09.03.1928
Efri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4708 í B-deild Alþingistíðinda. (3933)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Í nál. mínu á þskj. 413 hefi jeg aðeins tekið launatölurnar, en ekki sett þar neitt um það, hverjar aukatekjurnar eru nú; aðeins hefi jeg sagt, að nánari grein verði gerð fyrir málinu í framsögu, og staðhæfði jeg, að breytingin í heild yrði til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Hv. frsm. meiri hl. var fyrst nokkuð að vjefengja tölur mínar um samlögð biðlaun og embættislaun þeirra embættismanna, er hjer er um að ræða samkv. frv. og brtt. meiri hl. Honum þótti ólíklegt, að biðlaun hvors um sig, bæjarfógeta og lögreglustjóra, yrðu 9500 kr., þar sem laun þeirra beggja úr ríkissjóði eru nú ekki meira. en 13800 kr. En þessu er samt þann veg farið. Þeir eru báðir svo gamlir embættismenn, að þeir taka þau biðlaun, sem voru í lögum áður en launalögin 1904 voru sett. Ákvæðin um þau eru frá miðri 19. öld og eru á þá leið, að biðlaunin miðast við bæði föst laun og aukatekjur; eru 2/3 hlutar af meðaltali síðustu 5 ára, en þó ekki yfir 4000 ríkisdalir. Báðir þessir embættismenn hafa að undanförnu haft svo háar tekjur, að þeir mundu fá hæstu biðlaun, þ. e. 8000 kr., en það yrði með dýrtíðaruppbót 9500 kr., sem sagt hæstu embættislaun. Eftir till. hv. meiri hl. eiga hinir nýju embættismenn að fá 9500 kr. á ári hver, þegar dýrtíðaruppbótin er lögð við. Í því sambandi skiftir ekki máli, hvort þeir fá byrjunarlaunin eða lokalaunin, því að með dýrtíðaruppbótinni verður hvorttveggja sama upphæð, samkv. ákvæðunum um hana. Eftir þessu sýnist mjer óvjefengjanlegt það, sem jeg sagði í nál., að launin verða samtals 5X9500 = 47500 krónur, ef núverandi embættismenn setjast á biðlaun, en jeg kem síðar að því atriði, hvort líkur sjeu til þess. Núverandi embættislaun þessara manna eru 13–800 kr., og stafar það af því, að aðeins annar þeirra hefir dýrtíðaruppbót. Hinn gekk ekki undir ákvæði launalaganna 1919; kaus heldur að fá laun sín eftir eldri fyrirmælum.

Þá er að athuga líkurnar fyrir því, hvort núv. embættismenn velji heldur að sækja um tvö hinna nýju embætta eða setjast á biðlaun. Jeg byggi mína skoðun um þetta atriði einfaldlega á því, að í 5 ár eiga þeir að njóta sömu launakjara, hvort sem þeir gegna embættunum eða ekki.

Undir þeim kringumstæðum hygg jeg, að flestir mundu kjósa að eiga heldur starfskraft sinn sjálfir. Hinsvegar hefi jeg alls ekki spurt viðkomandi menn um persónulega skoðun þeirra eða ætlun, ef til kæmi, og get því ekki um það dæmt.

Jeg skil ekki, fyrir hverja sök farin er sú leið, sem gert er í frv., til að ná því marki, sem það virðist hafa. Mjer virðist það mjög illa til fundið og óheppilega að leggja núverandi embætti niður. Um bæjarfógetaembættið sje jeg ekki, að munurinn sje annar en sá, að taka sakamál og lögreglumál undan dómsvaldi hans. Jeg hugsa, að embættismaðurinn gæti ekki haft mikið á móti því, enda er það fyllilega heimilt að ljetta þannig störfum af embættismönnum án þess að leggja niður embætti þeirra. Sama er um lögreglustjóra að segja. Ef menn vilja nýtt tollstjóraembætti, þá er fyllilega heimilt að taka tollmálin undan lögreglustjóra án þess að leggja hans eigið embætti niður. — Jeg hugsa, að þeim, sem frv. sömdu, hafi ekki hugkvæmst, að fara mætti þessa leið, nje þeim hafi verið ljóst, hvílíkt fjárhagsatriði hjer er um að ræða.

Þá er að gera grein fyrir því, á hverju jeg byggi ummæli mín í sambandi við aukatekjurnar. Í aths. frv. stendur, að aukatekjurnar hafi sum árin verið um 80 þús. kr., án þess að nánari grein sje fyrir því gerð. Mjer var kunnugt um, að hlutaðeigandi ráðuneyti hafði beðið um skýrslu um aukatekjur þessara manna. Er hún nú nýlega komin, og hefi jeg fengið leyfi til að líta á hana. Svo margar sögusagnir og getgátur ganga manna á milli um aukatekjurnar, að jeg tel rjett, að fólk fái nú að vita hið sanna, og skal jeg hjer skýra frá, hverjar þær voru á síðasta ári.

