12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4653 í B-deild Alþingistíðinda. (3890)

103. mál, Landsbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg beindi orðum mínum um málalengingu ekki fyrst og fremst til hv. 1. þm. Skagf., heldur til hv. 2. þm. G.-K. Jeg skýt því til þingheims, hvort það hafi nokkurntíma. komið fyrir áður í hv. deild, að frsm. hafi lesið upp sem sína eigin ræðu skrifað plagg eftir annan þingmann, 5–10 orð á mínútu, og ekki skammast sín meira en svo, að hann gerði þetta brosandi. (MG: En hefir það ekki komið fyrir í Ed.?). En þetta gerði hv. 2. þm. G.-K. við 2. umræðu þessa máls. — Meðan Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu, var að jafnaði einn þm., sem gerði grein fyrir afstöðu okkar. Nú rísa upp 5 og 6 menn og tala 4 til 8 klukkutíma hver þeirra. Jeg skal óhræddur koma fram fyrir dómstól þjóðarinnar og bera saman málþóf núverandi stjórnarandstæðinga og okkar í fyrra. — Þetta mál er svo þrautrætt sem orðið getur. Meiri umræður um það eru því til þess eins að tefja tímann.