12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4750 í B-deild Alþingistíðinda. (3957)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Hæstv. dómsmrh. sagði, að fyrir sjer vekti tvent. Annað að endurbæta framkvæmdina á rekstri þessara embætta, og svo að spara.

Til þess að benda á nauðsyn þess að bæta rekstur embættanna nefndi hann, að bæjarfógetinn væri mjög störfum hlaðinn við dóma og að til dæmis úrskurðir um húsrannsókn gætu dregist vegna þess að lögreglustjóri þyrfti fyrst að biðja um þá hjá bæjarfógeta. Það er rjett, að bæjarfógetinn dæmir mjög marga dóma, en ekki alla sjálfur, heldur lætur hann fulltrúa sína dæma suma þeirra. Um húsrannsóknarúrskurði er það að segja, að þeir munu altaf kveðnir upp samstundis eftir símtali frá lögreglustjóra. Það tekur ekki meira en 5 mínútur. Jeg hefi verið settur bæjarfógeti hjer og veit, hvernig þetta er. Jeg skal hinsvegar viðurkenna, að embættin væru betur rækt af þremur mönnum jafngóðum en af tveimur. En ef við færum eftir þeirri reglu um embættin í landinu yfirleitt, þá gætum við komist nokkuð langt í að fjölga mönnum. Jeg álít, að rekstur þessara embætta sje í svo góðu lagi, að ekki sje neitt út á hann að setja, enda mun ekki hafa verið yfir honum kvartað.

Þetta um endurbætur á rekstri embættanna er í mínum augum ekki mikils virði, að minsta kosti ekki svo mikils virði, að jeg vilji þess vegna leggja út í þann aukakostnað, sem jeg tel, að frv. leiði af sjer.

Jeg kem þá að síðara atriðinu, að þetta fyrirkomulag mundi verða ódýrara fyrir ríkið. Hæstv. ráðh. reyndi ekki nú frekar en áður að sýna fram á, hvernig hann fengi út þennan mikla sparnað, enda veit jeg, að það er engin leið fyrir hann að rökstyðja það. En merkilegt má það teljast, að slá því fram í aths. við frv., að 80 þús. kr. sparnaður sje að því á ári, og neita svo að sýna, hvernig sú upphæð er fengin fram. Hann færði þó tvent sem ástæðu fyrir því, að það hlyti að verða einhver sparnaður að þessu. Annað var það; að einhver íhaldsritstjóri hefði sagt, að miklar aukatekjur væru samfara þessum embættum, eða öðru um 40 þús. og hinu um 80 þús. krónur, eða samtals um 120 þús. kr. Jeg verð nú að segja það, með allri virðingu fyrir þessum íhaldsritstjóra, að jeg skil ekki í, að hann geti vitað betur um þetta en jeg, nje haft betri aðstöðu til að rannsaka það.

Þá nefndi hæstv. ráðh. almannaróminn og hjelt, að eitthvað mætti á honum byggja. Það mun vera, að almannarómurinn hafi rjett fyrir sjer í því, að embættin sjeu tekjuhá, en að hanni viti nákvæmlega, hve miklar tekjurnar eru, því hefi jeg enga trú á. Slíkt er fljótt að ávaxtast í munni almennings, sem staðfestingu á þessum orðrómi nefndi hæstv. ráðh., að lögreglustjóri hefði einu sinni haft 9500 kr. útsvar og ekki kært. En það út af fyrir sig er engin sönnun þess, að hann hafi 80 þús. kr. laun. Útsvörin eru lögð á eftir efnum og ástæðum, og það er vitanlegt, að lögreglustjóri er sterkefnaður maður og var orðinn það áður en hann tók við þessu embætti. Hann var áður í feitu embætti og hann varð fyrir því happi að kaupa stórt hús fyrir lítið verð og hafði miklar tekjur af því á stríðsárunum. Lögreglustjórinn er þannig mjög vel efnaður og kannske stórríkur maður, og var hví eðlilegt, að hann bæri hátt útsvar, en sönnun fyrir svona miklum tekjum af embættinu held jeg að þetta geti ekki talist, heldur miklum eignum. Það er fleira tekið til athugunar við niðurjöfnun útsvara en tekjurnar einar. Það er alveg víst, að niðurjöfnunarnefnd hefir ekki álitið, að hann hafi haft 80 þús. króna tekjur þetta ár. Jeg sje það af samanburði á mínum tekjum og mínu útsvari, að það getur ekki verið. Það er svo um þá, sem eiga miklar eignir, að þeir hafa líka miklar tekjur af þeim. Útsvarsupphæðin er þannig engin sönnun um það, að tekjur af embættinu hafi verið 80 þús. Það getur eins verið, að þær hafi ekki verið nema 20–25 þús. kr.

Það er rjett hjá hæstv. ráðh., að skattanefndin veit um tekjur þessa manns eins og annara. En það er leyndarmál, sem ekki verður frá skýrt.

