það er ekki sú sitjandi sæla hjer á landi að græða fje, að menn hugsi ekki um að geyma það þar, sem tryggast er. Erlendis er þetta líka svo nákvæmt, að eitt ógætilegt orð getur valdið því, að stórar upphæðir sjeu sendar landa á milli. T. d. flutt frá Englandi til Ameríku, eða frá Ameríku til Englands, eða hvert annað sem vera vill, eftir því sem tryggast þykir í þann svipinn. — Hjer er þetta nú máske ekki enn orðið svona viðkvæmt. En það getur fljótlega orðið það. Eftir því sem atvinnulífið verður hjer fjölþættara og koma viðskiftalífsins undir fleiru komin, eftir því verður þessi ríkisábyrgð, sem nú er verið að veita Landsbankanum, sterkari og sterkari sogpípa, sem sogar til hans alt sparisjóðsfje landsmanna.

Þá mun þetta algerlega spyrna móti því, að hjer rísi upp fleiri viðskiftabankar í framtíðinni. Hjer vantar þó lánsstofnanir, er sinni atvinnuvegunum. Og það væri fengur fyrir þá að fá hingað starfandi fje. Og það væri miklu heilbrigðara og eðlilegra að fá hingað erlent hlutafje, er lagt væri í starfandi banka, heldur en að verða sí og æ að framkvæma alt fyrir erlent lánsfje fyrir milligöngu ríkissjóðs. Það væri miklu betra, að útlendingar legðu hjer fram nokkrar miljónir í banka. En fyrir því er spilt með þessu ákvæði.

Jeg gat um það áðan, að meiri hluti bankanefndarinnar hefði verið sammála um það, að óheppilegt væri fyrir seðlabanka að hafa mikið sparisjóðsfje með höndum. En hvernig stóð þá á því, að meiri hl. meiri hlutans í bankanefndinni lagði til, að tekin væri af ríkinu full ábyrgð á bankanum? — Jú, það var af því, að þeir álitu, að bankinn gæti tekið upp aðra aðferð til þess að ákveða, hvað mikið hann vildi hafa af innlánsfje, og haldið frá sjer því, er hann vildi. Sú aðferð, er þeir vilja að bankinn hafi, er tekin fram í áliti meiri hl. milliþinganefndarinnar á bls. 29, og er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðferðin til að halda frá sjer sparifje er ekki erfið. Ekki þarf annað en lækka innlánsvextina; má gera það alt niður í það, að greiða enga vexti af innlánsfje. En eins og kunnugt er, er enginn seðlabanki í heiminum, sem neitar að taka fje manna til geymslu án vaxta.“

Þetta er nú skarplega skrifað. En sje litið á þessa aðferð, að setja fyrst ákvæði, sem eru þess valdandi, að fje sogast að bankanum, en verða svo að gera óeðlilegar ráðstafanir til að halda því frá bankanum, með lágum vöxtum, þá minnir það á þær tillögur, sem fram hafa komið hjer í vetur, að verja stórfje til að byggja nýtt strandferðaskip vegna þeirrar nauðsynjar að greiða fyrir samgöngum umhverfis landið, en stimpla svo alla, sem með þessum skipum ferðast, vegna þess að ferðalögin sjeu óþörf! Þetta miðar alt hvað á móti öðru. — Maður getur athugað, hvernig þetta tekur sig út: Á öruggum tímum dreifist sparifjeð milli sparisjóðanna og annara stofnana. En strax og hagsveiflurnar komast á niðurleið, þá streymir fjeð til þeirrar stofnunar, sem er talin öruggust, og fer þá hart. En þá verður bankinn að taka til þessa viturlega ráðs, að fella niður vextina. En það væri til hins mesta tjóns fyrir þjóðina, því þótt bankinn sæi sjer ekki fært að ráðstafa því fje, sem þannig bærist, til tryggra útlána, þá væri því alt öðruvísi varið, ef þetta fje væri dreift út um bygðir lands. Þar mætti lána fjeð í örugga staði. Margir sjá betur en fáir, og forráðamenn sparisjóðanna um land alt hefðu betri skilyrði til að veita fjenu á þá staði, sem upp úr munu standa, þegar flóðbylgja erfiðleikanna skellur yfir. Þetta er því þjóðinni stórtjón, en getur þó komið fyrir. Og það verður falsboðskapur, sem þjóðinni er færður, að segja, að ríkið ábyrgist innlánsfje hennar í Landsbankanum, ef svo eru engir vextir borgaðir af því fje, meðan hægt er að fá fulla vexti af því úti um land. Þetta er að minsta kosti áttin, sem í er stefnt, þótt jeg kunni að hafa sett afleiðingarnar nokkuð skarpt fram hjer til þess að gera málið skýrara. En þetta glæsilega ráð miðar þó að því, að fyrir geti komið, að Landsbankinn greiði enga vexti. Þeir, sem því eiga fje sitt hjá þessum fína seðlabanka, fá enga vexti greidda, og þeir, sem þurfa að fá lán, fá engin lán. Lánsþörfinni er ófullnægt í tryggum stöðum úti um land. En fjeð liggur vaxtalaust á ríkisins ábyrgð í Reykjavík.

