13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4781 í B-deild Alþingistíðinda. (4007)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Halldór Stefánsson:

Jeg kann ekki við, að þetta mál fari svo til 2. umr. að ekki sje á það minst. Það hefir nú ár eftir ár verið leitað þessarar sömu undanþágu fyrir Íslandsbanka frá að innleysa seðla sína úr umferð eins og áður hefir verið ákveðið með lögum. Þótt þessi undanþága hafi verið samþykt þing eftir þing, hefir jafnan fátt verið gefið upp um ástæður fyrir undanþágunni. Jeg vil nú spyrja, hvort þingið hafi ekkert meint með þeim reglum, sem það setti um seðlainndráttinn, hvort þær hafi verið settar út í bláinn og sjeu í raun og veru vitleysa tóm og ágengni við bankann.

Samkvæmt 64. gr. landsbankalaganna er Landsbankanum gert að skyldu að endurkaupa viðskiftavíxla, sem nemi 5/8 þeirrar upphæðar, sem Íslandsbanki hefir á hverjum tíma dregið inn af seðlaveltu sinni, miðað við 31. okt. 1922; en þá telst bankinn hafa úti 8 miljónir króna. Og þegar bankinn hefir dregið inn alla seðla sína, fær hann 10 ára frest til að leysa inn þessar 5 milj., sem er sama sem að Landsbankinn eigi þá að leggja Íslandsbanka til 5 milj. kr. stofnfje. Jeg vil nú spyrja, hvort þetta sje ekki að ganga lengra í umhyggju fyrir Íslandsbanka heldur en Landsbankanum, sem á þó að bera aðalþungann í fjármálum þjóðarinnar inn á við og út á við og hafa ábyrgð á peningagildi voru.

Þess má geta, að Íslandsbanki hefir nú nýlega sýnt viðskiftamönnum mikið harðræði með því að segja upp gömlum og krosstrygðum lánum, þótt hann hafi að vísu boðið víxla í staðinn. Aftur á móti hefir hann lánað svo óvarlega fje til stærri lánþega, að hann hefir tapað stórum upphæðum á því. Það virðist því svo, að afstaða bankans gagnvart stærri og smærri viðskiftamönnum hans sje ekki eins gagnvart hvorumtveggja. Út af þessu er ástæða til að spyrjast fyrir um, hvað Íslandsbanki ætlist fyrir með þessari framkomu gagnvart sumum sínum viðskiftamönnum.

Eins og á stendur, er bankinn annarsvegar leitar nýrra hlunninda eða styrks frá ríkinu, en breytir svo hinsvegar við viðskiftavini sína, sem jeg hefi sagt, án þess ástæður sjeu til þess færðar, þá sýnist ekki vanþörf á að hafa meira eftirlit og aðgæslu um rekstur bankans og hag en verið hefir, ef veita á honum hlunnindi athugasemdalaust æ ofan í æ.

Maður fær ekkert að vita um ástæður fyrir þessari beiðni. Íslandsbanki nýtur þó ýmiss styrks af ríkinu og mikið af starfsfje hans er á ábyrgð ríkissjóðs, þ. e. stór hluti af enska láninu. Væri ástæða til að upplýsa þingið um tryggingar fyrir þessu láni.

Jeg vildi ekki, að málið gengi fram án þess að minst væri á þessar ástæður, og ef til vill fleiri. Vildi jeg mælast til þess, að þinginu yrðu veittar upplýsingar um þessi atriði, sem jeg hefi vakið máls á.