12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4660 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

103. mál, Landsbanki Íslands

Hákon Kristófersson:

* Jeg býst við, að jeg byrji ekki á óþarfa málrófi, þó að jeg tali hjer fáein orð. — Og þið þurfið ekki að flýta ykkur út, jeg bíð á meðan. (Forseti (hringir): Jeg sje ekki fram á annað en slíta verði fundi, þar sem jafnvel gerast átök og ryskingar í dyrum deildarsalsins. — Jeg vil skora á menn að gefa gott hljóð !). Jeg var kominn að því, að jeg vildi benda til þess, að það hefir orðið ofan á, að hæstv. forsrh. hefir ekki tekist að koma fram seinna ofríki sínu; og jeg vona, að það gefi manni ástæðu til að ætla, að hann verði eitthvað stöðvaður frekar á sinni ofríkisbraut en verið hefir. — Annars ætla jeg að fara örfáum orðum um þá svívirðilegu framkomu hæstv. forsrh. gagnvart till. minni. (Forseti (hringir): Jeg vil biðja hv. þm. að haga orðum sínum þinglega). Jeg skal gera það, eftir því sem mjer er mögulegt; en atvikin í lífi manna gera það stundum að verkum, að óhjákvæmilegt er að nota stóryrði, þegar strákskapur er sýndur. Jeg er búinn að vera margt árið á þingi, og aldrei hefir það komið fyrir, að nokkur stjórn hafi leyft sjer að synja atkvgr. um, að brtt. mætti komast að. Það hefir komið fyrir, að deild hefir felt að veita afbrigði, en aldrei að stjórn neitaði leyfis. Og jeg skal viðurkenna, að mjer kom alveg á óvart, að hæstv. forsrh. Skyldi hafa slíkt í frammi. Hefði farið vel á því, úr því að hann annars sýndi þetta, að hann hefði komið með ástæður fyrir synjun sinni, aðrar en þær, að sjer virtist tillaga mín þannig, að henni bæri að vísa frá. Var ekki nógur tími að bíða eftir úrskurði hæstv. forseta og hv. deildar? Jeg verð að álíta, að þessi framkoma gefi tilefni til að beina því til hæstv. forsrh., að hann á síst að bregða mönnum um ódrengskap, hvorki fyrir málalengingar eða eitthvað annað. Og jeg skal þá geta þess, að hvað þetta mál snertir er engin ástæða til að segja slíkt um mig; jeg hefi ekki lengt umræðurnar með einu einasta orði. En það er nú oft og einatt svo, að þegar mál eru á einhvern hátt skítug — ef það er ekki óþinglegt orð —, þá er stuðningsmönnum þeirra mála ákaflega áhugnæmt, að það sje á þau minst; það er dálítið þvingandi, eins og þegar menn vinna óheppileg verk, þá vilja þeir hylja þau í skugganum. Er það ekki undrunarefni, þegar annað eins mál er á dagskrá eins og tilhögun þeirrar stofnunar, sem allri þjóðinni ætti að þykja einna vænst um, þá skuli hæstv. stjórn fárast um það, að þingmönnum virðist ástæða að fara um það nokkuð mörgum orðum? Og þegar rjettlætinu er ekki treyst, þá nota þeir menn ofríki, sem illu heilli hafa valdið í sinni hendi, — vald, sem þeir vitanlega eru ekki menn til að fara með. Því að fyrst og fremst útheimtist fullkomið rjettlæti til þess að menn sjeu hæfir til þess að fara með æðstu trúnaðarstöður þjóðfjelagsins, án tillits til þess, hvort það eru andstæðingar eða andstæðingar ekki, sem við er að eiga. Jeg er þannig sinnaður, að jeg virði fullkomlega þann mann, sem sýnir mjer opinbera harða andstöðu, en þegar hann notar einhverja aðstöðu til þess að reka rýting í bakið á mjer — — (Forseti hringir.) Jeg var ekki að nefna neinn sjerstakan mann, hæstv. forseti; en þeir taki sneið, sem eiga. Hlátur) . — Það vill nú svo vel til, að það er ekki ófyrirsynju að ætla, að líkar tilfinningar hreyfi sjer hjá hæstv. forsrh. eins og strák nokkrum, sem var hjá mjer fyrir tveimur árum og gerði dálítið skammarstrik og segir við mig á eftir: Sjerðu ekki, að jeg skammast mín? (HStef.: Er þetta um málið?). Nei, en það er hæstv. forseti, sem hefir stjórn í deildinni, en ekki hv. 1. þm. N.-M., nema að því leyti sem hann getur lagt lóð í skálarnar með sínum illvígu flokkstillögum.

