12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4658 í B-deild Alþingistíðinda. (3900)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Mjer er dálítið erfitt að greiða atkv. um þetta, ekki vegna þess, að jeg telji ekki alveg samkv. þingsköpum að greiða atkv. um það að slíta umræðum, heldur af því, að jeg er framsögumaður nefndarinnar. En mjer sýnist bert orðið, að það hafi verið haldið uppi óþarfa málrófi um þetta mál í þeim tilgangi að tefja það, — og vísa jeg til þess, að við 2. umr. voru tveir framsögumenn að sama nál., og auk þeirra töluðu 3–4 menn aðrir og höfðu upp hver eftir öðrum það, sem hinn hafði sagt; og hv. 2. þm. G.-K. byrjaði enn á ný að hafa upp það, sem hann og aðrir eru margbúnir að segja áður. Af þessum ástæðum segi jeg já