13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4788 í B-deild Alþingistíðinda. (4014)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend ekki upp til að andmæla þessu frv., þótt mjer þyki ósýnn gróði að því. Jeg vil gera ráð fyrir því, að við 2. umr. liggi málið ljósara fyrir en nú. Hinsvegar get jeg alls ekki fallist á það, að þetta sje mjög einfalt eða viðurhlutalítið mál. Hjer verður óðar fyrir sú spurning, hvernig og hvenær eigi að draga inn alla þá seðla, sem átti að taka úr umferð 1926 og 1927, og fylsta þörf er að fá henni svarað áður en leyfð er frestun á inndrætti seðlanna fyrir 1928. Jeg vænti þá líka, að þessi svör komi fram við 2. umr. Jeg held, að jeg muni það rjett, að sjerleyfistími Íslandsbanka sje úti 1933. Og út af því vil jeg spyrja: Hverjar horfur eru á því, að öllum seðlainndrætti verði lokið í tæka tíð? Mundi auðveldara að leysa inn alla fúlguna síðustu árin, — eða er hugmyndin sú, að framlengja leyfistímann og hafa seðlabankana tvo?

Nefnd sú, sem undirbjó bankalögin 1921, gerði einmitt ráð fyrir því, að síðustu árin yrði inndrátturinn lítill, og með hliðsjón af því, að erfiðleikarnir yrðu ekki alt of miklir síðustu árin, var ákveðið, að inndrátturinn skyldi vera árlega ein milj. kr. fram til ársins 1928. Úr því var ætlað, að ½ milj. yrði tekin úr umferð árlega. Eigi nú hinsvegar að jafna öllu, eða þessum 5 milj., sem eftir eru, niður á þessi fáu ár frá árslokum 1928, þá verður inndrátturinn allmiklu erfiðari síðustu árin en ætlað var af bankalaganefndinni 1921. Vil jeg sjerstaklega mælast til þess, að fjhn., sem þessu máli væntanlega verður vísað til, leiti frekari upplýsinga um horfur og fyrirætlanir með innköllun seðlanna fram til loka leyfistímans, áður en málið kemur til umr. næst.