Það hefir verið allmikið deilt um það fyrirkomulag, sem ætti að vera á Seðlabanka. Jeg skal nú ekki fara langt út í það, því jeg er að reyna að vera sem stuttorðastur. En það, sem rjeði því, að meiri hluti bankanefndarinnar, sem þó hafði opin augu fyrir kostum sjerstaks seðlabanka, aðhyltist þó ekki það fyrirkomulag, var það, að hann vildi, að okkar bankamál fylgdu jafnri þróun. En samkv. frv. leit út fyrir, að seðlabanki einstæður mundi verða kraftlaus og einangruð stofnun. Þetta var líka álit Ryggs, aðalbankastjóra Noregsbanka, sem taldi, að Noregsbanki vildi ekki missa bein viðskifti og taldi þau meginþátt bankans. En með þessu ákvæði um ríkisábyrgð verða vafalaust margir reknir á þá skoðun, að setja á fót hreinan seðlabanka, láta ríkið reka hann og taka fulla ábyrgð á honum. En hin deild Landsbankans verði þá rekin sem hver annar sparisjóður. Jeg veit heldur ekki, hvers vegna verið er að taka einn sparisjóð út úr og ábyrgjast alt fyrir hann, en eyðileggja alla aðra sparisjóði með því um leið. Það er ekki viturlegt. Jeg tel heppilegast, úr því sem komið er, að skilja þetta sundur og losna þannig við ábyrgðina á innlánsfjenu; en seðlabankinn hafi ríkisábyrgð, enda er það engin hætta. Vitanlega má seðlabanki ekki fara á höfuðið. En að tengja við hann marga tugi miljóna af innlánsfje gæti algerlega riðið honum að fullu. Jeg álít nú reyndar, að enn sje ekki kominn tími til þess að stofna sjerstakan seðlabanka, þar sem enn er um svo fáar stofnanir að ræða, er hann getur skift við.

En jeg set þetta fram sem viðvörun þeim til handa, sem sannfærðir eru um, að það sje heppilegasta lausn á málinu að fela Landsbankanum — sem ríkið hefir átt í hálfa öld — seðlaútgáfuna jafnhliða annari bankastarfsemi, þessum banka, sem þrátt fyrir allar hrakspár hefir reynst bjargvættur þjóðarinnar. Það er að minsta kosti ekki með þessu verið að hæna menn til fylgis við þessa hugmynd með svona löguðum ráðstöfunum. Jeg hefi aldrei getað skilið, hvernig deilan reis um það, hver færi með seðlaútgáfuna. Landsbankinn átti vitanlega að hafa hana á hendi. En svo gátu menn deilt um það, hvaða breytingar yrði að gera á bankanum til þess að hann gæti farið með seðlaútgáfuna. Jeg læt þá útrætt um þetta atriði, sem er í mínum augum langstærsta atriðið í ákvæðum 1. gr. frv.