Hæstv. ráðh. sagði, að bæjarfógetinn hefði viðurkent í Ed., að tekjur hans hefðu komist upp í 25 þús. krónur. Jeg rengdi það alls ekki, þegar hæstv. ráðh. sagði það, en jeg benti honum á, að frá þeirri upphæð yrði að draga föstu launin, til þess að sjá, hve mikið væri hægt að græða á því að breyta lögunum, og í mínum útreikningi gekk jeg út frá, að við breytinguna kæmu 15 þús. frá þessu embætti, en þær mundu jetast upp við skiftinguna, og meira en það.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um arð af geymslufje búa og ríkissjóðs. Það er þá, ef það er nokkuð, af fje ríkissjóðs, því að vextir af geymslufje búa eiga að ganga til þeirra, sem fjeð eiga. Hitt getur komið til álita, en jeg vil um lögreglustjórann hjer upplýsa það, að hann borgar í ríkissjóð vikulega. Hann hefir skipun um að borga í vikulok alt, sem inn kemur yfir vikuna, og jeg geng út frá, að hann hafi sjerstaka „kontó“ í bankanum fyrir fje ríkissjóðs og að ríkissjóður eigi þá vexti. Jeg skil því ekki, að um miklar tekjur geti verið að ræða af þessu.

Jeg hygg, að lögreglustjórinn hafi mjög góða reglu á þessu. Jeg þekki hann vel, því að jeg hefi verið starfsmaður hjá honum í 6 ár og jeg hefi ekki þekt samviskusamari mann.

Jeg get ekki sagt um sýslumenn, hvort þeir hafa fje á vöxtum á eigin reikning, en það mun fátítt yfirleitt, að skiftaráðendur hafi mikið fje til geymslu. Hitt er rjett, að þegar búum hefir verið skift, er ekki hægt að greiða vexti, því að erfingjarnir geta tekið út fjeð hvenær sem er, enda mundi það rugla hlutum milli erfingjanna og erfðafjárskatti til ríkissjóðs. Jeg hefi álitið, að þegar um verulegar upphæðir er að ræða, þá sje altaf haldin sjerstök bók fyrir hvert bú. Jeg hefi verið viðriðinn þó nokkur skifti hjer í bænum, og altaf, þegar um nokkrar verulegar peningaupphæðir hefir verið að ræða, hafa búinu verið færðir vextir til tekna og komið til skifta. Hvort þetta er svo annarsstaðar, veit jeg ekki, og jeg þekki auðvitað ekki öll tilfelli hjer, en hitt get jeg fullyrt, að ekki þyrfti annað en umburðarbrjef frá dómsmálaráðuneytinu til þess að tryggja það, að þessari reglu sje alstaðar fylgt. Jeg get bætt því við, að þegar jeg var sýslumaður, hafði jeg aldrei einn eyri upp úr slíkum vöxtum. Það var reyndar ekki banki á þeim stað, sem jeg var. Jeg hefði ef til vill fallið fyrir freistingunni, ef svo hefði verið, en jeg álít, að þetta fje eigi ekki að standa á reikningi embættismannanna, heldur þess, sem það á, og til þess að tryggja það, þarf ekki neitt lagaboð, heldur aðeins umburðarbrjef.

Jeg skal viðurkenna, að lögreglustjórinn hafi háar tekjur. En þess verður að gæta, að hann er eini emættismaðurinn á landinu, sem á kröfu til slíkra launa, vegna þess að hann hefir aldrei gengið undir launalögin frá 1919. Hann gekk aldrei undir þau lög, vegna þess að hann sá, að það var honum skaði. Næsti lögreglustjóri mundi þannig ekki hafa nándar nærri eins há laun.

Að þannig vöxnu máli, þegar fyrst og fremst ekki er hægt að kvarta undan slæmum rekstri embættanna og ekki heldur hægt að sýna fram á með neinum rökum, að sparnaður verði af skiftingunni, þá get jeg ekki talið rjett að samþ. þetta frv. Það má að vísu gera ráð fyrir, að skiftingin komi fyr eða síðar, en henni liggur ekkert á. Nú er svo mikið talað um embættafjöldann í landinu og hinn mikla kostnað, sem þeim sje samfara, að mjer finst, að ekki ætti að gera leik að því að fjölga þeim að nauðsynjalausu. Hæstv. dómsmrh. hefir talað um, hve nauðsynlegt væri að fækka embættum, og jeg er honum alveg samdóma um það. Hjer er farið inn á alt aðra braut og ekki af neinni knýjandi nauðsyn.

