21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

6. mál, laun embættismanna

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það er í raun og veru mjög lítið tilefni fyrir mig að standa upp, því að jeg sje naumast annað en háttv. 1. þm. Reykv. sje nokkurn veginn sammála því, sem fram hefir komið í málinu. Hann er því sammála, að litlar líkur sjeu til þess, að þingið muni geta gengið frá málinu nú, svo að viðunandi sje. Það er auðvitað, að Samband starfsmanna ríkisins heldur altaf á lofti þeirri sömu kröfu, sem kom fram á síðasta þingi. Þarf varla að taka það fram sjerstaklega. Auðvitað er enginn annar vegur en að leggja málið fyrir þingið. En undirbúningur allra starfa, sem nauðsynleg voru fyrir þing, var langtum styttri en áður hefir átt sjer stað. Það hljóta allir að sjá, að þar sem stj. hefir ekki setið meira en 4 mánuði og hefir öllum venjulegum störfum að gegna auk undirbúnings margra mála. Og þegar þar við bætist, að þingið hefst nálega mánuði fyr en venjulega, þá hygg jeg öllum hljóti að vera ljóst, að það verði ekki með nokkurri sanngirni heimtað af stj., að hún geti komið með rækilega undirbúin önnur eins stórmál og þetta, sem hjer er um að ræða.

Jeg hygg því, að þetta mál sje á rjettri leið. Till. er borin upp um það, að þetta ástand, sem nú er, haldist þangað til annað nýtt og betra er fundið. Því að jeg geri fastlega ráð fyrir, að það hefði ekki þótt viðeigandi að láta þetta ákvæði um dýrtíðaruppbót — enda þótt hún þyki af skornum skamti — niður falla án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Jeg tel því, að stj. hafi ekki átt annars úrkostar en bera málið fram eins og hún hefir gert.