11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

6. mál, laun embættismanna

Frsm. (Hannes Jónsson):

Jeg býst ekki við að þurfa að vera margorður um þetta frv. Nefndin hefir orðið sammála um að mæla með, að það nái fram að ganga. Dýrtíðaruppbót á launum embættismanna, sem ákveðin er með lögum frá 1919 og breytingu á þeim lögum frá 1925, getur að álíti nefndarinnar á engan hátt niður fallið. Fyrir nefndinni hafa legið ýms gögn viðvíkjandi breytingum á dýrtíðaruppbótinni, sem mundu valda ríkissjóði allmikilla útgjalda. Ef farið yrði að kröfum Sambands embættismanna ríkisins, mundi það kosta ríkissjóð hjer um bil 293 þús. kr., en eins og fjárhag ríkisins er nú háttað, sjer nefndin ekki fært að mæla með slíku. Hún hefir komist að þeirri niðurstöðu, að eins og nú standa sakir, muni ekki annað heppilegra en að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Að öðru leyti vill nefndin, að stj. undirbúi framtíðarskipulag launamálanna, eftir því sem unt er, fyrir næsta þing. Það er augljóst, að þetta þing getur ekki gengið svo frá þeim málum, að vel sje. Á meðan verðlag í landinu er ekki búið að jafna sig betur genginu, er enginn grundvöllur fenginn, er hægt sje að byggja á. Búreikningsvísitala hagstofunnar er stöðugum breytingum undirorpin. Síðustu árin hefir hún lækkað töluvert, og jeg býst við, að enn eigi eftir að verða á henni breytingar svo mikilvægar, að endanlegt skipulag launamálanna geti ekki komið til greina, fyr en jafnvægi er fengið.

Tveir nefndarmenn hafa skrifað undir nál. með fyrirvara. Jeg býst við, að þeir geri grein fyrir sinni sjerstöðu, en hún er í því fólgin, að þeir taka sjerstaka aðstöðu til undirbúnings launamálanna. En jeg get ekki ætlað, að sú endanlega ákvörðun verði tekin, fyr en á því ári, sem ákvæðin um dýrtíðaruppbótina ná síðast yfir. Það virðist því vera nægur tími til stefnu, ef frv. það, sem hjer liggur fyrir, nær fram að ganga. Það, sem fyrir mjer vakir persónulega, er það, að stjórnin athugi launamálin fyrir næsta þing og rannsaki þá einkum grunnlögin frá 1919, svo hægt væri að leiðrjetta; ef ástæða væri til, hlutföllin í launakjörum embættismannanna. Það er einkennilegt, hvað grunnlaunin hækka afskaplega misjafnt hjá hinum ýmsu embættismönnum. Og það er merkilegt, að einmitt þeir embættismennirnir, sem fastast hafa staðið saman og haldið fram kröfum um launahækkun, eru í hæsta hækkunarflokkinum.

Jeg hygg, að undirbúningur stjórnarinnar geti ekki orðið svo ákveðinn og víðtækur, að þegar á næsta þingi verði hægt að byggja á honum til fulls. Á undanförnum árum hefir ekki tekist að finna hagkvæmari grundvöll fyrir laun embættismanna en þann, sem bygt var á 1919, enda hefir, mjer vitanlega, ekkert verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar síðan 1925 til þess að finna slíkan grundvöll. Fyrv. fjmrh. lýsti því yfir á þinginu 1925, að sú aðferð, sem farin var 1919 til þess að bæta embættismönnum upp laun þeirra í hlutfalli við dýrtíðina í landinu, hefði gengið svo nærri sanngirniskröfum þeirra, að önnur leið væri ekki líklegri til betri árangurs í því efni.