14.04.1928
Efri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4695 í B-deild Alþingistíðinda. (3922)

103. mál, Landsbanki Íslands

Ingvar Pálmason:

Jeg tel hlýða að kvitta fyrir það, sem hv. 3. landsk. las upp hjer í deildinni. Jeg viðurkenni, að hann hafði fult umboð til að lýsa yfir því, sem hann lýsti yfir, og jeg verð að segja það, að jeg hafði ánægju af þessari yfirlýsingu. Hún virðist sýna það um leið, hvernig á því stendur, að andstöðuflokkur stjórnarinnar hefir haldið uppi málþófi að óþörfu. Þegar flokkurinn gefur yfirlýsingu um, að nú skuli hann þagna, þá er það af sömu ástæðum runnið og þegar þeir sýna í verki, að þeir hafi fengið skipun um, að nú skuli þeir allir tala sem hver hafi leyfi til.

Það er ekki ástæða til að fara út í efni brtt. hv. 3. landsk. Jeg tel öðru máli gegna um embættaskipanir en kosning um vissan ákveðinn tíma til tiltekins trúnaðarstarfa. Hv. þm. telur ekki mikinn mun þar á. En jeg lít öðruvísi á það mál. Jeg skoða bankaráðsstörfin sem trúnaðarstöður, en ekki embætti; og jeg lít svo á, að sá, er veitir þessar trúnaðarstöður, á hans valdi sje, hve lengi farið er með umboðið. Störf bankaráðsins eru nánast umboðsstörf.

En jeg skal ekki fara lengra út í þetta. Hv. 3. landsk. hefir lýst því yfir, að hann taki ekki til máls aftur, og sje jeg því síður ástæðu til að skeggræða frekara. Þótt nú hvað mig snertir sje annari ástæðu til að dreifa til þess að vera á móti brtt., þar sem hún, ef samþ. verður, hlýtur að tefja málið, þá er hin sú, að jeg er mótfallinn breytingunni í sjálfri sjer.