Hæstv. ráðh. sagði í lok ræðu sinnar, að ekki yrði neinn aukakostnaður af skiftingunni. Það munar nú miklu, hvort á henni mundi verða 80 þús. króna gróði eða hvort ekki yrði um verulegan aukakostnað að ræða, og er nú hæstv. ráðh. kominn alllangt frá því, sem hann hjelt fram í fyrstu. Jeg skal viðurkenna, að ef um sparnað hefði verið að ræða nokkuð í áttina við það, sem jeg nefndi áðan, þá hefði verið sjálfsagt að samþ. þetta.

Hæstv. ráðherra áleit, að eitthvað mætti spara af mönnum. Eitthvað af fulltrúum.

Bæjarfógetinn hefir 3 fulltrúa. Þar af er einn fyrir Reykjavíkurbæ og kemur því málinu ekki við; án hans er ekki hægt að vera. Annar fer með sakamál og opinber lögreglumál. Hann sparast, en á móti kemur lögreglustjórinn sjálfur. Það, sem sparast, er því aðeins einn fulltrúi, en á móti þeim sparnaði kemur annað mannahald, því að þegar skrifstofunum fjölgar, leiðir það af sjer, að fjölga þarf starfsmönnunum. — Nú gegna lögregluþjónar bæjarins ýmsum þeim störfum, sem tollstjóri þarf að láta framkvæma, en við skiftinguna yrði að fá nýja menn til þess.

Að síðustu talaði hæstv. ráðh. um hina óskiftu samúð með þessu frv. Jeg býst við, að hann eigi þar við meiri hl. bæjarbúa, en annars veit jeg ekki, hvernig hann hefir fengið að vita um óskir manna í því efni, því að á meðan bæjarbúar hafa enga ástæðu til að kvarta yfir þeim mönnum, sem nú gegna embættunum, hygg jeg, að þeir láti sig litlu skifta, hvort embættunum gegna 2 eða 3 menn.

Hv. frsm. meiri hl. ræddi um þann sparnað, er af skiftingunni myndi leiða. Jeg hefi nú svarað því og sýnt fram á, að einungis einn fulltrúi sparast á þennan hátt, en í stað hans koma aðrir starfsmenn.

Hv. frsm. meiri hl. upplýsti einnig, að þessir tveir menn hefðu 50 þús. kr. í tekjur árlega báðir til samans. Það kann að vera, en þar er eftir að draga frá föst laun. Ennfremur er ekki úr vegi að gæta þess, að í stað þeirra tveggja manna, sem nú eru launaðir, koma þrenn laun, og meira að segja verða launin fimmföld, þar sem ráð er fyrir því gert, að þeir menn, er nú eru í embættunum, fari á biðlaun næstu 5 árin. Laun þessara 5 manna næstu 5 árin verða að óbreyttri löggjöf 5X9500 = kr. 47500.00. Þá eru 2500 kr. eftir til þess að standast kostnað af 3. skrifstofunni, og sjá allir, að það er ekki nema 5. eða 6. hluti þess, sem þarf. Annars er hv. frsm. meiri hl. hjer í skemtilegri mótsögn við hæstv. ráðh., sem segir tekjur þessara manna tveggja 120000 kr. á ári. Það eru 70000 kr., sem milli þeirra ber. Með öðrum orðum, hv. frsm. meiri hl. er mjer að mestu leyti sammála.

Háttv. frsm. þótti ólíklegt, að lögreglustjórinn, sem nú er, myndi segja af sjer, þar sem hann væri ennþá ungur maður. Jeg hygg, að hann muni vera 56–57 ára gamall, svo að það er álitamál, hvort hann getur talist ungur lengur, en hitt er rjett, að það er ólíklegt, að hann sækti um lausn frá embætti. En eins og frv. er orðað, verður hann að fara, af því að embættið er lagt niður, og sækja síðan aftur, ef hann hefir hug á að gegna embættinu áfram. Jeg veit ekki, hvort þessi maður vill heldur fá full laun án þess að starfa eða sömu laun og starfa áfram, en mjer þykir ekki ólíklegt, að maður, sem á svo mikla starfskrafta ónotaða, vilji ef til vill nota þá til einhvers annars, einkum þar sem hjer er maður, sem hefir löngun til þess að starfa að fræðilegum efnum, og ætti því ekkert að vera honum kærkomnara en að fá frí til þeirra iðkana.

Eitt er það enn, sem mjer finst athyglisvert í frv., og það er, að stjórnin hefir heimild til að setja eins marga tollverði og henni þóknast. Veit jeg ekki, hvort það er meiningin að lögfesta alla þessa nýju tollgæslumenn á þann hátt, sem sagt er, að hæstv. ráðh. hafi sett til bráðabirgða.

Jeg vil í þessu sambandi nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. ráðh., hve margir þessir nýju tollgæslumenn eru, því að mönnum ber ekki saman um töluna. Segja sumir, að þeir sjeu jafnvel orðnir 12, aðrir segja 6, en um 4 er vitað, og væri gott, ef hæstv. ráðh. vildi gefa upplýsingar um það, hvað þeir eru margir í raun og veru.