18.02.1928
Efri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4767 í B-deild Alþingistíðinda. (3969)

100. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er að miklu leyti samhljóða lögum um sama efni frá 27. júní 1921. Að vísu eru nokkrar breytingar í þessu frv., sem miða að því að gera tryggari ákvæðin um sölu áfengis, en aðalbreytingarnar eru fólgnar í því, að hægt er eftir þessu frv. að reka verslun með þessa vöru með nokkru minni kostnaði en verið hefir.

Þetta eru að vísu aðalbreytingarnar, en auk þess er ein allmikilvæg breyting frá því, sem nú er í lögum. Það er ákvæði um álagningu á þær vörur, sem þessi verslun selur. Í núgildandi lögum er heimilað að leggja á vínanda 25–75% af verði varanna, þegar þær eru hingað komnar, en í þessu frv. er gert ráð fyrir að heimila álagningu, er nemi frá 50–100%.

Þessi breyting virðist í alla staði rjettmæt, vegna þess að hjer er um varning að ræða, sem ekki er hægt að telja nauðsynjavöru, og þótt af þessu kynni að leiða eitthvað minni sölu, þá teljum við flm. það ekki neinn skaða.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál við 1. umr. þess, og þótt jeg hafi að vísu farið hjer út í einstök atriði, þá verð jeg að telja það heimilt, með því að þar með hefi jeg aðeins lýst því, hverjar aðalbreytingar sjeu gerðar á núgildandi lögum, ef frv. þetta verður samþykt.

Vil jeg svo mælast til þess, að frv. fái að ganga til 2. umr. og að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til allshn.