10.04.1928
Neðri deild: 67. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4615 í B-deild Alþingistíðinda. (3866)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Sigurður Eggerz):

Jeg vil hefja mál mitt með því að taka það fram, að jeg kannast alls ekki við, að jeg hafi reynt að tefja málið. Það er dálítið hart að telja mínúturnar, sem maður talar til að verja sig gegn árásum stjórnarflokksins. — Jeg veit ekki til, að hæstv. stjórn hafi neina ástæðu til að banna umr. um mál. Það er algerlega nýtt á þingi að þurfa að sitja undir ámælum frá frsm. stjórnarflokksins fyrir að halda fram sinni skoðun. Mjer fanst líka síður ástæða til þess fyrir hv. frsm. meiri hl. að dvelja við þetta atriði, vegna þess, að mjer þótti þau rök, sem hann hafði fram að bera, svo ljettvæg, að hann hefði gott af að hlusta á meiri umr. um þetta mál en orðnar eru.

Mjer er að einu leyti óljúft að tala um þetta mál. Mjer er nefnilega fullljóst, að það hefir alls enga þýðingu, hversu þung rök sem fram eru borin. Jeg ætla þó að segja nokkur orð, og skal jeg þá snúa mjer strax að þungamiðju málsins, sem er ríkissjóðsábyrgðin. Jeg hefi ekki getað sjeð, að hv. frsm. meiri hl. hafi fært gild rök fyrir því, að þessi ótakmarkaða ábyrgð sje sjálfsögð.

Við erum auðvitað börn í bankamálum enn. Reynslan hjá okkur er svo lítil, og það er því eðlilegt, að við lítum á þá erlendu reynslu til að geta bygt á henni.

Jeg hefi í nál. mínu skýrt frá því, að jeg hefi fengið hagfræðing til að gefa upplýsingar um, að hve miklu leyti það sje regla erlendis, að ríkin beri ábyrgð á bönkanum. Jeg hygg nú, að hv. þdm. hafi kynt sjer þá skýrslu, sem hann hefir gefið um þetta og prentuð er í nál. Eitt atriði langar mig þó til að minnast á í sambandi við hana. Eins og sjá má af skýrslunni, er vafasamt, hvort nokkur banki hefir algera, ótakmarkaða ríkisábyrgð. — Í Danmörku er þó dæmi um það, um fyrverandi einkabanka, „Landmandsbanken“. Um það vita allir, að það var neyðarúrræði. Síðan hafa staðið mjög harðar deilur um þessa ríkisábyrgð, og hefir orðið samkomulag um, að ríkið þurfi að losa sig úr þessari ábyrgð. Nú er sú niðurstaða orðin eftir miklar og harðar deilur, að ríkissjóður Dana á að greiða tap bankans, 134 miljónir króna, og auk þess 36 miljónir í varasjóð og 50 miljónir sem hlutafje. — Þessi hlutabrjef á svo að selja, en ríkissjóður Dana á að losna úr ábyrgðinni. Hann á að leggja bankanum til fje, en svo á hann að standa á eigin fótum.

Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji líkja Landsbankanum við þennan danska banka, heldur til þess að benda á, hvernig ríkisábyrgðin hefir reynst hjá Dönum og hve mikla áherslu þeir leggja á að losna úr henni.

Í sambandi við þetta langar mig til að draga fram annað atriði. Það er það, hvernig litið er á það hjá sambandsþjóð okkar, hvað heppilegt það væri að hafa bankaeinveldi í landinu. — Því verður ekki neitað, að þegar búið er að taka ótakmarkaða ábyrgð á Landsbankanum og þannig gera ráðstafanir til að draga sparifje landsmanna alt til hans, þá fer að nálgast bankaeinokunina.

Í nýrri skýrslu frá „Handelsbanken“ má sjá, hvernig hann lítur á það, ef „Landmandsbanken“ hyrfi úr sögunni. Því er haldið fram, að það sje mjög nauðsynlegt að láta „Landmandsbanken“ lifa. Þeir líta svo á, að vegna nauðsynja á því að skapa ekki bankaeinveldi sje nauðsynlegt að hafa fleiri en 2 einkabanka.

Eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, er ekki hægt að komast framhjá því, að það er litið svo á hjá erlendum bankafræðingum, að það sje óheppilegt, að seðlabanki taki á móti fje til ávöxtunar. Nú hefir það verið ákveðið, að Landsbankinn skuli hafa seðlaútgáfuna og einnig reka sparisjóðsstarfsemi. Um það þýðir ekki að fást. En nú á að bæta úr þessu með því að stuðla að aukning sparifjárins Jeg meina, að það sje yfirleitt ekki hægt að komast framhjá því, sem er viðurkend regla í peningamálum heimsins, að hjer á Alþingi sje ekki hægt að strika yfir það með nokkrum orðum og segja, að það sje hjegómi einn, sem alstaðar er viðurkent, sem sje, að það sje ekki heppilegt, að seðlabanki fái sparisjóðsfje til ávöxtunar. Og hverjir standa betur að vígi í deilunni, þeir, sem hafa að baki sjer erlenda aldagamla reynslu um allan heim, eða hinir, sem vilja ganga nýjar leiðir, þvert gegn allri reynslu, og brjóta þar með allar viðurkendar reglur? Jeg held, að það sjeu vafalaust þeir, sem styðjast við reynsluna, og því fremur, þar sem segja má, að peningamálin sjeu „international“, það er að segja, gildi sömu reglur um þau alstaðar í heiminum.

Hæstv. fjmrh. benti á það, að ríkissjóður hefði tekið ábyrgð á fleiri bönkum, fyrir Landsbankann 750 þús. og á Íslandsbanka. Jeg vil geta þess, að mjer virtist það koma berlega fram í ræðu hans, að hann var ekki að taka þetta fram í þeim tilgangi að meinast við Íslandsbanka. En jeg vil segja honum, að mismunurinn er auðvitað sá, að þar er tekin ábyrgð á takmarkaðri upphæð, og það er vitanlega alt annað en sú stórfelda ábyrgð í eitt skifti fyrir öll, sem hjer er um að ræða. Og jeg vil nú benda honum á, hvernig sú ábyrgð mundi lýsa sjer. Ef ríkissjóður þyrfti að fá lán, mundu erlendir lánardrotnar auðvitað spyrja, hvernig fjárhagur ríkissjóðs stæði, en hann mundu þeir ekki einungis meta eftir þeim skuldum, sem ríkissjóður væri í, heldur einnig eftir þeim ábyrgðum, sem hann væri í. Ef um takmarkaðar ábyrgðir er að ræða, getur lánveitandi altaf sjeð, hve stórar skuldbindingarnar eru. Og hvað snertir ábyrgð Íslandsbanka, þá er þess að gæta, að á bak við hana stendur föst trygging, og það skiftir miklu máli. En ef um ábyrgðir af hálfu ríkissjóðs er að ræða, þá er ekki hægt að þekkja hag ríkissjóðs nema með því að þekkja aðstöðu bankans. Og jeg held, að það geti ekki verið heppilegt fyrir fjármálalíf þjóðarinnar, að þessu sje slegið svo fast saman í eina heild. Jeg held, að það verði miklu heppilegra, eins og jeg legg til í nál. mínu, að Landsbankinn fái svo mikinn styrk nú þegar í eitt skifti fyrir öll, að hann geti staðið fast á eigin fótum. Jeg held, að það sje einmitt mjög heppilegt, að Landsbankanum, sem er nokkurskonar ríki í ríkinu, sje skipuð sú fjárhagslega aðstaða í eitt skifti fyrir öll, að hann þurfi ekki altaf við og við að vera að knýja á dyr ríkissjóðs. Jeg held, að það sje ákaflega heppilegt, að Landsbankinn fái slíka fjárhagslega. aðstöðu, svo að hann geti staðið á eigin fótum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri höfuðatriðið, að framkvæmdarstjórn bankans, bankastjórnin sjálf, væri vel skipuð. Þetta er auðvitað alveg rjett; það er yfirleitt höfuðatriðið í bankamálunum að hafa sem besta bankastjóra, og það getur fleytt hverjum banka yfir mörg sker. En það, sem líka skiftir ákaflega miklu máli, er það, að sjálft fyrirkomulag bankans sje ekki alt of þungt í vöfunum.

Út af ummælum hæstv. fjmrh. vil jeg geta þess, að þegar jeg var að tala um það, að bankinn gæti tekið lán út á eigin eignir án ríkissjóðsábyrgðar, þá var jeg að gera grein fyrir því, að takmarkanir, sem gerðar væru, væru þannig lagaðar, að í raun og veru mætti segja, að ríkissjóður hefði að öllu leyti fulla ábyrgð á bankanum og að bankinn gæti skapað ríkissjóði nýjar og nýjar skuldbindingar með ráðstöfunum sínum. Ef töp verða í þessum tilfellum og gengið er að bankanum, þá stækkar ábyrgð ríkissjóðs, því að þá missir bankinn þær eignir, sem hann annars hefði getað gripið til.

