12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4760 í B-deild Alþingistíðinda. (3959)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Hákon Kristófersson:

* Hæstv. ráðherra vildi láta líta svo út, sem jeg vildi sjá hagsmunum einstakra manna sem best borgið, en vildi bera hag þjóðfjelagsins fyrir borð, og að störfin ættu aðeins að vera til fyrir mennina.

Það er merkilegt, að hæstv. dómsmrh. skuli hafa missjeð sig á svo auðveldum hlut, þar sem jeg talaði svo fyrir till. minni, að jeg væri grundvallaratriðum frv. alveg samþ., en vildi benda á aðra leið til sömu niðurstöðu. Jeg hefi nú bent á aðra aðferð, sem leiðir af sjer sömu niðurstöðu og efst er á baugi hjá hæstv. dómsmrh. Hv. 1. þm. Skagf. hefir sýnt fram á, hvernig ná mætti á sanngjarnan og hagfeldan hátt jöfnuði í launum. Jeg skil því ekki vel, hvers vegna hæstv. ráðh. vill endilega leggja niður embættin. Fyrir mjer vakir það, að þeir menn, sem teljast í fremstu röð embættismanna þessarar þjóðar, þyrftu ekki að hrekjast úr stöðum sínum. Hinsvegar finst mjer ekki rjett, að þeir beri miklu meira frá borði en aðrir embættismenn, og get jeg því til sönnunar skírskotað til afstöðu minnar, er launamálið var til umræðu á þingi. Þá hjelt jeg því fram, að þeir ættu aðeins að hafa sæmileg laun, en ekki aukatekjur.

Það er því ómaklega mælt, að brtt. mín beri það með sjer, að frv. sje gott, ef ekki sjeu skertir hagsmunir þessara sjerstöku embættismanna.

Jeg hefi tekið fram, að ef hægt væri að sanna sparnað við breytinguna, sem ekki hefir enn verið gert, þá má láta hana koma til framkvæmda, þegar embættin losna. En sífelt hringl með embættin leiðir til þess, að engir sæmilegir menn fást til að sækja um þau.

Jeg vænti, að svo sanngjarn maður sem hæstv. dómsmrh. er sjái, að ekki má áætla tekjur þessara manna eingöngu eftir útsvörum þeirra. Háttv. 1. þm. Skagf. hefir sýnt mjög rækilega fram á það. Útsvör og eignasöfnun geta grundvallast á mörgu. Núverandi lögreglustjóri hefir t. d. sennilega haft stórkostlegar tekjur, meðan hann var í stjórnarráðinu, og býr að því. Bæjarsögum er varlega treystandi, enda nefna þær misjafnar upphæðir, sumar 50 þús. kr., aðrar 80 þús. Eitt sinn gekk sú saga hjer um bæinn, að hæstv. ráðh. hefði haft 9500 kr. árslaun sem skólastjóri, auk hita og ljóss, og þar fyrir utan ýmsar aukatekjur fyrir ritstörf sín. Þetta er sjálfsagt ósatt. Jeg er viss um, að hann hefði ekki viljað þiggja svo mikið fje.

Hæstv. ráðh. er áhugamál að takmarka launagreiðslur, og jeg er honum sammála um það, og sjerstaklega, að ójöfn laun sjeu óheppileg. Hann sagði, að sumir hjeraðslæknar mundu hafa 30 þús. kr. árlega. Jeg held, að þetta geti varla verið, nema þá í stærstu bæjum.

Hæstv. ráðh. má ekki taka mjer það illa upp, þó að mjer finnist óviðkunnanlegt hjá honum að nefna upphæðir án þess að greina frá sjerstökum tekjum. Þær verða að vera undirstaða heildarútreiknings. Hann vill byggja á umtali og segir, að allir viti þetta. En mjer var það t. d. ókunnugt.

Þá sagði hæstv. ráðh., að jeg vildi breyta embættunum þegar viðkomandi embættismenn væru farnir frá. Jeg þykist vita, að hann misminni þetta, því að við flm. brtt. höfum tekið fram, hvað fyrir okkur vekti. Hann má heldur ekki skilja mig svo, að jeg haldi að þessir menn geti ekki lifað án embættanna. Þeir hafa sjálfsagt dug og vilja til að sjá fyrir sjer á annan hátt. En mjer sárnar, að færustu embættismenn þjóðarinnar sjeu settir á há biðlaun fyrir ekkert starf.

Svo skal jeg enn taka það fram, að jeg get fallist á grundvallarhugsun frv. Jeg er á móti því, að einstakir starfsmenn ríkisins hafi óeðlilega háar tekjur.

Hæstv. ráðh. var að leita sjer stuðnings í ummælum íhaldsritstjóra eins. Jeg skil þetta sem gaman, því að hingað til hefir þessi hæstv. ráðh. ekki tekið mikið tillit til orða íhaldsmanna. En vera má, að hjer rætist máltækið, að „góður er hver genginn“, og hann sjái nú, að þessi ritstjóri átti gott skilið.

Lýk jeg svo máli mínu, en vænti þess, hvað sem hæstv. dómsmrh. segir, að allir sanngjarnir menn álíti brtt. rjettmæta.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.