12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4649 í B-deild Alþingistíðinda. (3883)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Ólafur Thors):

Mjer þykir undarlegt að heyra niðurskurðartillöguna borna fram með þeim rökum, að hjer hafi orðið óhæfilegar málalengingar. Það er vitanlegt, að í málinu eru þrír frsm., og aðeins einn þeirra hafði talað í hálfa klukkustund, þegar hæstv. forsrh. rís upp og ber hv. deild á brýn óþarfar málalengingar. E. t. v. er hæstv. ráðh. sá spámaður, að hann sjái fyrir, að langar umræður muni takast, og vilji setja undir lekann þegar í stað. En hitt eru hein ósannindi, að nokkuð í áttina við málalengingar hafi farið fram í hv. deild í dag.

Hæstv. ráðh. segir, að málið liggi ljóst fyrir frá fyrri þingum. Jæja! — Ekki samt ljósara en svo, að hann sjálfur og flestir flokksmenn hans hafa kúvent í því síðan í fyrra. Það bendir á, að ekki veiti af að ræða það ögn betur. — En það var undarlegt, að í slíku stórmáli kom það í fyrsta sinn fyrir hæstv. forsrh. að synja um afbrigði frá þingsköpum fyrir brtt., og ætlar síðan að fá umræður skornar niður, þegar þær eru að hefjast. Þetta getur varla þýtt annað en að hæstv. stjórn þori ekki að ræða málið.

Hæstv. forsrh. spurði mig í morgun, hvernig mjer liði. „Illa“, sagði jeg. Hæstv. ráðh. svaraði þá í gamni: „Þeim líður altaf illa, sem hafa vonda samvisku.“ Mjer sýnist hæstv. ráðh. líða illa núna meðan bankamálið er rætt, og jeg efast ekki um, að það sje af vondri samvisku. Og mig furðar ekki, þótt samviskan sje slæm, úr því hún sefur ekki.