Þá kem jeg að 2. gr. frv., þar sem talað er um stofnfje bankans. Í lögum þeim, sem bankanum voru sett í fyrra, var honum ætlað mjög ríflegt stofnfje, eða þannig ákveðið, að bankinn skyldi raunverulega byrja með 5 miljónum króna. Svo mikill styrkur var þetta, að hefði það verið framkvæmt, þá hefði bankinn orðið það sterkur, að hann hefði átt að standa vel að vígi að leysa verkefni sitt af hendi. En nú hefir verið þumbast gegn því að greiða bankanum þetta fje, og því auðsær tilgangurinn: Það á að svifta bankann stofnfjenu. Eftir stjfrv. átti bankinn ekkert stofnfje að fá annað en innskotsfje ríkissjóðs samkv. lögunum frá 1913, tvær miljónir, sem borgast bankanum smámsaman á 20 árum. Og enginn veit enn, nema mats nefndin og stjórn bankans, hvort bankinn eigi þessar 2 miljónir óskertar. En hæstv. fjmrh. ljet hughreystandi orð falla, sem skilja mátti á þá leið, að bankinn ætti sitt innskotsfje ósnert, þegar arðurinn af bankarekstrinum kæmi til. Þetta er að vísu varlega talað úr ráðherrastóli, en jeg vona samt, að óhætt sje að skilja þetta svo, að skoðunin hafi leitt í ljós, að bankinn sje sæmilega stæður.

En hvað sem hag hans líður, þá er þó sá sannleikur eftir, að eftir stjórnarfrumvarpinu er ætlast til þess, að hann missi 3 miljónir af stofnfje sínu, en fái ríkisábyrgð í staðinn, sem mun eiga að þýða það, að hann bjargist við lánsfje í stað eignar. Af innskotsfjenu frá 1913 mun hann nú vera búinn að fá 1½ miljón. Það, sem hann svo vantar til seðlatryggingar, verður hann að draga inn úr lánum — nema sú hugsunarvilla hafi stjórnað penna hæstv. ráðh., að bankinn geti tekið lán til seðlatryggingar. Þetta má náttúrlega gera, en þar með er öllum fjármálum okkar stefnt í fullkomna lausung og glundroða.

Hv. Ed. hefir fundið þetta, og þess vegna ekki sjeð sjer annað fært en að bæta 3 miljóna „viðbótarstofnfje“ við bankann.

Hver heilskygn maður sjer þann mikla mun, sem er á því, að stjórnin hafi heimild til að láta bankann fá þetta eða hitt, eða að hann hafi skýlausa kröfu. Þykist stj. eiga erfitt með að svara þessu út, getur hún hæglega látið það dragast eitt árið til, og jafn. vel annað og þriðja, og hver veit hvað.

Með því að bera fram frv. um það að svifta bankann stofnfjenu, hefir stj. sýnt hug sinn til bankans, og undir velvild slíkrar stjórnar á nú bankinn að eiga um greiðslur þess fjár, sem hann þarfnast.

Hver sá, sem þekkir gang mála hjer, veit vel, að þau ganga sjaldnast eftir beinni línu. Það hefir líka verið ákveðið með lögum, að Íslandsbanki dragi inn eina miljón króna af seðlum sínum á ári, en í þinglokin á hverju einasta ári er samþ. að leysa bankann undan þessari skyldu. Jeg get hugsað mjer, að stj. mundi gera eins, leysa sig undan því að gera þetta, ef hún teldi þörf á því.

Það er helst að skilja á hæstv. fjmrh. að við gætum vel unað við ríkistrygða seðla eins og Landsbankinn hefir haft hingað til. En þetta er aumasta fáviska. Fyrst og fremst er ekki til neins fyrir okkur hjer úti á hala veraldar og með okkar litlu reynslu í peningamálum, að setjast á þann háa hest að ætla að fara að kenna öllum heiminum nýjan sannleika í bankamálum. Allur heimurinn veit, að til þess að tryggja seðla þarf gull eða annað jafngilt handbært verðmæti. Menn eru búnir að reka sig oft á í bankamálum, og af þeirri reynslu hafa þeir lært, og af þeirri reynslu eru bankafræði nútímans sprottin.

