14.04.1928
Efri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4684 í B-deild Alþingistíðinda. (3920)

103. mál, Landsbanki Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil gjarnan segja fáein orð að lyktum um þetta frv., áður en það verður afgreitt frá deildinni.

Tvær brtt. eru nú fram komnar, önnur frá hv. þm. Seyðf. og hin frá hv. 3. landsk., og er hvorug þeirra til bóta. Hv. þm. Seyðf. fer fram á að taka skýrt fram, að fjehirðar skuli vera tveir við bankann.

Hjer er á ferðum gamall ágreiningur milli íhaldsmanna annarsvegar og mín og minna samherja hinsvegar. Íhaldsmennirnir virðast álíta, að embættin sjeu til vegna mannanna, sem gegna þeim, en við lítum svo á, að þau sjeu vegna þjóðfjelagsins, og ekki annars. sje nægilegt fyrir bankann að hafa einn fjehirði, sje jeg ekki ástæðu til, að þeir sjeu tveir, jafnvel þó að einhvern einstakan mann langi til að bera titilinn. Jeg lít svo á, að þessi till. sje aðeins einn liður í viðleitninni til að miða útgjöldin við þarfir einstakra manna, en ekki almennings.

Jeg vil að svo komnu ekkert fullyrða um, hve mikil gjaldkerastörf kunni að verða í Landsbankanum í framtíðinni. En jeg fæ ekki annað sjeð en að alveg nóg sje að hafa einn aðalgjaldkera. Fari svo, að nauðsyn beri til að hafa útborganir á fleiri stöðum en einum, getur bankastjórnin bætt við aðstoðarmanni. En hitt nær engri átt, að lögbjóða starfsmenn, sem ekki er víst að þörf sje á.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að á þessari till. sje sami gallinn og sumir hv. þm. í Nd. þóttust finna á fjárlögunum: Of mikið tillit tekið til einstakra manna. Um þennan ljóð á afgreiðslu fjárlaganna er ekki hægt að ásaka einstaka menn eða flokka. En vonandi verður hægt að koma í veg fyrir það næst, að þau litist svo mjög sem hingað til af framlögum til einstakra manna.

Andstæðinga mína, sem endilega vilja tryggja manni stöðu við Landsbankann, vil jeg minna m. a. á eitt atriði: Vel gæti komið til mála, að sparnaður yrði að því síðar að fela Landsbankanum gjaldkerastörf fyrir ríkissjóð. Jeg nefni þetta aðeins sem möguleika. En miklu mundi hægra að ná samkomulagi um þetta við bankann, ef þar væri ekki ákveðin nema ein gjaldkerastaða.

Þá kem jeg að till. hv. 3. landsk. um það, að breytingin um kosningu bankaráðsmannanna komi ekki til framkvæmda fyr en útrunninn er starfstími núv. bankaráðsmanna samkvæmt lögunum í fyrra. Í tilefni af þessari till. skal jeg sem bankaráðsmaður leyfa mjer að geta nokkurs, sem gerðist á bankaráðsfundi í gær. Þar kom fram tillaga um að draga um, hverjir ættu að ganga úr bankaráðinu samkv. núgildandi lögum. Jeg mótmælti þessum útdrætti af fjórum ástæðum: Í fyrsta lagi af því, að einn bankaráðsmaðurinn, Jón Árnason framkvæmdarstjóri, væri erlendis. Í öðru lagi af því, að eðlilegra væri, að útdrátturinn biði til hausts. Í þriðja lagi benti jeg á, að fyrir þinginu lægi frv., sem gæti haft í för með sjer kosningu nýs bankaráðs, en þá væri útdrátturinn markleysa, og í fjórða lagi taldi jeg þetta óhæfilegt af því, að bersýnilegt væri, að till. gæti ekki stafað af neinu öðru en því, að einhverjir bankaráðsmenn ætluðu sjer að höfða skaðabótamál gegn ríkinu, ef þeir mistu spón úr aski sínum við bankann. Svo fór, að útdrátturinn var samþ. með þrem atkv. mót atkv. mínu. Því næst fór útdrátturinn fram, og vorum við hv. þm. Seyðf. dregnir út, en eftir urðu Jón Árnason framkvæmdarstjóri og hv. 1. þm. Reykv.

Nú þegar rætt er um lífsskilyrði núverandi bankaráðs, fanst mjer vel við eigandi að geta þessa afreks samherja hv. 3. landsk. í bankaráðinu. Með samþykt frv. erum við, sem kosnir vorum í fyrra, úr sögunni sem bankaráðsmenn eftir fyrirmælum Alþingis. En mjer finst alveg óverjandi, að nokkrum skuli koma til hugar að höfða mál út af því. Jeg hefi sýnt, með því að gefa laun mín í bankaráðinu til almannaþarfa, að jeg álít, að það eigi ekki að vera einstökum mönnum til hagnaðar. En reyni bankaráðið að höfða mál, er það bæði því sjálfu og bankanum til hnekkis. Auk þess er vitanlega enginn möguleiki til að vinna slíkt mál.

Till. hv. 3. landsk. um, að nokkur hluti frv. — ákvæðin um bankaráðið — skuli ekki koma til framkvæmda strax, er raunar næsta undarleg. Við vitum ekki, hverjir kunna að verða kosnir samkv. hinum nýju lögum. E. t. v. verða það sömu mennirnir, og e. t. v. ekki. En jeg geri a. m. k. ráð fyrir, að okkur ólöstuðum, sem nú eigum setu í bankaráðinu, að þangað veljist eins góðir menn og við. Persónulegar ástæður hljóta að koma hv. 3. landsk. til að flytja þessa brtt. Hann vill laga löggjöfina eftir þörfum sjerstakra manna. Nú eru líkur til, að stærri flokkarnir geti komið að sömu tölu manna og í fyrra, og er því innan handar að kjósa sömu mennina og nú eiga setu í bankaráðinu, ef þeir aðeins kæra sig um að hafa þá áfram. En sje svo ekki, eiga þeir heldur ekki að vera þar.