Hinsvegar hefir verið tekið fram, að ef um víxlarafjelag innlent væri að ræða, sem rjeði yfir nægu fje, þá gæti Landsbankinn tekið lán hjá því án lagaheimildar.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að jeg hefði talað um hinn stærri og hinn minni ríkissjóð. Það er rjett; jeg hafði þau ummæli. Jeg talaði um þann minni ríkissjóð, sem Alþingi og stjórn eiga að vaka yfir. Og eins og kunnugt er, eru mjög strangar reglur fyrir fjárveitingum úr þeim sjóði, og sýnist þó ekki veita af. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það liti út fyrir, að jeg hefði ekki gert mjer grein fyrir því, að þessir tveir sjóðir eru ólíks eðlis. Væri sá eðlismunur á þeim, að fje, sem veitt væri úr hinum fyrra, væri ekki afturkræft, en aftur á móti væri það fje afturkræft, sem veitt væri úr hinum síðara. Þetta er alveg rjett. En eigi að síður sýnir reynslan það, að lán, sem veitt eru í bönkum, geta tapast, og þarf ekki að fara inn á það, en sýnilegt er, að ríkissjóður getur komið til með að bera ábyrgð á slíkum töpum, ef illa fer. 2—3 menn, sem stjórna bankanum, geta auðvitað með sínum ráðstöfunum skapað svo og svo mikla áhættu fyrir ríkissjóð.

Jeg hefi ekki allra minstu trú á því, eins og hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. virtust halda fram, að ef þessi 15 manna nefnd væri sett yfir bankann, þá væri þar með sett full trygging fyrir því, að vel væri farið með fje bankans, eða að þá væri að minsta kosti minni ástæða til þess að vera hræddur við það, að bankinn yrði settur í sjerstakar áhættur. Jeg get ekki skilið, að svo sje. Reynslan man verða sú, að hvernig sem þessu bankaráði er fyrir komið, þá verður það framkvæmdarstjórn bankans, sem aðalráðstafanirnar gerir, og aðalábyrgðin hlýtur því að hvíla á henni; og er það auðvitað eðlilegt.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekki heppilegt að blása að þeim kolum, að gera menn hrædda við bankann. Jeg veit, að hann hefir ekki getað beint þessum orðum til mín. Jeg veit, að jeg hefi hagað svo orðum mínum, að enginn hefir getað skilið þau svo, að jeg vildi með þeim auka tortrygni eða hræðslu við bankann. En ef svo skyldi vera, að einhverjir skyldu ætla, að till. mínar í þessu máli stöfuðu af því, að jeg er bankastjóri í öðrum banka, þá vil jeg benda þeim mönnum á það, sem ekki hafa tekið eftir því, að allar tillögur mínar í þessu máli ganga í þá átt að styðja Landsbankann, og eftir því, sem jeg fæ betra yfirlit yfir bankamál í þessu landi, því betur verður mjer það ljóst, að það er stórhagur einnig fyrir Íslandsbanka, að Landsbankinn standi sem föstustum fótum, því að ef vel er að gætt, þá kemur það í ljós, að hagsmunir bankanna eru svo samtvinnaðir, að hvortveggja þeirra hefir stórhag af því, að hinn sje sem best stæður.

Það veitir sannarlega ekki af því, að báðir bankarnir starfi af fullum kröftum. Jeg verð að segja það í fullri alvöru, að jeg tæki mjer það hreint og beint nærri, ef skilið er við þetta mál svo, að Landsbankinn fái ekki þann styrk, sem jeg veit, að hann þarf að fá. Því að tilgangurinn með stofnun seðlabanka og tilætlunin með því að gera Landsbankann að seðlabanka var sú, að hann ætti að geta haft tök á fjármálalífi þjóðarinnar. En hvernig á hann nú að geta haft tök á því? Hverja aðstöðu hefir Landsbankinn til þess? Hann fær hana áreiðanlega ekki, þótt ríkissjóður taki ábyrgð á skuldbindingum hans.