Menn ætluðu hjer á árunum að tryggja seðla með fasteignum og hjeldu, að það væri hægt. En þegar átti að taka til þessara fasteigna, varð reynslan önnur. Kröfuhafarnir vildu peninga, en ekki fasteignir, og seðlarnir fjellu í verði, því að menn vildu heldur lítið gull en stórt landflæmi.

Þá er næst á það að minnast, að það, að seðlar Landsbankans gátu haldið fullu verði, þó að ekkert stæði bak við þá nema landsábyrgð, stafaði af því einu, að seðlaútgáfa þessi var svo afartakmörkuð og altaf haldið langt fyrir neðan gangeyrisþörf landsmanna. Reynslan sýnir, að það er ákveðin upphæð seðla, sem aldrei kemur til innlausnar, af því að þeir liggja í vösum manna, eru á ferð, liggja í sjóði og kistuhandröðum og víðar. Þetta er sú upphæð, sem reynslan sýnir, að viðskifti hverrar þjóðar halda ávalt í umferð, og þessa upphæð þarf því ekki að gulltryggja.

Þetta vissi gamli Levy, sem samdi Landsbankafrv. í upphafi, enda var hann einhver slyngasti bankamaður Norðurlanda. En af þessu hefði gamli Levy aldrei dregið þá ályktun, sem fjármálaráðherrann okkar vill halda fram, að gefa mætti út toppseðla án þess að gulltrygging fylgdi. Menn geta að vísu sagt, að bæði stofnfjeð og ríkissjóðsábyrgð miði að því að auka traust á bankanum. En af því má ekki draga þá ályktun, að ríkisábyrgð geri alt sama gagn eins og eigið fje. Enda er það bersýnilegt af brjefi bankastjórnarinnar, að hún lítur svo á, að ríkisábyrgð geti alls ekki komið að sama gagni og bankans eigið fje. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Innlent lánsfje getur ekki komið í stað stofnfjár, og jafnvel þótt ríkissjóður vildi taka ábyrgð á nýju lengra láni fyrir bankann, há fullnægir það bankanum eigi heldur í stað stofnfjárins. Bankanum er nauðsyn að fá nýtt eigið fje“ (og þetta „eigið fje“ er undirstrikað) „en nýtt lánsfje kemur honum ekki að gagni.“

Bankastjórarnir fara ekkert frekar út í þetta, en bæta þó við:

„Fljótt á litið kann að virðast lítill munur á því, hvort ríkissjóður tekur sjálfur lán og leggur bankanum það til sem stofnfje, eða bankinn sjálfur taki jafnhátt lán. En á þessu er sá munur, sem úr sker fyrir bankann. Í fyrra tilfellinu fær bankinn eigið fje til umráða, og það eitt skapar bankanum örugga aðstöðu til að vinna að aðalhlutverki sínu, sem er að hafa til frambúðar tök á gjaldeyri landsins.“ — Ef til vill trúa þeir nú bankastjórunum, sem ekki vilja trúa mjer.

Þetta stafar af því, fyrir það fyrsta, að bankinn þarf að tryggja seðla sína, og raunveruleg trygging er ekki fólgin í neinu nema eigin fje bankans. Hann verður ekki, frekar en einstaklingurinn, neitt ríkari fyrir lántöku, eða meiri ábyrgð í honum fyrir seðlunum. Í öðru lagi getur bankinn ráðstafað eigin fje eftir vild. Hann hefir engan halla af því, þó að hann láti það liggja arðlaust. En lánsfje sitt verður hann að ávaxta til hins ítrasta og verður að tefla á fremsta hlunn með að hafa það í veltu.

Og í þriðja lagi getur mikið af lánsfje því, sem bankinn starfar með, verið af honum tekið með litlum eða engum fyrirvara. En eigið fje er honum trygt. Það á við hjer sem annarsstaðar, að ríkari er eign en umboð.

