12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4657 í B-deild Alþingistíðinda. (3895)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg vil leyfa mjer að leiða athygli hæstv. forsrh. að því, og skjóta því um leið til hv. deildarmanna, að mínar ræður í þinginu hafa verið á engan hátt óþarfar; enda hefi jeg í engum málum talað öðrum en þeim, sem jeg var flutningsmaður að eða framsögumaður, eða átti að vísa til nefndar, sem jeg var í, og þá búist við að verða framsögumaður að. Jeg játa, að mínar ræður eru margar, en jeg er annar af þeim tveimur stjórnarandstæðingum í hv. Nd., sem sitja í tveimur nefndum. Þær nefndir, sjútvn. og fjhn., hafa mörg mál til meðferðar, svo að mjer er full þörf á að taka ekki sjaldan til máls. Það mun því ekki með rjetti sagt, að jeg viðhafi málalengingar meira en aðrir. Við íhaldsmenn tölum það, sem nauðsynlegt er, og munum gera það, hvort sem betur líkar eða ver. En þegar hæstv. forsrh. var að segja, að jeg, hefði við 2. umr. lesið upp og lesið brosandi, þá datt mjer í hug, að hann sjálfur, hæstv. forsrh., væri venjulega annaðhvort brosandi eða þá broslegur. Þegar hann fer að ygla sig, þá fer það þeim ágæta manni svo illa, að hann verður svo ákaflega broslegur.

Jeg held, að hæstv. ráðh. geti sagt þeim, sem ókunnugir eru hjer á þingi, að jeg sje með málalengingar, en hinum ekki.