12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4735 í B-deild Alþingistíðinda. (3953)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi ekki getað orðið samferða hv. meiri hl. nefndarinnar um afgreiðslu þessa máls og verð að gera nokkra grein fyrir, hvernig á því stendur. Jeg get alls ekki sjeð, að frv. leiði af sjer nokkurn sparnað, þar sem það fer fram á að búa til þrjú embætti úr tveimur. Í aths. hæstv. stjórnar er talað um 80 þús. kr. árlegan sparnað. Jeg varð hissa á þessu og skildi ekki, hvernig þessi upphæð væri fram komin. Því beiddi jeg hæstv. dómsmrh., sem er hinn raunverulegi flm. frv., við 1. umr. málsins að gefa allshn. skýrslu um það, í hverju þessi sparnaður væri fólginn. Hann kom á fund nefndarinnar og svaraði því einu, að hann væri ekki skyldugur að segja neitt um það. Því taldi jeg mjer skylt að athuga nokkuð sjálfur, hvern sparnað mætti af þessu leiða. Niðurstaða mín varð sú, að sparnaðurinn varð enginn, en þvert á móti nokkur aukin útgjöld. Sjest fljótlega, að það er ekki með neinum ólíkindum; að svo fari, þar sem fjölgað er embættum og auk þess þarf að halda uppi þrem skrifstofum í stað tveggja. Þeir, sem halda fram sparnaðinum af skiftingunni, byggja hann aðallega á því, hve miklar aukatekjur bæjarfógeti og lögreglustjóri hafa haft. Hefir verið sagt, að þær hafi jafnvel árum saman náð 50–60 þús. kr. á ári. Jeg veit ekki um verulegar aukatekjur hjá lögreglustjóra af öðru en stimpilgjaldinu, og í landsreikningi má sjá, hve miklu það hefir numið á ári. Árið 1926 var það þannig 181 þús. kr. og verðtollurinn, sem einnig er innheimtur með stimpilgjaldi, 832 þús. kr. Þar eru samtals 1013 þús. kr. Innheimtulaun lögreglustjóra eru 2%, eða um 20 þús. kr. árið 1926. Auk þess hefir lögreglustjóri nokkur innheimtulaun af iðgjaldi sjómanna til Slysatryggingarinnar, en það gjald var til meðferðar einmitt á þessu þingi, og var ákveðið að láta innheimtulaunin haldast óbreytt. Það þótti heppilegra fyrir sjóðinn, með því að þá hefði lögreglustjóri meiri hvöt til að ganga vel eftir gjaldinu, sem er í smáum hlutum og því erfitt að innheimta. En þótt þetta gjald fjelli til ríkissjóðs, hefði það ekki verulega þýðingu, þar sem það er aðeins um 2000 kr. Innheimtulaun af ellistyrktarsjóðsgjaldi og skemtanaskatti eru 1000 kr. samtals. Fleiri liði hefi jeg ekki getað fundið, og það er ljóst, að þetta nemur samtals ekki meiru en kostnaðurinn hlýtur að vera af skiftingunni. Þó að aukatekjur bæjarfógetaembættisins sjeu teknar með, er auðsjeð, að ekki verður hægt að komast af með sömu upphæð. Jeg hlýt að líta svo á, að til þess sje ætlast, að þessir embættismenn fari báðir á biðlaun, því að annars væri meiningarlaust að leggja embættin niður, þar sem auðveldlega mátti ná hinu sama með skiftingu á embættunum, þannig að innheimtur lögreglustjóra væru settar undir nýjan embættismann. Þá mátti og ná sparnaðinum með því að taka innheimtulaunin af stimpilgjaldinu af lögreglustjóra. Til þess þurfti ekki nema einfalda lagabreytingu. — Annars sje jeg enga knýjandi ástæðu til að skifta nú embættum þessum að nýju. Það er ekki lengra síðan en 1917, að þáverandi bæjarfógetaembætti var skift og stofnað lögreglustjóraembættið. Störfin hafa ekki aukist svo síðan, að nú þurfi þrjá embættismenn þar, sem áður var einn.