Hæstv. fjmrh. sagði, að maður yrði að hugsa búmannlega, þegar verið væri að ganga frá aðalpeningastofnun landsins. Þetta er hverju orði sannara. Það þarf einmitt að hugsa búmannlega, þegar verið er að tryggja framtíð bankans. En er það ekki einmitt sá búmannlegi hugsanaferill, sem jeg vil koma mönnum inn á með því að gera mun á eignarfje og lánsfje? Hvaða búmaður er það, sem ekki veit þetta?

Þess vegna hafa erlendir seðlabankar ekki tekið við innstæðufje nema án allra vaxta. Þeir vilja ekki starfa með öðru fje en því, sem ekki bindur hendur þeirra í fjárráðstöfunum. Þegar þeir svo sjá hagsveiflurnar nálgast, geta þeir dregið sig inn í sína eigin skel, ef svo mætti að orði kveða, geta dregið fjeð úr veltu og haldið fast í við aðra banka. En þegar kreppan er dunin yfir og alt er lamað vegna svartsýnis og fjárhagsörðugleika, þá á seðlabankinn að koma til skjalanna. Þá á hann að hafa öll sín tæki í lagi til þess að geta haldið því við, sem ekki má hrynja.

En sá banki er máttlaus í þessu efni, sem svara verður 6–7% af öllu því fje, sem hann starfar með, því að það hlýtur að lamast af kreppunni. Seðlabankinn má ekki þurfa að taka tillit til neins nema þarfa viðskiftalífsins á hverjum tíma.

Jeg veit annars ekki, hvers vegna hæstv. stjórn leggur svo mikinn hug á að skera niður stofnfje bankans. Ef það er meiningin, að hún vilji ekki sitja á svikráðum við bankann og peningamál landsins í heild, þá get jeg ekki fundið neina aðra ástæðu fyrir þessu en vanþekkingu og skilningsskort, sem er alveg ósamboðinn forráðamönnum þjóðarinnar í þessum málum og háskalegur högum landsins.

Þá hefi jeg nú talað um 1. og 2. gr. frv., enda eru ákvæði þeirra þau atriðin, sem langsamlega mestu máli skifta. Um hinar aðrar greinar mun jeg segja lítið. Þar er víðast hvar um smávægileg atriði að ræða, í samanburði við þau, sem nefnd hafa verið.

Um landsbankanefndina get jeg sagt, að jeg var henni áður hlyntur og álít það fremur meinlaust atriði, en álít þó andhælishátt að fara að breyta þessu nú, úr því annað fyrirkomulag var komið í lögin og farið að „praktisera“ það.

Breytingin í 8. gr., um að hætta við það fyrirkomulag bankans, að einn bankastjórinn sje aðalbankastjóri, þykir mjer miða til hins verra. Það hefir hvarvetna sýnt sig, að það er heilbrigðara að setja sem mesta ábyrgð á einn mann, í stað þess að dreifa henni á fleiri. Með þessu er þó ekki sagt, að ekki eigi að hlíta góðum ráðum, þó annarsstaðar komi frá. Enda var til þess ætlast, að bankastjórar væru þrír, eins og verið hefir, þó að aðalábyrgðin væri lögð á einn mann.

Þessi tillaga milliþinganefndarinnar var ágæt og skaði, að hún gat ekki komist í framkvæmd. En í raun og veru gat þetta ekki komist í framkvæmd fyr en eitt sæti losnaði í bankastjórninni. En slíkt er aðeins tímaspursmál, en bankinn á að standa lengi, svo þetta hefði komist á innan stundar.

Hæstv. fjmrh. sýndist það benda á hraðan vöxt atvinnuveganna, að breyta þyrfti löggjöf bankans árlega. En mjer finst það okkur og Alþingi til lítils sóma að vera að hringla með löggjöf aðalpeningastofnunar landsins frá ári til árs. Hitt hefði óneitanlega sýnt meiri þroska löggjafanna, að lofa lögunum frá í fyrra að reyna sig dálítið betur.

