12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4656 í B-deild Alþingistíðinda. (3893)

103. mál, Landsbanki Íslands

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg vil aðeins geta þess, að jeg álít, að hæstv. forseti gangi á móti þingsköpum með að leyfa þær umræður, er hjer fara fram. Í 37. gr. þingskapa segir, að „ef umræður dragast úr hófi fram, getur forseti stungið upp á, að þeim sje hætt, og sker deildin úr því umræðulaust. Sömuleiðis geta 3 þingmenn í efri deild, 6 í neðri deild og 9 í sameinuðu þingi krafist þess, að greidd sjeu atkvæði um, hvort umræðum skuli lokið —.“ Er augljóst, að sú atkvæðagreiðsla á einnig að fara fram umræðulaust þegar í stað. En í stað þess að hlýðnast þingsköpum og láta ganga til atkvæða þegar í stað hefir hæstv. forseti látið halda uppi umræðum víst í hálftíma. Jeg vil enn á ný benda hv. deild á, hvað það þýðir fyrir framtíðina, ef haldið er uppteknum hætti; það er með öðrum orðum aldrei hægt að koma í veg fyrir málalengingar með till. um að slíta umræðum, því jafnskjótt og till. eru fram komnar, geta allir tekið til máls og talað eins lengi og þá lystir um það, hvort umræðum skuli slíta eða ekki.