Tel jeg þá fyrst aukatekjur bæjarfógeta, þær sem fara eftir eldri fyrirmælum en launalögunum frá 1919 og hann var þá látinn halda. Það eru ritlaun kr. 3756,50, fyrir afrit úr bókum embættisins. — Svo eru 2% af stimpilmerkjum þeim, sem ganga í gegnum hendur embættisins. Nam sá póstur síðastl. ár kr. 1079.50. — Þar næst koma innheimtulaun af uppboðum. Það hygg jeg, að mjer og háttv. meiri hl. komi saman um, að ekki sje fært að afnema þau með öllu, ef embættismaðurinn á að annast innheimtuna og bera ábyrgð á henni. Því að svo er ákveðið, að hann verður að svara til andvirðis alls þess, sem ekki heimtist. Innheimtulaun af fasteignauppboðum námu kr. 1977,75, og af lausafjáruppboðum kr. 8314,38. Aukatekjur bæjarfógetans námu þannig 1927 samtals kr. 15128,30. Fyrir vanhöldum á uppboðsinnheimtum mun þá vera frádregið sem svarar 1/3 af innheimtulaununum fyrir lausafjáruppboð. Það getur nú verið álitamál, hve mikið af innheimtulaununum verði skilið eftir með hinu nýja embætti. Þó þykir mjer sennilegt, að það verði öll innheimtulaun af lausafjáruppboðum og að einhverju leyti innheimtulaunin af fasteignauppboðum.

Þá kem jeg að lögreglustjóraembættinu. Það hefir samkv. eldri lögum haft aukatekjur árið 1927, sem nema kr. 6281,50. En mesta tekjulindin er það, sem löggjafarvaldið lagði embætti þessu til með lögum frá 1921, það er 2% af stimpilgjaldsmerkjum, sem ganga gegnum lögreglustjóraskrifstofuna. Þetta nam síðastliðið ár kr. 13098,75. Þá koma innheimtulaun fyrir slysatryggingargjöld kr. 2460,97, innheimtulaun á skemtanaskatti námu kr. 878,92, og loks innheimtulaun fyrir ellistyrktarsjóðsgjöld kr. 250,00. Þetta gerir alt samtals kr. 22970,14. Nú eru innheimtar hjer hjá lögreglustjóranum í Reykjavík ríkissjóðstekjur, sem nema fullum 6 milj. kr. árlega, og eigi að halda áfram að láta þennan embættismann hafa þessar miklu innheimtur á hendi upp á eigin ábyrgð, þá virðist alveg óumflýjanlegt að láta hann hafa eitthvað fyrir ábyrgð á svona miklum fjárreiðum. En hve mikið það yrði, getur verið álitamál. Annars eru sumar aukatekjur þessa embættis ákveðnar með ákvæðum í sjerstökum lögum, eins og t. d. innheimtulaunin á skemtanaskattinum; þau eru beint ákveðin í skemtanaskattslögunum, og það er ekki fjarri mjer að halda, að embættið haldi þeim áfram og fleiri innheimtulaunum, sem líkt er ástatt um, enda þótt frv. þetta, sem hjer er til umr., verði að lögum. Og mjer virðist ekki nema sanngjarnt, að svo verði.

Ef tekin eru frá innheimtulaun fyrir uppboð, verður niðurstaðan sú, að aukatekjur þessara embætta verða um 27–28 þús. kr. á ári. Verður tapið fyrir ríkissjóð, ef breyting þessi á að ganga í gegn, samt um 7000 kr., en það er eingöngu af því, að breytingin er gerð á þennan hátt, að leggja embættin niður og stofna ný í þeirra stað.

