12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4639 í B-deild Alþingistíðinda. (3875)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Ólafur Thors):

Það gladdi mig að eiga því láni að fagna að sjá hæstv. forsrh. hjer í deildinni. Allajafna er honum ekki hjer að mæta, og ef á hann er deilt eða upplýsinga óskað um eitthvert mál, er það föst venja, að hann hlaupist á brott og flýi. En gleði mín breyttist skjótt, er jeg varð þess var, að hæstv. ráðherra ætlaði að nota nærveru sína til að meina með harðdrægni brtt. minni að koma undir atkvæði. Þing þetta verður frægt fyrir það, að afkastaminna að öðru en endemum mun ekkert þing hafa orðið. Hefir það verið háttur hæstv. stjórnar að beita frekar ofríki en rökum.

Þótt brtt. mín hafi ekki fengið samþykki hæstv. ráðherra til að koma hjer til atkvæða, mun jeg engu að síður tala um hana, því hún er í nánu sambandi við mál það, sem liggur fyrir.

Það, sem aðallega vakti fyrir mjer, þegar jeg bar fram brtt., var það, að hv. frsm. meiri hl. lýsti því margoft yfir við 2. umr. málsins, að breyting sú á yfirstjórn bankans, sem farið væri fram á, væri einungis til þess gerð að tryggja það sem best, að bankinn yrði ekki háður stjórnmálabreytingum. Þegar hæstv. fjmrh. kom inn á þetta atriði, gaf hann samskonar yfirlýsingu. Jeg varaði við að leggja trúnað á þessar yfirlýsingar og hjelt því fram, að þetta væri falskt yfirskin, aðaltilgangurinn væri svívirðileg tilraun (Forseti hringir.) — Jeg viðhafði þessi orð um daginn og var þá ekki hringt á mig, og sat þá sami hæstv. forseti, en nú er þetta einungis söguleg frásögn — væri svívirðileg tilraun til að sölsa undir sig yfirráð bankans. Það er skaðleg braut, sem hjer er lagt út á, að gera bankann að spegilmynd hins pólitíska valds í landinu á hverjum tíma. Hv. frsm. meiri hl. mótmælti þessu. Nú ætlaði jeg að gefa meiri hl. tækifæri til að sýna, hvort þau mótmæli væru á rökum bygð. En þá bregður svo við, að stjórnin notar bolmagn sitt til að synja um afbrigði, þessi stjórn, sem jafnvel hefir beitt afbrigðum til að fá sjálf fjárlögin afgreidd í Ed. Það er ekki samræmi í þessu, frekar en öðrum aðgerðum stjórnarinnar. Það er alt á eina bókina lært.

Ef það vakir fyrir þessum mönnum, sem þeir láta í veðri vaka, að tryggja það, að bankinn verði ekki leiksoppur í höndum hinna pólitísku flokka, þá er það bert, að ekki skiftir máli í langri sögu bankans, hvort stjórnarfyrirkomulagi hans er breytt einu, tveimur eða þremur árum fyr eða síðar.

Það er hart, þegar maður sætir harðvítugum hallmælum fyrir dóm, að fá þá ekki aðstöðu til þess að sanna mál sitt. Nú skýtur stjórnarliðið sjer sjálfsagt undir það, að slík brtt. hafi aldrei komið til atkvæða. Okkur skiftir það engu máli, segja þeir, hvort breytingin nær fram að ganga fyr eða síðar. Við viljum náttúrlega, að það komi sem fyrst, sem við álítum gott. En áhugann hjá stjórnarandstæðingum getið þið sjeð á því, að þeir báru ekki fram brtt. um þetta atriði! Þetta er sagan, sem stjórnarliðið segir af þessum skiftum.

Jeg lýsti því yfir við 2. umr., að jeg treysti mjer ekki til að bera fram brtt. við frv. þá, vegna þess hve afardauflega var tekið undir það hjá meiri hl. fjhn. og leiðandi mönnum stjórnarflokksins. En að jeg bar þessa brtt. fram nú, var af því, að jeg vildi freista til þess ítrasta að fá stjórnarliðið til að ganga inn á breytingu þessa. Því ætla mætti, að stjórnin vildi reyna að forðast þann grun, sem á henni hlýtur að liggja um að hjer sje hlutdrægni á ferðinni, að hún vildi reyna að forðast þær fullyrðingar okkar, sem byggjast á sannfæringu, að stjórnin ætli að nota vald sitt til að ná tökum á bankanum. En þessi tilraur mín var kæfð á alveg óvanalegan hátt, þegar hæstv. ráðh. beitti valdi sínu til að bægja henni frá að koma undir atkvæði.