Jeg verð enn að víkja að því, að mjer kom svo á óvart þessi aðferð hæstv. ráðh., að jeg bara sat undrandi. Brtt. mín er þess eðlis, að hún stofnar málinu ekki á nokkurn hátt í voða; hún er bara til þess að leiðrjetta dálítið misrjetti, sem jeg hjelt, að væri ekki sett inn í frv. af ásettu ráði, en hlýt nú að sjá, að svo muni þó vera. Ekki var hún til að auka útgjöld ríkissjóðs.

Jeg býst ekki við, að það liggi langt fyrir utan málið, þó að jeg minnist á það, að hæstv. forsrh. er búinn að stæra sig af framkomu sinni gagnvart ýmsum þeim málum, sem fyrir lágu á undanförnum árum, meðan Íhaldsflokkurinn hafði meiri hluta. Um það má segja, að „ef jeg lofa mig ekki sjálfur, þá gerir það enginn“. (Dómsmrh. JJ: Íhaldsflokkurinn hafði aldrei meiri hluta). Það má kannske til sanns vegar færa; en eitt er víst, að sá flokkur var ekki kúgaður til jafnmargra verka þvert ofan í sannfæringu sína eins og nú tíðkast hjá hæstv. ráðh. (Forseti: Jeg vil biðja þingmanninn að haga orðum sínum hóflegar). Jeg vil gjarnan fara eftir tillögu hæstv. forseta, því að jeg ber fult traust til hans fundarstjórnar, en jeg held það muni orka tvímælis, hvort jeg hafi hagað orðum mínum nokkuð óþinglega.

Það kom fram till. frá hv. 1. þm. Skagf. um að taka málið af dagskrá. Undirtektir hæstv. ráðh. voru álíka vinsamlegar og gagnvart þeirri brtt., er jeg flutti, til þess að framkoma hans væri sjálfri sjer samkvæm.

Um brtt. hv. 2. þm. G.-K. þarf jeg ekki að tala, því að hann hefir minst á hana sjálfur. Það var eitt, sem jeg gat ekki fallist á hjá hv. þm.; hann átti aldrei að búast við, að maður gæti treyst því, að eftir núverandi fyrirkomulagi væru meðlimir blóðfjelagsins fullkomlega verndaðir. Nei, reynslan mun sýna, að það mun verða á þá leitað hvenær sem valdhöfum hentugt þykir, ef þeir hafa að þeirra áliti gert eitthvað fyrir sjer. Jeg held, að um þetta megi segja, að skamma stund verður hönd höggi fegin.

Jeg er ekki í vafa um það, að hvaða yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. kann að gefa, þá iðrast hann eftir þessa framkomu sína. Þess vil jeg geta um till, mína í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. sagði, að að sínu áliti hefði hvort sem er átt að vísa henni frá, að jeg get vitnað í úrskurð í þingtíðindum eftir merkan forseta, Ólaf Briem, sem styður það eindregið, að mín till. hefði mátt komast að. En það er rjett að geta þess, að þegar till. um ekki ósvipað efni var til umræðu í Nd., þá vil jeg fullyrða, að margir hv. þm. höfðu ekki athugað hana, af því að hún stóð ekki á þingskjali því, sem brtt. um þetta mál aðallega voru á. Það hefði þess vegna ekki verið ófyrirsynju, þótt hv. deild hefði fengið tækifæri til þess að leiðrjetta þann órjett, sem hæstv. stjórn og flokkur hennar kom þá í framkvæmd.

Það hefir annars gerst margt á þessum degi. Svo hefir ofríkið gengið úr hófi, að hæstv. forseti hefir verið víttur fyrir að lofa mönnum að gera athugasemdir viðvíkjandi þingsköpum.