Það má eflaust með rjettu benda á einhver undangengin ár, sem aukatekjur þessar hafi verið meiri en 27000 kr., t. d. þegar innheimtumenn höfðu öll gjöld af erlendum fiskiskipum. En nú hefir það verið lagfært fyrir nokkru, svo að um það er ekki lengur að ræða. Ef menn vilja nú halda því fast fram, að rjett sje að færa eitthvað niður aukatekjur þær, sem nú fylgja lögreglustjóraembættinu, þá álít jeg, að það eigi að gerast á annan hátt en að leggja embættið niður til málamynda og endurreisa í breyttri mynd. Jeg teldi miklu rjettara að breyta framkvæmd stimpilgjaldslaganna á þann hátt, að fella niður þessi 2% af stimpilgjaldinu til lögreglustjóra. Þegar lög þessi voru sett 1921, töldu menn þessi 2% ekki nema sanngjarna þóknun til lögreglustjóranna fyrir að bera ábyrgð á stimpilmerkjunum. En nú horfir mál þetta öðruvísi við, þegar farið er að nota merki þessi við stórar greiðslur, eins og gert hefir verið síðan verðtollslögin gengu í gildi. Og verði nú að því horfið að hækka verðtollinn frá því, sem hann er nú, er ennþá brýnni ástæða til þess að athuga þetta, og jeg fyrir mitt leyti sje ekkert því til fyrirstöðu, að framkvæmdinni á þessu verði breytt, að minsta kosti að því er snertir lögreglustjóraembættið hjer í Reykjavík. Jeg veit að vísu, að til eru þeir lögfræðingar, sem halda hinu gagnstæða fram um þetta efni, en rjettarmeðvitund mín segir mjer, að embættismenn verði að sætta sig við það, þó að löggjafarvaldið geri breytingar á þeim ákvæðum, sem snerta embætti þeirra og sett hafa verið eftir að hlutaðeigandi embættismaður tók við. Ef því þessi breyting yrði gerð, að þessi 2% af stimpilgjaldinu yrðu látin renna í ríkissjóð, þá yrði ekki eftir af auka tekjum lögreglustjóraembættisins nema sanngjörn innheimtulaun, miðað við þá miklu áhættu, sem því fylgir að innkalla þetta mikla fje.

Það, sem nú alls ekki er hægt að taka af lögreglustjóraembættinu, eru aukatekjur þær, sem því fylgja samkvæmt eldri lögum, sem námu síðastliðið ár kr. 6281,50. Mjer virðist því, að tekjur lögreglustjórans gætu orðið hóflegar með því að láta þetta halda sjer, sem var þegar embættið var stofnað og núverandi lögreglustjóri tók við því.

Ef litið er á málið frá sjónarmiði þessara embættismanna, þá er betra fyrir þá að fara á biðlaun heldur en taka við nýju embættunum með þeim launum, sem þeim fylgja.

Þá kem jeg að því atriðinu, að skifta lögreglustjóraembættinu og setja sjerstakan tollstjóra. Jeg fyrir mitt leyti verð að telja slíka skiftingu alveg ótæka; fyrst og fremst af því, að hún verður dýrari fyrir ríkissjóðinn en það fyrirkomulag, sem nú er. Og í öðru lagi ber okkur í fámenninu að leggja áherslu á að sameina sem mest öll skyld störf, til þess að starfsmannafjöldinn vaxi okkur ekki yfir höfuð. Eins og þessum málum er nú háttað, ræður lögreglustjóri yfir lögregluþjónum, tollvörðum og því fólki, sem hann að öðru leyti nauðsynlega þarf til skrifstofuhalds. Og því verður ekki neitað, að hann notar lögregluþjónana til aðstoðar við tollgæsluna. Slíkt er líka gert úti um land, og virðist ekkert við það að athuga, þó að lögregluþjónarnir sjeu notaðir til þess að afstýra og koma upp lögbrotum á því sviði eins og öðrum. En verði horfið að skiftingu embættisins, þá dragast lögregluþjónarnir alveg út úr þessu starfi, og óumflýjanlegt verður að bæta nýjum mönnum við tollgæsluna. Það getur vel verið rjett, sem háttv. frsm. meiri hl. sagði, að bæjarstjórnin hjer væri ekki ánægð með að þurfa að borga þeim lögregluþjónum kaup, sem notaðir væru í þarfir landsins við tollgæslu. Þetta má vel vera rjett, — en hvað munu þá hinir kaupstaðirnir segja, ef Reykjavík verður losuð við tollgæsluna að þessu leyti! Því að víðast hvar í bæjunum eru lögregluþjónarnir einu aðstoðarmennirnir, sem lögreglustjórarnir hafa á að skipa í þessum efnum. Jeg ímynda mjer því, að afleiðingin verði sú, ef farið verður að breyta því fyrirkomulagi, sem nú er hjer í Reykjavík á þessum málum, að hinir bæirnir reyni líka að losa sig við þessa kvöð. Sömuleiðis tel jeg ekki ósennilegt, að lögreglustjórum kaupstaðanna utan Reykjavíkur fari að finnast það ósanngjarnt að láta sig hafa tollmálin á hendi, eftir að búið er að losa starfsbróður þeirra í höfuðstaðnum við þau. Jeg lít því svo á, að þetta geti orðið byrjunarspor í þá átt að losa lögreglustjóra landsins yfirleitt við tollgæsluna, en slíkt teldi jeg spor í öfuga átt.

Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg vil eindregið vara við að leggja inn á þá braut, sem hjer virðist stefnt að, af því að jeg sje fram á, að það hefir mikinn aukinn kostnað í för með sjer, bæði hjer í Reykjavík og annarsstaðar á landinu.