09.03.1928
Efri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4727 í B-deild Alþingistíðinda. (3937)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hæstv. dómsmrh. byrjaði ræðu sína með því að segja, að jeg væri á móti sparnaði. Þetta er rangt. Jeg er ekki fyrst og fremst á móti þessu frv. af því, að jeg telji tilhögunina lakari, heldur af því, að jeg tel hana dýrari, sjerstaklega ef hún er framkvæmd eins og frv. gerir ráð fyrir, með því að leggja niður tvö embætti og bjóða viðkomandi mönnum upp á biðlaun.

Hæstv. ráðh. sagðist hafa heyrt, að lögreglustjórinn hefði 80 þús. kr. í laun og að skrifstofukostnaður beggja embættanna væri 120 þús. kr. Auk þess hefði verið lagt 9500 kr. útsvar á lögreglustjórann og hann ekki kvartað undan. Það er nú náttúrlega ekki mikið að marka, hvað menn ímynda sjer, og auk þess mun lögreglustjórinn ekki einungis greiða útsvar af aukatekjum sínum, heldur líka af eignum. Og jeg vil benda á það, að aukatekjur lögreglustjórans hafa oft verið hærri en nú. Á miðju sumri 1922 fann eitthvert klókt höfuð meðal embættismanna á Norðurlandi það út, að skilja mætti lög, sem gengu í gildi það ár og snertu rjettindi útlendra fiskiskipa, á þá leið, að gjöldin af þeim, sem þangað til höfðu runnið í ríkissjóð, ættu að verða eign þeirra, sem innheimtu þau. Þessa skoðun, sem jeg að mínu leyti tel að sje röng, staðfesti svo þáverandi ráðh., Klemens Jónsson, svo að þeir embættismenn, sem þetta vissu, fóru að hirða gjöldin sjálfir. Þessi úrskurður var aldrei birtur, og allmargir embættismenn, sem ekki datt þessi lögkænska í hug, skiluðu gjöldunum áfram til ríkisins. Eftir stjórnarskiftin 1924 lenti svo í töluverðu stappi milli mín og embættismannanna út af þessu. Málið kom fyrir þing og þar áttu embættismennirnir marga stuðningsmenn, en málinu lauk með þeirri miðlun, að ráðuneytinu var heimilað að veita alt að 25% fyrir innheimtuna. Þetta gjald er allmikið hjer í Reykjavík af svo mörgum skipum, sem hingað koma, og nemur um 50 aura af hverri smálest. Og mjer þykir ekki ólíklegt, að lögreglustjórinn hafi haft 80 þús. kr. með þessu gjaldi, því að jeg veit, að þetta gjald gaf hærri tekjur en allar aukatekjur 1927, eða nálægt því. Nú er búið að leiðrjetta stærstu misfellurnar á þessu, og því er ekki rjett, að um vanrækslu hafi verið að ræða hjá mjer í þessu efni. En jeg get vel gengið inn á, að lengra sje farið. Það sýnist rjett að líta á, hvort innheimtulaunin á stimpilgjaldinu eigi að haldast eða ekki, og ef þau falla niður, eru ekki svo miklar aukatekjur eftir, að ástæða sje til þess að leggja embættin niður til þess að gera frekari breytingar. Og það virðist ekkert því til fyrirstöðu, að sett sjeu sjerákvæði í lög um tekjur embættismannanna í Reykjavík, þar sem í lögum eru sjerákvæði um embættisfærslu þeirra. Þá sagði hv. frsm., að hann byggist ekki við, að þessir menn færu að lifa í hvíld og iðjuleysi. Jeg býst ekki heldur við því, en þeim er í raun og veru gefin lausn með því að leggja embættin niður og fá rjett til biðlauna. Og ef þessir menn sækja um hin nýju embætti og fá þau, — hvaða ástæða er þá til að leggja embættin niður, þegar ná má aukatekjunum á annan hátt? Jeg hefi annars skilið þetta frv. svo, að skifta ætti um menn, en ef svo er ekki, vil jeg skora á hv. frsm. að sjá svo um fyrir 3. umr., að mennirnir verði ekki settir á biðlaun með sjálfum lögunum. Mjer finst það ekki ná nokkurri átt að leggja embættin niður, nje að þessir menn muni heldur kjósa að vinna embættisstörf en að sitja á biðlaunum. Það er á engan hátt ámælisvert, þó að þeir taki við því, sem löggjafarvaldið rjettir þannig að þeim.

Þá mintist hæstv. dómsmrh. á landritaraembættið, sem lagt var niður 1917. Hann sagði, að maðurinn, sem gegndi því, hefði viljað fá embætti áfram. Hann sat nú samt á biðlaunum í 5 ár og síðan á eftirlaunum. Hann hefir ekki sótt um neitt embætti, hefir líklega ekki viljað hætta á, að sjer yrði neitað, en aldrei fengið loforð um að fá embætti fyrirfram. Jeg gæti trúað, að eins fær í með þessa embættismenn, að þeir sætu á biðlaunum sinn tíma, og svo á eftirlaunum, sjerstaklega sá þeirra, sem er svo aldraður, að búast má við, að hann fari á eftirlaun eftir 5 ár hvort sem er.