Hin brtt. er að vísu ekki um svo mikilsvert atriði sem mín var. Þó er þetta athæfi hæstv. ráðh. þar þess eðlis, að það er einungis tilraun til að níðast á pólitískum andstæðing. Í frv. er farið þvert ofan í tillögur bankastjórnarinnar. Maður þessi fær í fyrra lagalega vernd í stöðunni, og svo á að svifta hann henni nú, að því er heita á á löglegan hátt. Og þegar reynt er að kippa þessu í lag, þá meinar hæstv. ráðh. afbrigða, því hann óttast, að hjer muni finnast það margir rjettlátir í þessari hv. deild, að þessi smánarblettur hefði verið numinn burt, ef till. hefði komið undir atkv.

Þeir, sem óbilgirni beita svo freklega, þurfa ekki að halda, að þeir hangi lengi við völd. Til þess þarf önnur ráð en að reiða hnefann til hægri og til vinstri. Ef nú á að fara að reiða svipu á þjóðina, þá mun svo fara, að þeir, sem kosið hafa sjer plóginn frekar en sverðið, muni grípa til sverðsins. (HjV: Er það bylting?). Ekki bolsevikabylting; hæstv. stjórnarforseti brosti yfir salinn til vina sinna jafnaðarmannanna. (Forsrh. TrÞ: Jeg brosti til hv. 2. þm. G.-K.). Nei, nei, til jafnaðarmannanna. En ef um byltingu verður að ræða hjer á landi, þá mun hún hvorki koma frá mjer nje heldur frá hæstv. forsrh., sem erum venjulega spakir menn, heldur frá hæstv. dómsmrh. og kunningjum hans, jafnaðarmönnum. Mjer er slík bylting ekki í hug, en jeg hjelt, að hv. 2. þm. Reykv. væri ekki heimskari maður en svo, að hann gæti skilið þá líking, sem jeg fór með. — Hitt skal jeg játa, að hæstv. forsrh. er að færast nær öfgunum, eftir að hann komst í samband við jafnaðarmennina. Áður var hann svo sanngjarn maður, að hann var ekki líklegur til að beita valdi sínu svo sem hann nú hefir gert.

Svo mikið hefir verið rætt hjer á þessu þingi um bankamálið, að segja mætti, að ekki væri þörf á að orðlengja um það frekar. Þó er sjaldan góð vísa of oft kveðin. Það mun heldur ekki vanþörf á því að fara fáeinum orðum um málið á ný; það sje jeg á því, að hæstv. ráðherra telur brtt. mína svo óþarfa, að hann ætlar að meina henni að koma til atkvæða. Jeg sje á því, að hann hefir lítið lært og að það er þörf á að tala meir um málið, áður en til úrslitaatkvæðis kemur. Jeg mun því á ný segja fá orð um einstök atriði málsins, þó vera megi, að sumt af því, sem jeg drep á, hafi áður komið fram í umræðum.

Það er kannske tæplega rjett að gera sjer vonir um, úr því sem komið er, að hægt sje að snúa svo hug þeirra manna, sem frv. fylgja, að þeir falli frá því og felli það. Það er þó búið að sýna fram á það, að hjer er ekki aðeins um alóþarft frv. að ræða, heldur beinlínis skaðlegt. Jeg held, að það sje alment viðurkend staðreynd, að varla nokkurt mál hafi komið jafnvel undirbúið fyrir þing sem bankamálið. Hitt viðurkenna og allir, að bankanum sje það skaðlegt, að oft sje breytt löggjöf um hann, sjerstaklega ef breytingarnar eru veigamiklar og snerta hagsmuni þeirra, er við bankann skifta. Þegar því á að fara að breyta þessari löggjöf nú, þá verður að gera þá kröfu til þeirra breytinga, að þær sjeu mjög nauðsynlegar, og þá vitaskuld til bóta. Mín skoðun er sú, að því fari fjarri, að þessar breytingar sjeu nauðsynlegar eða til bóta. Menn hafa deilt mikið um það, hverjar afleiðingar verði af ábyrgð þeirri, sem ríkissjóður tekur á skuldbindingum bankans. Jeg verð að segja það, að eftir þær umræður, sem jeg hefi hlustað á, hefi jeg ekki heyrt stuðningsmenn frv. færa fram nokkur frambærileg rök fyrir þessari breytingu. Þeir hafa ekki sannað, að hún sje nauðsynleg. Þeir hafa ekki fært líkur fyrir því, að hún sje heppileg. Þeir hafa ekki getað afsannað það, sem við höfum haldið fram, að ábyrgð ríkisins á innstæðum í bankanum gæti orðið öðrum lánsstofnunum skaðleg. Þeir hafa reynt að halda því fram, að sparisjóðirnir hefðu það hlutverk að vinna, hver í sinni sveit, að þeir, sem ávaxta í þeim fje sitt, litu meir á þá hlið en öryggi fjár síns. Þó hafa þeir ekki treyst sjer til að neita því, ef reynslan sýndi, að fjárvarsla sparisjóða væri ekki örugg, að þá gæti svo farið, að sparifjáreigendur taki það þaðan og leggi það í Landsbankann. Ef það, sem kom fyrir á Eyrarbakka, kæmi fyrir á nokkrum stöðum, þá er það ekki á færi Landsbankans að bægja frá sjer því fje, sem að bærist. Ef ótti grípur sparifjáreigendur, þá eru þeir ekki að spyrja að því, hvar þeir fái 5% vexti og hvar þeir fái 3%. En þeir spyrja um hinn öruggasta geymslustað fyrir fje sitt. Ef Landsbankinn hefði ekki aðra ábyrgð en þá, sem ákveðin er með lögunum frá 1927, þá verður niðurstaðan af bollaleggingum sparifjáreigenda sú: Að vísu er fjeð ekki örugt í sparisjóðnum, en það er það ekki heldur í Landsbankanum; því er best að láta það vera kyrt. En afleiðingin af þessari breytingu verður sú, að til Landsbankans beinist smátt og smátt alt sparifje þjóðarinnar. Því er þessi breyting ekki einungis ónauðsynleg, heldur beinlínis skaðleg.

