12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4674 í B-deild Alþingistíðinda. (3911)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Hæstv. forsrh. ber hjer saman synjun ráðh. samkvæmt þingsköpum og synjun deildar. En sá er munur á þessu tvennu, að synjun deildar kemur mjög oft fyrir, en jeg þekki ekki dæmi til þess, að ráðh. synji um afbrigði, fyr en nú (IngB: Kom það ekki fyrir í fyrra?), enda sviftir ráðh. með því þingmenn rjetti, sem þeir eiga samkv. þingsköpum til þess að greiða atkvæði um brtt., sem fram eru bornar.

Annars hafði jeg hugsað mjer að halda nokkuð lengri ræðu við þessa umr. málsins, en þar sem nokkrir flokksbræður hæstv. forsrh. hafa nú sýnt sanngirni, eftir að ráðh. hefir sýnt óbilgirni, þá held jeg rjett að verðlauna sanngirni þeirra með því að segja hjer aðeins nokkur orð að þessu sinni.

Mjer duttu í hug, er hæstv. ráðh. hafði lýst yfir synjun sinni, ummæli, sem einum merkum bónda og vini hæstv. ráðh. urðu af munni, er hann heyrði, hvernig hæstv. ráðh. hafði verið kúgaður af meðráðh. sínum á síðastliðnu hausti. Þessum manni varð þetta eitt að orði: „Aumingja Tryggvi!“ En það, sem þá kom fyrir, hefir endurtekið sig oft síðan. Það var síðast í gær, að hæstv. dómsmrh. skýrði frá því, að hæstv. fors.- og atvmrh. hefði brotið lög að minsta kosti 3–4 sinnum síðan hann kom til valda. (Dómsmrh. JJ : En fyrirrennarar hans ca. 30–40 sinnum). En við þessa yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. vex hæstv. forsrh. svo ásmegin, að hann grípur fyrsta tækifæri; sem gefst, til þess að beita ofbeldi og óbilgirni, og jeg held vissulega, að því hafi verið hvíslað að honum af honum verri manni — eða ráðherra. Og þetta ofbeldi virðist af þeim rótum runnið, að hæstv. stj. og meiri hl. stjórnarflokksins hafi þótst sjá það fyrir, að brtt. hv. 2. þm. G.-K. mundi ná fram að ganga, ef hún kæmi til atkvæða.

Jeg held að þessi góðkunningi hæstv. forsrh. ætti að fara að hætta að aumka hann úr þessu. Jeg held, að þær bænir, sem fyrir honum kunna að vera beðnar, og þær óskir, sem menn kunna að hafa átt honum til handa, muni hjer eftir ekki á honum hrína.