Ef báðir þessir menn fara á biðlaun, sem lögum samkvæmt eru 9500 kr. til hvors á ári í 5 ár, eða samtals á ári 19000 kr., hygg jeg, að láta muni nærri, að árleg gjöld ríkissjóðs aukist um 7500 kr., án þess að talinn sje kostnaður af hinni nýju skrifstofu, sem setja yrði upp. En á móti henni gæti það komið, að bæjarfógeti sparaði einn af núverandi fulltrúum sínum. En mjer virðist ómögulegt að heimta, að tollstjóri innheimti allar þær upphæðir, sem honum er ætlað, og beri ábyrgð á þeim, ef hann fær ekki einhverja borgun fyrir ábyrgðina. Hæstv. dómsmrh. hefir einnig fallist á, að eitthvert mistalningarfje þurfi að ætla honum, enda innheimtir hann um 6 milj. kr. á ári í ótal stöðum. Verða aukin útgjöld þá nálægt 10 þús. kr. á ári, meðan núverandi embættismenn njóta biðlaunanna. Raunar má segja, að ekki sje alveg víst, að mennirnir fari á biðlaun, en þó hygg jeg það nokkurnveginn víst, a. m. k. um annan þeirra. Og eins og jeg sagði, sýnist það vera tilætlun hæstv. stjórnar, að þeir fari frá, fyrst embætti þeirra eru afnumin. Þeir verða þá að sækja um embættin á ný, og það efast jeg um, að þeir geri. Því að samkv. þeim reglum, sem giltu, er þeir tóku við embætti, fá þeir báðir biðlaun, sem eru jöfn hæstu embættislaunum. Ef þeir hjeldu embættunum, yrða þeir því að láta vinnukraft sinn fyrir ekki neitt næstu fimm ár. Og jeg efast um, að þeir kæri sig um það, ekki síst þar sem út lítur fyrir eftir frv., að hæstv. stjórn vilji losna við þá úr embættunum.

Það er ekki stórt atriði í þessu sambandi, en þó vil jeg geta þess, að jeg kann mjög illa við „lögmanns“-nafnið á einum þessara embættismanna. Það er sögulega rangt að nefna hann svo. Embætti lögmannanna var bundið við miklu stærra svæði, og því á ekki við að láta dómarann í Reykjavík heita því nafni. Það væri miklu nær að kalla manninn dómara, þótt það heiti sje varla nægilega víðtækt, eða að halda bæjarfógetanafninu eins og hingað til.

Aðalatriðið fyrir mjer er það, að jeg sje ekki ástæðu til að mynda hjer þrjú embætti úr tveimur. Það hlýtur að verða dýrara. Jeg veit, að tollstjóri kemst ekki af án þess að hafa eitthvert fje til að mæta þeim misfellum, sem óhjákvæmilega verða á innheimtunni. Það er ómögulegt að innheimta 6 miljónir króna á ári án þess að brenna sig eitthvað á því. Jeg skil ekki, að nokkur maður þori að taka á sig þá ábyrgð án þess að hafa einhverja árlega upphæð til þess að mæta skakkaföllum. Enginn innheimtumaður er svo óskeikull, að honum geti aldrei skjátlast, þegar hann þarf oft að innheimta, telja og afhenda upphæðir, sem nema hundruðum þúsunda. Jeg tala ekki um það, ef tollstjóri lenti á ótrúum þjónum, en á mistökum þeirra ber hann lagalega ábyrgð. –Þeir, sem við slíkar innheimtur hafa fengist, vita allir, að ætíð misferst nokkurt fje, enda hefir hæstv. dómsmrh. nú fallist á, að ætla verði tollstjóranum eitthvað í þessu skyni. En hann vill víst fyrst sjá, hvort ekki fæst einhver góður maður í embættið, og mun vilja veita honum einhverja uppbót síðar, ef til kemur. En það er ekki víst, að hæfir menn fáist til að sækja um embættið, ef svona er frá gengið.

Af þeim ástæðum, sem nú hafa verið taldar, get jeg ekki lagt til, að frv. sje samþykt.