Þó eru aðrar breytingar ennþá skaðlegri, og þá fyrst og fremst breyting sú; sem jeg ætlaði að reyna að laga, en tókst ekki fyrir ofríki hæstv. ráðh. stjórnarliðið ætlar sjer nú að draga bankann inn í hinar pólitísku deilur. Óvandari er eftirleikurinn. Það er eðlilegt, að sá minni hluti, sem nú er beittur ofríki, finni tilhneigingu til að kippa lögunum í það horf, sem þau voru í áður, þegar hann kemst aftur í meiri hluta. Sá flokkur verður að sýna meiri stjórnmálalegan þroska heldur en núverandi meiri hluti, ef hann á ekki að gera það. En jeg treysti því þó, að sá flokkur virði að vettugi þetta fordæmi, í þeirri von, að ef þessir menn illu heilli skyldu komast til valda aftur, þá skildu þeir betur, hvað rjett væri og reyndu ekki til að beita ofríki aftur.

Líka er það mjög veigamikil og skaðleg breyting á bankalögunum, ákvæðin um stofnfjeð. Það er veigamikil breyting, að samkvæmt lögunum var stjórninni skylt að láta bankanum í tje stofnfje, en samkvæmt frv. er henni það einungis heimilt. Þá heimild hygg jeg, að stjórnin ætli sjer ekki að nota. Stjórninni eru allar leiðir opnar í því efni; hún getur sagst vilja hið besta, en aðstæður hafi ekki leyft að nota heimildina. Jeg spái því, og jeg bið menn að leggja það á minnið, að svo muni fara leikar, að stjórnin leggi bankanum þetta fje ekki.

Það mun vera rjett tilgáta, að þetta frv. sje fram borið til þess, að stjórnin geti dregið fje frá Landsbankanum og til væntanlegs landbúnaðarbanka, sem hæstv. forsrh. hefir boðað. En hvað sem líður ágæti þess banka, þá fullyrði jeg hitt, að ef skerða á Landsbankann til að sá banki geti sjeð dagsins ljós, þá er ver farið en heima setið. Jeg vil leiða athygli manna að því, að allir, sem skyn báru á þetta mál, t. d. hv. þm. V.-Ísf., sem var í milliþinganefndinni í bankamálinu, álitu það nauðsynlegt, að bankinn fengi þetta fje, ef hann ætti að vera fær um að inna af höndum það hlutverk, sem lögin fengu honum. Þó bankinn hafi því verið viturlega úr garði gerður með lögunum frá 1927, þá liggur það í hlutarins eðli, að ef fjeð er tekið af honum, þá verður hann ekki fær um að inna það starf af hendi, sem honum er ætlað að vinna. — Bankalöggjöfin frá 1927 er orðin helber vitleysa, ef þessar breytingar ná fram að ganga, einkum ef það er rjett, sem jeg get til, að hæstv. ríkisstjórn ætli ekki að nota heimildina um „viðbótarstofnfjeð“, er hún nefnir svo. — — –(HjV: Er verið að tala eða þegja í deildinni?). Mjer þætti hv. 2. þm. Reykv. gera vel í því að tala minna, meðan aðrir eru að halda ræður; nógu mikil raun er að hlusta á hann meðan hann hefir sjálfur orðið. — Annars get jeg Sagt honum það, ef hann fylgist ekki betur með, að hjer var einn af þingmönnum að tala, en hefir nú lokið máli sínu og mun setjast niður.

3876