13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4789 í B-deild Alþingistíðinda. (4015)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Sigurður Eggerz:

Jeg skal nú ekki lengja umr. um málið úr þessu, en gagnvart því, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, þá verð jeg að segja það, að jeg er náttúrlega ekki viss um það, hvort útibússtjórinn á Seyðisfirði hefir gefið þessar skýringar, en hitt veit jeg, að hjer við höfuðbankann fengu allir viðskiftamenn þær, og var langt frá því, að bankinn vildi gera nokkurn greinarmun á stórum og smáum viðskiftamönnum. Líka var sókst meira eftir því að breyta lánum hinna stærri viðskiftamanna, vegna þess að það skifti meira máli fyrir bankann, og þegar við höfðum sýnt þeim fram á, að það væri ekki óhagur að breytingunni fyrir þá, varð engin óánægja hjá þeim. Við sögðum líka við þá, að þeir, sem vildu, gætu fengið skriflega yfirlýsingu frá bankanum um, að það væri alls ekki tilgangurinn að segja lánunum upp að fullu og öllu. Enn vil jeg taka fram, að lánum, sem voru brúkuð eins og reikningslán, eða lifandi lánum, var ekki breytt í víxla, nema þá að nokkru leyti, eftir því sem þau höfðu verið brúkuð.

Þá talaði hv. þm. um það, að bankinn hefði beitt harðneskju við lántakendur. Mjer er nær að halda það, að ýmsir að þeim mönnum, sem hafa skift við Íslandsbanka, — en auðvitað kunna að vera einstöku undantekningar, — muni bera honum öðruvísi söguna. En þegar bankanum er ætlað að draga inn af seðlum sínum, þá má enginn ætla, að það verði gert án þess að einhverjir hljóti að finna til þess, en einmitt vegna þess að bankinn vill taka tillit til viðskiftamanna sinna, er reynt að beita sem minstri harðleikni á þessu sviði, enda myndi það, ef gert væri, leiða til ákaflega þungrar niðurstöðu fyrir viðskiftalíf þjóðarinnar.

Hv. þm. Ísaf. vildi láta vísa málinu til nefndar og að gert væri yfirlit yfir afstöðu bankans til ríkissjóðs o. m. fl. Dálítið skýtur nú þessu öðruvísi við eða þegar átti að taka ábyrgð á, öllum skuldbindingum Landsbankans í framtíðinni; þá þótti það óviðeigandi að heimta skýrslu um þá rannsókn, sem framkvæmd var á bankanum, þótti jafnvel goðgá að nefna það. Þá var hægt að taka ábyrgð á bankanum án þess að fá að vita um þá niðurstöðu. En þegar þetta mál kemur, sem aðeins er um það, að bankinn dragi ekki inn eina milj. króna á yfirstandandi ári, þá þarf að heimta allar mögulegar rannsóknir, og þó hefir bankinn verið rannsakaður nýlega af manni, sem hæstv. stjórn ber fult traust til. Það hefir þó ekki verið farið leynt með þá rannsókn, því að hún hefir verið birt bæði utanlands og innan og einnig birt í ársreikningi bankans. Eftirlitsmaðurinn áleit, að tapaður væri helmingur hlutafjárins, og til þess að þessi eina miljón þurfi ekki að vera dregin inn, þarf að fara að framkvæma heljarmikla rannsókn. Jeg vona, að þetta stafi ekki af óvild til bankans, og jeg vil segja það við háttv. stuðningsmenn stjórnarinnar, að ef þeir ætla, að það sje rjett að fara að reyna að skapa aftur óróa um Íslandsbanka, þá eru þeir hv. þm. með því að ráðast á sjálfa sig, því að það kemur langharðast niður á þeim, sem bera ábyrgðina á því, sem gerist í landinu, ef farið væri að skapa óróa í kringum hvorn bankann sem væri; og jeg efast um, ef það væri gert, að þeir góðu menn þá viti, hvaða þýðingu það mundi hafa fyrir alt þjóðlíf vort og hvaða erfiðleika það mundi skapa fyrir stjórnina, ef farið væri að láta gamla óvild kvikna aftur. En jeg vil segja það, að þeir ráðherrar, sem hingað til hafa haft með bankann að gera, hafa skilið þetta; þeir hafa ekki viljað leggja neinn stein í götu hans, heldur þvert á móti. Og um þá ráðherra, sem nú hafa haft afskifti af bankanum, má segja með sanni, að hingað til hafa þeir reynst honum vel.

Ef á að fara að vísa þessu máli til nefndar og þinginu skyldi verða sagt upp á morgun eða á mánudag, og ef svo á að fara að rannsaka hag bankans í þeirri nefnd, þá sjá allir, hvert stefnir og hvað liggur á bak við þessa tillögu; það er auðsjáanlega ekki annað en það að reyna að koma þessu máli fyrir kattarnef. Annars liggur það í hlutarins eðli, og vil jeg sjerstaklega víkja því til hv. 1. þm. S.-M., að auðvitað mun bankinn eins fljótt og hann getur draga þessa seðla inn; það er hans áhugamál að reyna að standa sem frjálsastur, af því að það hefir oft sýnt sig, að þegar bankinn hefir leitað til þingsins og skapast hefir órói í kringum hann, þá hefir hann oft tapað meira á því, þótt bænir hans hafi verið heyrðar, vegna þess óróa, sem skapast hefir í kringum hann.

Jeg vil þá enda orð mín að þessu sinni með því að benda þeim mönnum á, sem bera ábyrgðina hjer á landi, að þeir munu finna það, að svo framarlega, sem þeir fara margar villigötur í bankamálum þjóðarinnar, þá munu þeim verða ýms önnur viðfangsefni örðug, vegna þess að það er einhver hin mesta hamingja fyrir hverja þjóð, ef bankar hennar blómgast. Við vitum það, að bankahrun erlendis hafa valdið geysimiklum skaða, en hjer hafa, sem betur fer, engin orðið, því að stjórnirnar hafa skilið það, hve mikla þýðingu slíkt hefir fyrir landið. En eftir að mikið sparisjóðsfje hefir verið tekið út úr bankanum og eftir að hann hefir komist yfir þetta og ró hefir skapast kringum hann, þá er það mjög hart, ef farið verður að vekja óróa um hann aftur; en jeg vona, að það verði ekki gert, því að hjer er að ræða um stofnun, sem er stór liður í atvinnu- og viðskiftalífi þjóðarinnar.