12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4764 í B-deild Alþingistíðinda. (3961)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal ekki vera margorður, enda eru nú flestir farnir úr deildinni, en jeg þarf að svara hæstv. dómsmrh. nokkrum orðum. Hann sagði, að jeg hefði misskilið sig. Mjer þykir leiðinlegt, ef svo hefir verið, en jeg get ekki fundið, að jeg hafi gert það. Jeg finn, að hæstv. ráðh. er ekki eins viss um sparnaðinn og áður. Sjálfur hefi jeg altaf haldið því fram, að embættin mundu verða betur rækt, ef þau væru 3 en 2, en þó svo framarlega, að færir menn fáist í þau.

Hæstv. ráðh. sagði, að frv. væri ekki borið fram til þess að gera þessum mönnum ilt. En hann sagði, að jeg og hv. þm. Barð. værum á móti því af umhyggju fyrir þeim. Hv. þm. Barð. er ekki á móti frv. En jeg held einmitt, að hæstv. ráðh. sje alt of góður við þessa menn, að leggja niður embættin. Hann hefði heldur átt að draga frá þeim störf. Væri sú leið farin, ættu þeir enga heimting biðlauna. Þetta álít jeg óheppilegt, og sjálfsagt er það ekki af umhyggju hæstv. ráðh. fyrir þessum mönnum, heldur hinu — eða a. m. k. lítur svo út —, að hann vill losna við þá úr embættunum, hvað sem það kostar.

Jeg skal ekki fara mikið út í einkahag lögreglustjóra. En jeg hygg, að hæstv. ráðh. hafi átt við útsvar hans á síðasta ári. En það sannar lítið í þessu máli, því að einmitt á því ári mun honum hafa tæmst arfur eigi lítill, og því eðlilegt, að hann hefði hátt útsvar. Annars nær engri átt að bera saman útsvör nú og fyrir stríð.

Hæstv. ráðh. hefði getað náð marki sínu með tveim aðferðum öðrum en þeirri, sem hann valdi: með því að breyta lögum um stimpilgjald og með því að stofna nýtt embætti. Að hann nú velur hvoruga þessa leið, getur ekki skilist öðruvísi en að hann vilji sýna þessum embættismönnum, að þeir megi fara, þó að það kosti biðlaun í 5 ár, eða undir 100 þús. kr.

Um launakjör þessara manna ætla jeg ekki að tala frekar. Það þýðir ekkert fyrir okkur að þræta hjer um það, en reynslan mun skera úr, hver sparnaðurinn verður.

Hv. frsm. meiri hl. þarf jeg engu að svara. Hann vill umfram alt skifta lögreglustjóraembættinu og hirðir ekki, þó að það auki kostnað. (GunnS: Jeg álít, að af því verði sparnaður). Eftir að 5 ár eru liðin, sagði hv. þm., en á 5 árum getur margt skeð. Þessi lög geta verið upphafin innan þess tíma. Og ekki þætti mjer ólíklegt, að eftir 5 ár yrði orðinn meiri kostnaður við hinar 3 skrifstofur en menn gera sjer grein fyrir nú.

Mjer þykir leiðinlegt, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki vilja svara fyrirspurn minni um fjölda tollþjónanna. En ekki get jeg verið að ganga lengur eftir svari, þegar jeg sje, hve óljúft honum er það.