Jeg hefi enga tilhneigingu til þess að fara nú að endurtaka hitt og þetta, sem jeg hefi áður sagt um þessi mál. Jeg hefi því aðeins drepið á helstu höfuðatriði þessa máls. Þó skal jeg víkja fáeinum orðum að fyrirkomulagi þessarar 15 manna nefndar, sem setja á yfir Landsbankann.

Jeg er satt að segja alveg steinhissa á því, að menn skuli hafa trú á því, að þessi nefnd muni verða heppileg fyrir bankann. Jeg skil ekki, hvernig menn geta vonað, að bankinn verði síður pólitískur, þótt þessi nefnd verði sett yfir hann. Því að hún verður pólitísk. Hún á að verða kosin af Alþingi til 6 ára, og því hlýtur hún að verða kosin pólitískt. Jeg að minsta kosti get ekki vænst þess, að nefnd, kosin hjer á Alþingi, úr hinum pólitíska eldi, sem hjer brennur, verði ópólitísk. Jeg held þvert á móti, að hún verði til þess að koma bankanum enn meir undir pólitísk áhrif enn nokkru sinni fyr. Og jeg fæ ekki annað sjeð en að hún brjóti einnig bág við þá stefnu að gera alt sem einfaldast og óbrotnast um embættaskipun landsins. Og þess er áreiðanlega ekki vanþörf, áð tilraun sje gerð til þess, því að ella munum vjer sjá það, að það mikla embættabákn, sem komið er upp í þessu litla landi, mun vaxa okkur yfir höfuð. En það er langt frá því, að sú stefna, sem hjer verður vart, gangi í þá átt að gera alt sem óbrotnast í þessum efnum, heldur er það þvert á móti. Hún gengur í þá átt, að búa til svo óskiljanlega mikinn embættislýð kringum ekki stærri stofnun en Landsbankann.

Jeg veit, að það þýðir ekki að tala um þetta, en jeg vil minna á það, sem jeg hefi sagt í nál. mínu og lagt mikla áherslu á í fyrri ræðu minni, að jeg tel það mjög óviturlegt að láta þessi lög ganga í gildi nú þegar, eða með öðrum orðum að fara nú eftir aðeins eitt ár að breyta því, sem breytt var í fyrra. Því að það er föst grundvallarregla bæði hjer og annarsstaðar, að þótt stjórnarskifti verði, er ekki breytt um opinbera starfsmenn, ef þeir hafa staðið vel í stöðu sinni.

Hæstv. fjmrh. sagði, að þeir, sem væru í minni hluta, yrðu að sætta sig við þær breytingar, sem meiri hlutinn vildi gera láta, í þessu tilfelli sem öðrum. Jeg tek nú ljett á þessu. Jeg var í minni hluta er fyrri stjórn sat og er í minni hluta enn. Jeg hefi skýrt frá því, að jeg tel, að það sje mjög hætt við því, að með þessu verði gerður órói kringum bankann. Því að, ef núv. stjórn hefnir sín svo grimmilega á pólitískum andstæðingum sínum, að hún rekur burtu úr stöðunum þá, sem í þeim eru nú, við hverju má þá búast, þegar andstæðingarnir koma aftur til valda? Þá munu þeir sennilega gjalda líku líkt og reka aftur sína andstæðinga. Það er þetta, sem jeg kvíði. Þess vegna er jeg hræddur um, að slík byrjun geti orðið upphaf nýrrar pólitískrar styrjaldar, þar sem andstæðingarnir reki hver annan burt á víxl. En hvað það mundi holt eða heppilegt okkar litla þjóðfjelagi, það ættu allir hinir gætnari menn að skilja.

Jeg býst við, að jeg muni ekki lengja mikið umræðurnar um hetta mál úr þessu, því að jeg hefi ekki trú á, að það hafi nein áhrif á úrslit þessa máls, þótt eitt og annað sje hrakið af því, sem hjer hefir verið haldið fram af stuðningsmönnum frv. Það má því vel vera, að jeg hafi ekki svarað öllum aths. hæstv. fjmrh., sem þó væri ef til vill ástæða til að svara. En annars get jeg vísað til nál, míns, enda má vera, að betra tækifæri gefist við 3. umr. til að athuga eitthvað af því nánar. En ef jeg hefði nokkra minstu von um það, að hægt væri að koma fram nokkrum breytingum, þótt ekki væri nema á helstu meginvillum þessa frv., þá skyldi jeg halda hverja ræðuna á fætur annari. En jeg veit, að það þýðir ekkert, því að það er þegar búið að ákveða alt fyrirfram um gang málsins.