14.04.1928
Efri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4690 í B-deild Alþingistíðinda. (3921)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Mjer þykir það leiðinlegt, að hv. 2. þm. S.-M. virðist hafa misskilið það, sem jeg sagði viðvíkjandi afstöðu stjórnarandstæðinga til fyrirgreiðslu frv., ef brtt. mín yrði samþykt. Hann skildi mig svo, sem jeg væri einungis að lofa fyrir sjálfan mig. Svo var ekki. Jeg hefi umboð til þess frá stjórnarandstæðingum öllum í Nd. að lofa því, að þeir skuli leyfa málinu að koma á dagskrá með afbrigðum, hvenær sem er, og ekki tefja það með umræðum, ef brtt. mín og hv. þm. Seyðf. verði samþ. Vona jeg, að hv. þm. rengi ekki, að jeg skýri rjett frá, enda hefi jeg hjer skriflega yfirlýsingu frá öllum stjórnarandstæðingum Nd. (JBald: Hvernig hljóðar hún?). Jeg finn ekki ástæðu til að lesa hana upp; jeg hefi þegar greint frá efni hennar. (JBald: Bókstafurinn blívur!). Jeg get mætavel lesið hana upp, úr því hv. 5 landsk. óskar þess. Hún hljóðar svo:

„Undirritaðir alþingismenn lýsa því hjer með yfir, að samþykki hv. efri deild breytingartillögu þá á þingskjali 764, er hv. þingmaður Seyðfirðinga flytur við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 48, 31. maí 1927, um Landsbanka Íslands, og breytingartillögu þá, er hv. 3. landsk. flytur á þskj. 765, en breyti ekki frv. að öðru leyti frá því, sem það er eftir 3. umr. í neðri deild, munum við heimila, að málið komi til umr. og atkvæða í neðri deild þegar í stað er þess verður óskað, og munum við ekki taka þátt í umræðum um það.

Alþingi, 13. apríl 1928.

Ólafur Thors. Magnús Guðmundsson. Jón A. Jónsson. Jón Sigurðsson. Jóhann Þ. Jósefsson. Pjetur Ottesen. Jón Ólafsson. Magnús Jónsson. H. J. Kristófersson. Einar Jónsson. Sig. Eggerz.“

( Dómsmrh. JJ: Það er gott; þeir eru farnir að iðrast!). Jeg vona, að jeg hafi hjer lagt fram þá sönnun, sem hv. 2. þm. S.-M. er nægileg.

Hv. þm. sagði, að hjer væri ekki um embætti að ræða. Þetta er rjett, enda hefi jeg aldrei haldið því fram. Þetta er sýslan, og það sjerkennilega við hana er það, að Alþingi skipar í hana menn til ákveðins tíma. Því er þetta ekki hliðstætt venjulegum embættaskipunum, þar sem menn eru skipaðir til óákveðins tíma, eða til lífstíðar, og fer eftir mismunandi reglum, ef embættin eru lögð niður, eða hlutaðeigandi fer frá. En skipun þessara manna er gerningur, sem svo er gerður, að honum verður ekki sagt upp af öðrum aðilja aðeins. Samkvæmt almennum rjettarreglum er það samningur, sem gildir um ákveðinn tíma.

Hæstv. dómsmrh. talaði langt mál viðvíkjandi því, sem gerst hafði í bankaráðinu um útdrátt á bankaráðsmönnum. En það er málinu alveg óviðkomandi, og fer jeg ekki út í það. Að öðru leyti var það, sem hann sagði, bygt á sama misskilningi og það, sem hv. 2. þm. S.-M. hjelt fram. Jeg hefi ekki haldið því fram, að um stöðurnar giltu sömu reglur og um embætti. Það er útilokað. Embætti eru veitt um ótiltekið árabil, og er oft litið svo á, sem veiting gildi æfilangt, ef engar sjerstakar orsakir koma fyrir. Hjer er öðru máli að gegna. Stöðurnar eru veittar til ákveðins tíma, tveggja og fjögurra ára. Við höldum því fram, að ekki megi ganga á þessa samninga, þingið geti ekki komið, ári eftir að það hefir veitt stöðurnar til 4 ára, og sagt, að það hafi nú sjeð sig um hönd; tíminn eigi að vera styttri. Þá hefir þingið sjálft gert sig ómerkt orða sinna. Finst mjer undarlegt, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki viðurkenna þetta, því á þessu þingi hefir hann einmitt komið fram með till. um breytingar á tilhöguninni við veitingu embætta. Lögin um varðskipin, sem hv. deild var að samþykkja áðan, kveða svo á, að skipverja skuli ekki skipa til lífstíðar, heldur skuli þeir ráðnir með ráðningarsamningi til 6 ára í senn. Hliðstætt því, sem hjer liggur fyrir, væri það, að hæstv. dómsmrh. kæmi á næsta þingi fram með brtt. við lögin, um að stytta ráðningartíma þeirra manna, sem á yfirstandandi ári verða ráðnir til 6 ára samkvæmt ákvæðum laganna. Jeg veit ekki, hvort hæstv. dómsmrh. skilur, að þetta er ekki hægt að gera. Þegar menn eru ráðnir til ákveðins tíma, þá er ekki hægt að segja þeim upp fyrri en sá tími er úti, og það þótt sjálft löggjafarvaldið eigi í hlut. Löggjafarvaldið verður líka að hlíta þeim takmörkunum, að það má ekki ganga á gerða samninga.