Þá er eitt atriði í 11. gr., um að kjósa skuli nýtt bankaráð.

Jeg er dálítið ragur að tala um þetta atriði eins og þyrfti, vegna þess að jeg er einn af þeim mönnum, sem þetta ákvæði getur gengið út yfir. En eitt vil jeg þó taka fram, sem kemur því ekkert við, hvort jeg á þar sæti eða ekki, að jeg hygg það áreiðanlega vera mjög óheppilegt fyrir bankann, að þannig sjeu gerð skifti eftir pólitískum flokkum, því að í hvert skifti og nýr flokkur kemur til valda búast menn við, að kosið verði nýtt bankaráð. Jeg er ekki þar með að segja, að ekki geti valist mestu sómamenn aftur, en það, að kjósa nýtt bankaráð í hvert skifti og nýr flokkur kemst til valda í landinu, er mest „demoraliserandi“ af öllu, sem hægt er að gera við slíka stofnun. Það er ekkert, sem hægt er að gera bankanum til jafnmikillar bölvunar og það, að hann sje bitbein pólitískra flokka, sem sópa starfsmönnum bankans út og inn eftir vild. Hæstv. ráðh. gat þess, að ef valist hefðu góðir menn í bankaráðið, þá yrðu þeir látnir sitja kyrrir. Mjer liggur við að segja: heyr á endemi. Eins og það sje nú það, sem látið er ráða eitt út af fyrir sig, þegar kosið er í bankaráðið af pólitískum flokkum á þingi? Það geta náttúrlega valist ágætir menn í bankaráðið, en það fær enginn að sitja vegna síns ágætis eins, ef andstöðuflokkurinn hefir kraft til þess að setja hann burtu og koma sínum manni að.

Hvers vegna er bankaráðið kosið með hlutfallskosningu, ef ekki til þess að styrkur flokkanna á þingi fái að njóta sín? Nei, ef einn flokkur getur komið að 4 mönnum, þá gerir hann það, og aðrir 4 menn eru látnir fara, alveg án tillits til þess, hvort það eru góðir menn eða ekki.

Það vær í alveg eins hægt að stofna nýjan flokk í landinu, sem ekkert fylgi hefði, og þó hann sendi afbragðsmenn í hvert kjördæmi, gæti svo farið, að hann kæmi engum að, vegna þess að þeir flokkarnir, sem fyrir væru, sætu að atkvæðamagninu. Eins er það þegar ráðherraskifti verða. Það er svo sem ekki vegna þess, að þeir, sem frá fara, sjeu ónytjungar og til einskis hæfir; það geta verið afbragðsmenn, en flokkarnir vilja eðlilega skipa þar á sínum eigin mönnum.

Þannig er það á öllum sviðum, og það þýðir ekkert að vera að hræsna með það, að ef valist hafi góðir menn áður, þá sitji þeir kyrrir. Það er aðeins til þess að lækka hæstv. ráðh., að vera að fara með svona staðleysubull í þessu máli. Jeg býst við því, ef valin er Landsbankanefnd nú á þingi, þá verði hlutföllin 9:6, og þegar sú nefnd kýs bankaráðið, verður hlutkesti milli 2. og 3. manns listanna. Þetta er veruleikinn, og ekkert annað.

Þá er smáatriði í 14. gr., að fella niður daglega eftirlitið, en sem nú er komin fram brtt. um að setja inn aftur. Þetta sýnir eins og annað, hvernig hringlað er úr einu í annað. Jeg lagði ekki mikið upp úr daglega eftirlitinu í fyrstu, en úr því að það var einu sinni komið inn, þá finst mjer afaróviðkunnanlegt að fella það niður, því að það getur vakið þá grunsemd hjá þeim, sem í fjarlægð búa og lítið þekkja til, að verið sje að draga úr eftirlitinu og að þess sje óskað, að eftirlitið sje ekki svo ýkjamikið.

