09.02.1928
Efri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4698 í B-deild Alþingistíðinda. (3926)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf ekki miklu að bæta við orð hv. flm. og aths. þær, er frv. fylgja. — Það hefir lengi verið um það talað, að ekki væri vanþörf á því, í fyrsta lagi að skifta lögreglustjóraembættinu og í öðru lagi að breyta launakjörum bæjarfógeta og lögreglustjóra þannig, að þau verði í meira samræmi við kjör annara starfsmanna landsins.

Þegar sú breyting var gerð, að skifta bæjarfógetaembættinu, var um leið tekinn upp sá siður að reka skrifstofuhald þessara tveggja embætta á landsins kostnað. Áður — eða þegar Jón heitinn Magnússon sat í þessu embætti — var aukatekjum embættisins varið til þess að greiða kostnað skrifstofuhaldsins. Jeg geri ráð fyrir, að skrifstofuhaldið hafi þá ekki orðið landssjóði dýrt. Embætti þetta hefir ætíð verið talið allgott, og væri því ekki nema sanngjarnt, að aukatekjurnar gengju upp í nauðsynlegan kostnað við embættið. Mjer finst því ástæða til að halda, að það hafi verið fyrir mistök ein, er skiftingin varð 1917, að kostnaður við skrifstofuhaldið var lagður á landssjóð. Það hefir síðan verið á almanna vitorði, að þessi 2 embætti eru miklu launahærri en önnur embætti landsins. Þetta er ekki sagt til þess að áfella þá, sem orðið hafa fyrir því happi að sitja í þessum embættum, þótt þeir hafi ekki beiðst undan því að þiggja þær tekjur, sem löggjöfin hefir veitt þeim. En það verður að ætlast til þess af þinginu, þegar það synjar mörgum embættismönnum sínum um rjettmætar launabætur, að það gæti þess að láta ekki missmíðar á löggjöfinni verða til þess að skapa óþarflega feit embætti. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir embættismenn, er sitja í hinum rýrari embættum, kunni miður sínum fátæklegu kjörum, er þeir sjá, að landið eyðir meira en með þarf undir öðrum kringumstæðum. Þetta frv. er því fyrst og fremst sparnaðarfrv.

Þó að hitt atriðið, um verkaskiftingu þessara embætta, sje þörf ráðstöfun, er það ekki svo nauðsynlegt, að það eitt hefði knúð stj. til þess að koma fram með þetta frv. Þótt lögreglustjórn og tollstjórn sjeu ólík störf og bæði umfangsmikil, þá er ekki brýn ástæða til að aðgreina, ef ekki væri hjer um aðra ástæðu að ræða, þ. e. nauðsynina á að stilla laununum í hóf. Það væri því hugsanlegt að kljúfa ekki tollstjóraembættið frá að svo stöddu, en breyta aðeins launakjörunum. Hinsvegar er lögreglustjóraembættið svo umfangsmikið og þarf svo stóran hóp af starfsmönnum, að það getur verið umtalsmál, hvort nokkur sparnaður yrði að því að halda embættunum saman.

Jeg vil taka það fram um þann af þessum tveim embættismönnum, sem ekki á sæti hjer í deildinni og getur ekki lagt hjer neitt til mála, að hann er í góðu áliti, a. m. k. sem skrifstofumaður og yfirmaður tollheimtunnar. Hjer er ekki um „krítik“ á embættisfærslu hans að ræða. Frv. þetta er aðeins fram komið vegna þess, að nauðsynlegt er að breyta embættunum.