Þótt till. mín geti ekki verið til umr., er efni hennar eigi að síðar til umræðu. Þegar maður lítur á frv., dylst ekki, að hjer er einmitt verið að vega að einum sjerstökum manni, staða þeirra manna, sem hafa trúnaðarstörf við bankann, er trygð með þessu frv., nema eins þeirra. Er nú ekki ástæða til, að maður renni grun í, af hverju slíkt megi verða. Aðalástæðan hlýtur að vera sú, að maðurinn væri eitthvað útásetningarverður frá stjórnmálalegu sjónarmiði, að dómi flytjenda málsins. Enda þarf jeg ekki að dylja það, að mjer er það nýverið kunnugt um hæstv. forsrh., að hann álítur heimilt að nota hvaða meðul sem er til þess að þrýsta niður mótstöðumönnum sínum, þó að ilt sje til þess að vita.

Það hefir nú verið farið svo mikið inn á frv. að ýmsu leyti og færð rök fyrir þeim mörgu göllum, sem á því eru, að það er að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar við. Og það var ekki meining mín að hefja neinar umræður til þess að tefja fyrir málinu; en hitt fanst mjer sjálfsagt, að segja nokkur orð, sem eru eiginlega þess eðlis, að bera af mjer sakir — eða rjettara sagt: bera sakir á hæstv. forsrh. (Hlátur í deildinni). Hann hefir sýnt mjer þann ódrengskap, sem jeg hefði aldrei trúað. (Forseti hringir). Jeg stend í þeirri meiningu, að jeg noti fullkomlega þinglegt orð; það er mikið bil á milli þess að kalla mann ódreng eða segja, að hann sýni ódrengskap; það getur marga hent í einu og einu tilfelli.

Jeg verð að taka undir það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það hefði verið ólíkt heppilegra, að hæstv. ráðh. hefði nú sjeð að sjer — eins og títt er um góða menn, sem verður eitthvað á —, og leyft að taka málið út af dagskrá; þá hefði ekki verið eins augljós hlutdrægnin eins og hún er nú, því að þá hefðu menn sjeð, að úrskurður hans hefði verið sprottinn af augnabliks athugaleysi. En því miður hefir það nú ekki verið.

Hæstv. forsrh. hefir bent á það áður, að ef þetta frv. yrði samþ., mundi það verða til mikillar blessunar fyrir land og lýð. Gott ef svo verður.

En ef tilgangur grundvallaratriða frv. verður til þess að draga sparisjóðsfje utan af landi hingað til Reykjavíkur, þá verð jeg að telja gagnið af þessari breytingu vafasamt. Jeg þykist ekki þurfa að fara í neinar grafgötur um það, að þessi aðalbreyting bankalaganna verður til þess að eyðileggja alla sparisjóðsstarfsemi úti um land, enda skín það í gegnum hjá hæstv. forsrh., að undirniðri er hann sömu skoðunar. Jeg fer ekki hjer með neina staðlausa stafi, og því þýðingarlaust fyrir hæstv. forsrh. að brosa að þessu. (Forsrh. TrÞ: Jeg býst við að fleiri brosi áður en lýkur). Það er engin sönnun fyrir því, að allir sjeu ánægðir, þó að þeir brosi. (Dómsmrh. JJ: Vjer brosum!). Það getur verið, að það sje eitthvað farið að fyrnast yfir sumar syndir — já, þið vitið, hvað jeg hugsa —, en hæstv. dómsmrh. brosti ekki í gærkvöldi, það er nokkuð sem víst er, þegar verið var að rifja upp afskifti hans á varðskipalögunum, þó hann þykist kannske vegna þess kisuþvottar, er flokksmenn hans veittu honum þá, geta sagt í dag: Vjer brosum.

Jeg held jeg láti þá útrætt um þetta atriði. En af því að svo heppilega vildi til, að hæstv. forsrh. tókst ekki að skera niður umr. þessar, þá hefði jeg þó getað vænst, að hann væri það vitiborinn maður, að hann færi ekki á eftir að berja í brestina fyrir þessari fáheyrðu framkomu, er hann sýndi úr ráðherrastóli. Og vegna þess að mjer er vel við manninn, vil jeg enda mál mitt með þeirri ósk til hæstv. forsrh., að hann verði framvegis fastari í rás, þegar hann er að starfa fyrir heill þjóðfjelagsins, og forðist til hins ítrasta að láta óhlutvanda menn velta sjer eins og snjókúlu.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.