Hæstv. ráðherra gat þess, að það yrði bæði bankanum og bankaráði til minkunar, ef menn þeir, er hann ætlast til að þoki úr bankaráðinu, láti sjer það ekki lynda án dómsúrskurðar. Þetta er á misskilningi bygt. Sú málsókn yrði fyrirsjáanlega hvorki bankanum nje bankaráði til álitshnekkis, heldur þingi og stjórn. Jeg vil forða þingi og stjórn frá þeim álitshnekki, því þótt Íhaldsflokkurinn geti þvegið hendur sínar, þá er það þó þing og stjórn okkar þjóðar, sem bakar sjer þetta. — Samanburður við embætti skrifstofustjóranna á hjer alls ekki við. Þeir eru ekki ráðnir til ákveðins tíma.

Þá tók hæstv. dómsmrh. að ámæla mjer og flokki stjórnarinnar í fyrra fyrir aðgerðir okkar í þessu máli. Kvað hann okkur hafa beitt ofríki. En það var þvert á móti, enda gat fyrv. stjórn ekki beitt ofríki, þótt hún hefði viljað, því stjórnin var í minni hl. í Nd., og gat sú deild felt hverja þá till., sem frá stjórninni kom, ef hún vildi. Því varð lögunum ekki komið í gegn nema með samkomulagi. Og það samkomulag tókst milli þorra framsóknarmanna og Íhaldsflokksins mest alls. Lögin voru samþ. með 19 atkv. í Nd. og 12 atkv. hjer. Það er því fjarstæða, að minni hl. hafi verið beittur ofríki í fyrra.

Í ræðu hæstv. ráðherra skaut því upp úr honum, hvaða innri ástæður eru til þess, að hann getur ekki þolað núverandi bankaráðsformann. Þótt jeg hafi vitað, að hæstv. ráðherra meti mikils persónulegar mótgerðir eða velgerðir við sig, þá hefði mig aldrei órað fyrir því, að það væri hjer málsástæða, að Sigurður póstmeistari Briem hefði framfylgt póstlögunum gegn fyrv. ritstjóra „Tímans. Jeg skil það, að hæstv. ráðherra ætlar, er færi gefst, að minnast andstæðinga sinna, sem fengið hafa það vanþakkláta hlutverk að halda uppi lögum og rjetti gegn flokksbræðrum hans.

Um það, að átt hefði að fresta skipun bankaráðsformanns, skal jeg upplýsa, að það var ljóst af meðferð málsins í fyrra, að það var skoðað hlutverk þáverandi stjórnar að skipa hann. Það varð einmitt til þess, að skipunartíminn var færður úr 5 árum og niður í 3. Þetta var gert með shlj. atkv. stjórnarandstæðinga í Nd. Framsókn hafði sjálf stungið upp á að skipa formann til 5 ára, en breytti svo skoðun. Vitanlega var þetta viðurkenning á því, að þáverandi stjórn átti að skipa formann. Hvort skipunarbrjefið var gefið út fáum dögum fyrir eða eftir kosningarnar, skiftir ekki máli. Það var gefið út á venjulegan hátt, gildandi frá 1. júlí. Um hæfileika þess manns, sem skipaður var, hefir ekki verið deilt. Og það er erfitt að finna mann, sem hefir alt í senn til að bera, sjerþekkingu, lífsreynslu og almenna viðurkenningu fyrir samviskusemi og vitsmuni. Að brotin hafi verið hlutleysisregla með skipun hans, það get jeg ekki kannast við. Jeg minnist ekki, að hann hafi tekið þátt í stjórnmálum, annan en þann að greiða atkvæði, sem honum ber sem kjósanda. Jeg tel mjög tvísýnt, að fundinn yrði nýr bankaráðsformaður, sem betur hefði gætt hlutleysis á þessu sviði en hann.

Jeg vona nú, að þetta geti alt fallið í ljúfa löð. Jeg hefi ástæðu til að gera mjer vonir um, að meiri hl. í deildinni vilji gera þessa sjálfsögðu breytingu og hæstv. stjórn hafi ekkert á móti að ganga svo frá 23. gr. sem jeg legg til.

Jeg hefi nú talað tvisvar, og mun því umr. um þetta mál vera lokið af minni hálfu að þessu sinni.