11.02.1928
Neðri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

6. mál, laun embættismanna

Sigurður Eggerz:

Jeg vil leyfa mjer í stuttri aths. að gera grein fyrir, í hverju fyrirvari minn liggur. Jeg er því ekki mótfallinn, að stj. verði falið að rannsaka þetta mál, en jeg álít, að málið sje svo mikilvægt, að sjálfsagt sje að skipa nú þegar milliþinganefnd, er taki það til meðferðar. Jeg vil geta þess, þó að það að vísu ráði engu sjerstöku um þetta, efni, að embættismenn ríkisins hafa eindregið borið þá ósk fram, að þeir mættu hafa mann úr sínum hópi í milliþinganefndinni.

Þá vil jeg benda á eitt atriði, sem jeg tel vera mikinn galla á þessu máli. Það er sem sje gerður alt of lítill munur á þeim embættum, sem eru erfið og vandasöm, og hinum, sem eru ljett og heimta litla vinnu. Þó að lítið sje burt frá embættismönnunum sjálfum, þá hefir það mikla þýðingu fyrir þjóðina, að gerður sje munur í þessu efni. Engum blandast hugur um, að það skiftir miklu, þegar um vandasöm embætti er að ræða, að í þau fáist hæfileikamenn. Ef þau eru launuð betur en önnur embætti, skapar það kapp hjá embættismönnunum um að verða sem færastir til að gegna slíkum embættum. Jeg vil benda á það, að áður en lögin frá 1919 gengu í gildi, voru viss embætti, t. d. bæjarfógetaembættið á Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði og í Reykjavík, talin alveg sjerstakt keppikefli. Nú er öðru máli að gegna. Þessi embætti eru miklu erfiðari en önnur sýslumannsembætti, en launin eru lítið hærri. Það verður að athuga það, að svo framarlega sem laun embættismanna eru of lág, fást ekki nema ljelegir menn í embættin, þannig að slíkt getur orðið til þess að snúa straumi hæfileikamannanna frá embættisbrautinni.

Ef stj. er falið þetta mál, þá er mögulegt, að henni geti tekist að ráða fram úr því án þess að skipuð sje milliþinganefnd. Ef stj. væri ekki búin að undirbúa málið fyrir næsta þing, eins og hv. frsm. (HJ) gerði ráð fyrir, og þá þyrfti að skipa milliþinganefnd, mundi sú nefnd ekki geta unnið svo fljótt, að endanlegt skipulag yrði fengið fyrir 1930. Þess vegna álít jeg best að skipa milliþinganefnd nú þegar og fela síðan stjórninni málið til rækilegrar íhugunar. Þó að það sje athugað í milliþinganefnd, þá er það stjórnin, sem mestu ræður um úrslitin. Að þessu vjek hæstv. fjmrh. í sinni ræðu, og jeg er honum alveg sammála. Ýmislegt mundi vinnast við þetta. Það mundi vekja traust hjá embættismönnum ríkisins, sem eru mjög óánægðir með kjör sín, og hafa að ýmsu leyti ástæðu til að vera óánægðir, ef þeir vissu, að nú yrði mál þeirra tekið til íhugunar í milliþinganefnd, þar sem þeir hefðu jafnvel fulltrúa úr sínum hópi.