Jeg hefi ekkert á móti því að samþykkja ákvæði, sem gengi í þá átt, að þeir, er hafa fje þess opinbera undir höndum, ávaxti það á reikning eigandans, en jeg veit ekki til, að nokkuð það sje í lögum, sem hindri stj. í að heimta þetta af embættismönnunum. Mjer skildist á hæstv. dómsmrh., að hann væri í vafa um þetta hvað snerti dánarbú og þrotabú. Jeg skal ekkert um það segja, en alt það fje, sem í ríkissjóð rennur, má krefjast að sje ávaxtað ríkinu til hagnaðar, án þess að nýja lagasetningu þurfi.

Hæstv. dómsmrh. vildi gera lítið úr starfsmannafjölguninni, er leiddi af skiftingunni. Hann sagði, að lögreglustjóri hefði fengið menn eftir þörfum til að aðstoða við tollgæslu. Þetta mun vera rjett. Hann hefir fengið þrjá menn eða fleiri eftir stjórnarskiftin, sem hann ekki bað um, en auðvitað þótti gott að fá, þegar stj. sendi honum þá. Jeg er tilbúinn til samvinnu um að setja ákvæði, sem hafa í för með sjer lækkun á aukatekjum þessara embættismanna í áframhaldi af því, sem fyrverandi stj. gerði og átti í stríði með að fá framgengt.

Hv. frsm. meiri hl. hefi jeg því að svara, að hann hafði ekki rjett eftir tölur, sem hann fór með, í einu atriði, og það er full von, því að jeg fór með margar tölur í minni ræðu. Jeg geri ráð fyrir, að ekki yrði ágreiningur milli minni hl. og meiri hl. um það, að greidd yrðu innheimtulaun fyrir uppboð, eins og venja er til, og einnig að skildar yrðu eftir aukatekjur vegna þeirrar áhættu, sem lögreglustjóri hefir af innheimtu. Jeg reiknaði svo út tekjur bæjarfógeta og tollstjóra í samræmi við þetta, og þær reyndust 7000 kr. lægri en launagreiðsla ríkissjóðs eftir þessu frv., þegar biðlaunin eru meðtalin. En ríkissjóður er skaðlaus meðan mennirnir eru ekki á biðlaunum. Svo kemur aukinn kostnaður við skrifstofuhald, sem jeg treysti mjer ekki til að meta, en jeg veit, að sú ráðstöfun hefir ill eftirköst utan Reykjavíkur. Það er altaf hægt að segja, að með skiftingu embætta fáist betri tilhögun á starfrækslunni, og slíkt er altaf borið fram til varnar eyðslufyrirkomulagi.

En jeg álít, að núverandi tilhögun á þessum embættum sje allgóð, og því er sjálfsagt að spara kostnaðaraukann.

Hv. frsm. var að finna að því, að jeg hafði reiknað út aukatekjurnar á árinu 1927. Ef fleiri ár hefði átt að taka, hefði orðið að taka tillit til breyttrar löggjafar, t. d. hvað verðtollinn snertir, en til þess hafði jeg ekki gögn í höndum, og því miðaði jeg við það ástand, sem nú er.

Hv. frsm. hjelt því fram, að engin hætta væri á, að kröfur mundu koma frá öðrum um að losna við tollgæsluna, af því að engar kröfur hefðu komið, þótt tvískift hefði verið í Reykjavík. Þetta er rjett, enda ekki sanngjarnt, þó að hjer væri tvískift. En þegar búið er að þrískifta hjer og fjórskifta, má ganga að því vísu, að t. d. bæjarfógetinn á Akureyri komi með þá kröfu, að skift verði hjá sjer. Jeg segi ekki, að það sje komið að þessu, en það verður áreiðanlega afleiðingin.

Hv. frsm. sagði, að mjer hefði tekist að sanna, að halli yrði einungis af þeim í 5 ár. Ja, mjer finst það þungvæg ástæða á móti frv., sem er borið fram sem sparnaðarráðstöfun, að halli er á því, þó að ekki sje nema í 5 ár. Auk þess er jeg sannfærður um það, að mikinn kostnaðarauka leiðir af auknu starfsmannahaldi vegna þessarar tilhögunar. Og jeg álít, að það megi koma fram sparnaði með því að láta embættin haldast, er draga í ríkissjóðinn stærstu aukatekjurnar, svo sem stimpilmerkjagjaldið, en það má gera með einfaldri lagabreytingu, og jeg hygg, að það mundi nema um 10 þús. kr. á ári. Og jeg get tekið undir með hv. þm. Snæf., að rjett sje að gera strax ráðstafanir í þá átt.