Till. hv. 3. landsk. á að fella, vegna andans í henni, þó að ekki væri annað. Það er sá andi, sem veldur því, að hætta verður verklegum framkvæmdum, hvenær sem harðnar í ári, vegna hinna gífurlegu útgjalda til einstakra manna. Þá fyrst er fjárhag ríkisins borgið, þegar svo er litið á, að það standi ekki í þakklætisskuld við aðra menn en þá, sem raunverulega vinna því gagn. Og þegar þjóðfjelagið vill losna við störf manna, eiga þeir að hverfa frá þeim bótalaust, enda er svo ráð fyrir gert í gildandi lögum.

Nú finst hv. 3. landsk. óhæfa að breyta bankalögunum, af því að hann óttast, að það muni verða óþægilegt fyrir einhverja af flokksmönnum hans. Nú heimtar hann varúð. En hann var ekki ákaflega varkár sjálfur í fyrra. Þá virti hann að vettugi tillögur milli þinganefndarinnar í bankamálum og beitti öllu sínu bolmagni til að brjóta niður það skipulag, sem Sveinn Björnsson sendiherra og hv. 1. þm. Reykv. höfðu hjálpað til að undirbúa í milliþinganefndinni með okkur framsóknarmönnum. Fyrir þetta ofurkapp hv. 3. landsk. við að koma. málinu fram, þá komst inn í frv. margt, sem honum þótti ekki gott og hann áleit, að þar ætti ekki að vera. Þó að kosningar stæðu fyrir dyrum og eðlilegt væri, að málið yrði ekki ákvarðað fyr en eftir þær, þá beitti hann minni hl. ofbeldi til þess að fá málið fram og fá sína menn í meiri hl. í bankaráðinu. Svo fjekk hann tækifæri til að bæta fyrir ofríki sitt, þegar hann skipaði formann í bankaráðinu. Stærri flokkarnir tveir höfðu jafntefli í bankaráðinu, og var því eðlilegt, að sá þingflokkurinn, sem sigraði, fengi formanninn. En þá útnefnir hann formanninn úr sínum flokki fáum dögum eftir að hann er kominn í minni hluta á þingi. Þetta sýnir merkilegt ofríki. Minnihlutastjórn notar seinustu leifar valds síns til að skapa sjer óeðlilegt vald í bankaráðinu.

Nú hefði mátt búast við, að sá, sem skipaður yrði bankaráðsformaður, yrði maður, sem stæði utan við flokkana og sem líkur væru til, að yrði endurkosinn af andstöðuflokkinum. En það var síður en svo, að slíkur maður væri valinn. Stjórnin kaus til starfans reyndan og vel viti borinn mann, en mann, sem vitanlegt var, að gæti ekki notið trausts hjá þeim meiri hl., sem orðinn var í þinginu. Til þess hafði sá maður misbeitt valdi sínu of freklega í pólitískum tilgangi. Hann hafði um langan tíma haldið uppi máli gegn ritstjóra „Tímans“, núverandi hæstv. forsrh., með gjafsókn; málsókn, sem kostað hefir ríkið um 500 kr. Þetta var út af auglýsingablaði, sem sent var út með „Tímanum“, en hafði einnig verið sent út með íhaldsblaði, er tengdasonur hans var ritstjóri að. En honum stefndi hann ekki, svo mikil var frekja og ofsi þessa manns, að hann sveifst ekki að nota vald það, sem hann hafði sem yfirmaður póstmála hjer á landi, í þjónustu flokks síns og til að beita ofsa, hlutdrægni og rangindum við andstæðing sinn. Öðru sinni notaði þessi sami maður vald sitt til þess að ofsækja póstafgreiðslumann nokkurn, sem var í Framsóknarflokknum. Lagði hann niður brjefhirðingu á einu helsta höfuðbóli landsins, aðeins vegna óska tengdasonar síns, er var andstæðingur póstafgreiðslumannsins. Hv. 3. landsk. getur því ekki gengið þess dulinn, að hann er búinn að brjóta af sjer allan rjett, þegar hann, ofan á það ofurkapp, sem hann beitti til að knýja lögin í gegn, og eftir að hann er raunverulega búinn að tapa rjetti til að framkvæma mikilsvarðandi stjórnarathafnir, tekur sjer slíkt vald, skipar mann, sem svo freklega er búinn að brjóta af sjer alt hlutleysi gagnvart núverandi stjórnarflokki.

Aðstaða hv. 3. landsk. er því ekki góð. Hann hefir ekki verið hollur málinu, og það, sem nú er verið að gera, er ekki annað en að verið er að taka upp þráðinn frá fyrri árum, áður en hv. 3. landsk. næði að spilla málinu. Aðstaða flokkanna á þingi í fyrra var sú, að hvor þeirra stærri fjekk tvo fulltrúa. Sá verðandi meiri hl. átti að fá oddamanninn. Háttv. 3. landsk. vjek frá því og notaði til þess leifar valds síns. Nú viljum við framkvæma það í meiri hl., sem við vorum með í minni hl. Slíkt er ekki hægt að áfella í „parlamentarisku“ ríki.