21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

6. mál, laun embættismanna

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Hjer er ekki um neitt nýmæli að ræða, heldur aðeins framlengingu á núverandi ástandi. Lögin um laun embættismanna frá 1919 voru framlengd á þinginu 1925, en ganga úr gildi um næstu áramót. Það er því óhjákvæmilegt að gera annaðhvort meiriháttar undirbúning til nýrrar lagasetningar eða að framlengja núgildandi lög. Jafnvel þó að stjórninni sje ljóst, að fyrirkomulagið um laun embættismanna yfirleitt kunni að vera orðið úrelt, þá er þetta hinsvegar svo umfangsmikið mál, að ekki má gera verulegar breytingar án vandlegrar athugunar og undirbúnings. Jeg álít því, að hæpið sje, að breytingum á þessum lögum verði vel ráðið til lykta, þó að þm. færu að starfa að því nú. Jeg álít, að málið væri best komið í milliþinganefnd, og væri þá eðlilegt, að embættismennirnir sjálfir fengju íhlutunarrjett um málið og ættu kost á að hafa mann úr sínum hópi í þeirri nefnd.

Jeg finn ekki ástæðu til að fjölyrða um málið að svo stöddu. Það getur ekki leikið vafi á, til hvaða nefndar á að vísa því, sem sje fjhn., og geri jeg það hjer með að tillögu minni.