12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4671 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annara minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg ætla ekki að tala svo lengi, að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) geti ekki haldið langa ræðu áður kemur að venjulegri fundarfrestun. Jeg stend aðeins upp til þess að þakka hv. þm. V.-Ísf. fyrir yfirlýsingu hans um brtt. þá, er jeg bar hjer fram, en synjað var um afbrigði, að komast mætti að. Mjer er mikill fengur, að hann hefir staðið hjer upp í hv. deild og lýst yfir því, að hann væri þessari brtt. minni samþykkur, enda hefi jeg talið þennan hv. þm. langfærastan í sínum flokki að tala um bankamál. En þegar þessa er gætt, verður enn berari órjettur sá og það ofríki, sem hæstv. forsrh. hefir beitt í máli þessu. Því að jeg tel mjög líklegt, að hefði brtt. mín komist að, þá hefði hv. þm. V.-Ísf. ekki aðeins gefið þá yfirlýsingu, sem hann gaf, heldur hefði hann og fært rök fyrir henni. Og þó að jeg telji ekki hans rök betri en mín, geri jeg mjer þó von um, að hann hefði kannske haft meiri áhrif á flokksbræður sína en jeg.

Jeg vil skjóta því til hv. frsm. meiri hl., hvort hann álítur, að það sje ekki heppilegast fyrir öryggi Landsbankans, að skipun bankaráðsins sjeskoðuð sem samningur. Og þar sem flokksbróðir hans og jafnmerkur maður og hv. þm. V.-Ísf. tekur algerlega undir minn málstað, þá veit jeg með fullri vissu, að hv. 1. þm. N.-M. er svo athugull maður, að hann vill ekki fremja neitt það, sem bankanum er til spillis.

Að öðru leyti vil jeg segja það, að mjer þótti óverðskuldað það, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði um fjarveru hv. þm. Barð., er atkvgr. fór hjer fram um málið við 2. umr. Það má að vísu víta þm. fyrir það að vera fjarverandi, en hv. þm. (AA) veit vel, að bæði hann sjálfur og aðrir hv. þdm. eru oft fjarverandi, og mun hv. þm. Barð. síst gera meira að því en aðrir.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. Barð. ætlar að taka aftur til máls. En jeg get upplýst um það, að hann lagði svo fyrir áður en hann gekk af fundi, að hann yrði kvaddur hingað áður en til atkvæða væri gengið, en það mistókst, af ástæðum, sem jeg hirði ekki frekar að nefna. En hitt kom okkur báðum á óvart, að hæstv. stj. mundi neita um afbrigði. Slíkt hefir aldrei komið fyrir áður. Jeg hefi látið í ljós mína óánægju yfir því, hvernig fór um mína brtt. Mjer finst heldur ekki, að brtt. hv. þm. Barð. sje eins lítils virði og hv. þm. V.-Ísf. vill vera láta. Jeg skal fullyrða, að ef háttv. þm. V.-Ísf. hefði verið synjað um afbrigði fyrir tillögu, er hann hefði borið fram, þá hefði háttv. þm. risið upp með miklum þjósti til andmæla, því að „sá er eldurinn heitastur, sem á sjálfum brennur“, og hygg jeg, að hv. þm. hefði ekki setið hjá, ef svo hefði farið um hans till.

Jeg skal ekki hafa þessi orð miklu lengri að sinni, þótt jeg hefði haft fulla löngun til þess að víkja dálítið að hæstv. forsrh. fyrir það ofríki, sem hann hefir beitt í þessu máli. En úr því að deildin sýndi þá sanngirni að leggja á móti till. hans um að skera niður umræður, sennilega af því að hv. þdm. og flokksbræðrum ráðh. hefir ofboðið það ofríki, sem hann var búinn að sýna, þá vil jeg sýna það á móti, að jeg virði það mikils framkomu þeirra, að jeg vilji stuðla að því, að umræður um málið verði ekki svo miklar úr þessu, að við það dragist úr hófi afgreiðsla málsins.

Jeg vil aðeins að síðustu minna á það, að nú er fallinn sá dómur frá þeim manni, hv. þm. V.-Ísf., sem af flokksbræðrum hæstv. ráðh. er talinn einna dómbærastur um þessi mál, að með framgangi þessarar brtt. sje best trygður hagur og öryggi Landsbankans. Vil jeg beina þeirri ósk til hæstv. ráðh., að hann taki tillit til raka, er þau koma fram frá þeim flokksbróður hans, er dómbærastur er talinn, þótt hann vilji ekki hlusta á þau, er jeg og aðrir andstæðingar hans bera þau fram.