Þá er 25. gr. Þar er talað um þá seðla, sem Landsbankinn má hafa úti auk gulltrygðu seðlanna. Jeg var altaf andvígur þessu; jeg vildi aðeins hafa eina tegund seðla, gulltrygðu seðlana. Nú var það miðað við ákveðið ár, hvenær bankinn ætti að draga inn seðlana, en eftir þessu merkilega frv. er það framlengt enn um eitt ár, eða til 1929.

Hjer er verið að framlengja um eitt ár þetta sleifarlag, án þess að það komi öðrum breytingum á bankanum nokkuð við. Það virðist vera gert af hreinni ást á sleifarlaginu og til þess eins að tefja fyrir því, að bankamálin komist í það horf, sem þau eiga að komast í eftir löggjöfinni.

Jeg benti á það við 1. umr., að nokkur atriði frv. þyrfti nauðsynlega að leiðrjetta, sökum þess að þau rákust hvert á annað. Þessi ákvæði hafa nú verið leiðrjett með brtt. meiri hl. nefndarinnar, sem leggur til, að frv. verði samþykt. En þó skal jeg ekki ábyrgjast, hvort búið er að leiðrjetta alt ennþá, t. d. tilvitnanir, því að þær eru mjög margar og gæti vel hitst svo á, að þær kæmu öfugt við og lentu á skakkri grein. Ef það kemur fyrir, verður vanalega ekki úr því annað en meinlaus vitleysa, en það er bæði leiðinlegt að hafa slíkar vansmíðar á vönduðum lögum, og svo geta rangar tilvitnanir leitt til hrapallegs misskilnings, ef örlögin taka það í sig að hæðast að mönnunum.

Vil jeg því beina því til hv. fjhn., hvort hún vilji ekki enn aðgæta það vel, að allar tilvitnanir sjeu í samræmi, ef frv. á fram að ganga. Annars var það hægðarleikur að gera frv. svo úr garði, að þar þyrfti engu að breyta.

Loks vil jeg geta þess um frv. í heild sinni, að jeg lít á það sem illkynjaða árás á bankann, sökum þess hve slík stofnun er afarviðkvæm og fara má varlega viðvíkjandi henni, og það afsakar ekki þá árás, þó að hún sje ef til vill gerð meira af fávisku en illvilja. Jeg hefi bent á það, að lög Landsbankans hafa komist víða um lönd til viðskiftabanka Landsbankans, enda er óhætt að gera ráð fyrir því, að löggjöf þjóðbankans fari víðar en flest önnur lög, sem sett eru á Alþingi. Það væri ekki nema eðlilegt, að viðskiftabankarnir spyrðu, hvernig slíkri stofnun sje farið, þegar breyta þarf löggjöf hennar árlega. Annaðhvort hljóta þeir að álíta, að löggjöfinni hafi verið hroðað af í fyrra, eða að hjer sje verið að hringla með bankann eftir því, hvernig pólitísku vindarnir blása, og meira óþurftarverk væri ekki hægt að gera peningamálum okkar en það, að ýta undir slíka skoðun. Jeg vænti þess, að allir skynsamir og velviljaðir menn slái nú skjaldborg um Landsbankann til að verja hann slíkum hnekki. Það var t. d. sagt 1923, þegar átti að skipa sjerstaka rannsóknarnefnd til þess að rannsaka hag Íslandsbanka, að við, sem vorum á móti því, hefðum slegið skjaldborg um þann banka. Jeg játa það, að jeg bar enga persónulega velvild til Íslandsbanka, því að mjer þótti öllu vænna um landsins eiginn banka, en þegar átti að hefja slíkt frumhlaup að bankanum, þá taldi jeg það skyldu mína að leggja mitt lið gegn slíku skemdarverki.

Nú er röðin komin að Landsbankanum. Sá sami flokkur, sem áður vildi sýna Íslandsbanka háskalegt tilræði 1923, er nú kominn með sömu sprengjuna að landsins eigin banka, þá sprengju, sem hverjum banka er hættulegust, að spilla trausti hans. Gegn slíku vil jeg beita mínum kröftum og vona, að þeir verði margir, sem í þá skjaldborg vilja ganga.