13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4793 í B-deild Alþingistíðinda. (4016)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla að leyfa mjer að spyrja hæstv. forsrh., sem jafnframt er formaður bankaráðs Íslandsbanka, hvort þetta frv. sje ekki borið fram í fullu samráði við stjórn Landsbankans. Svo hefir þetta verið á undanförnum þingum og jeg geri ráð fyrir, að svo sje enn. Þannig hefir þetta verið undanfarið vegna þess, að Landsbankinn álítur sjer vera hagkvæmara að endurkaupa víxla af Íslandsbanka heldur en að þurfa að taka við viðskiftum hans, og jeg hefi litið svo á undanfarið, og geri ráð fyrir, að svo muni vera enn, að Landsbankinn álíti það vera hagkvæmara fyrir sig að láta Íslandsbanka bera ábyrgðina af viðskiftunum, þannig að hann, Landsbankinn, hafi óbeina tryggingu í öllum eignum Íslandsbanka fyrir þeim seðlum, sem hann lánar honum.

Viðvíkjandi tryggingunum fyrir enska láninu skilst mjer, að hæstv. forsrh. hafi svarað því, að hann gæti ekkert um þær sagt. En það var upplýst á síðasta þingi, hvernig þeim var varið, og veit jeg ekki til, að nein breyting hafi orðið á því, annað en það, að nokkrir víxlar hafa verið greiddir og aðrir hafa svo komið í staðinn.

Hv. 1. þm. N.-M. var að tala um það, að bankinn beitti nokkru harðræði við landsmenn; en jeg vil út af því benda hv. þm. á það, að þetta frv. miðar einmitt að því að gera bankanum það kleift að beita landsmenn ekki harðræði, því ef bankinn á að draga inn eina miljón króna úr viðskiftum sínum við þá, og hann getur ekki fengið endurkeypta víxla hjá Landsbankanum, þá verða viðskiftin að dragast saman hjá Íslandsbanka, en Landsbankinn að lána, en það er það, sem hann ekki telur sjer heppilegt, að taka þannig beinlínis við viðskiftum hins bankans.

Hvort þetta mál fer til nefndar eða ekki, læt jeg mig ekki miklu skifta, en mjer sýnist það vera orðinn lítill tími til að fara með mál í nefndir, þegar fundir eru svo að segja á hverjum degi langt fram á nótt. Jeg veit ekki, hvenær nefndir eiga þá að starfa og afgreiða mál, nema því aðeins, að þá verði slept úr fundartíma handa þeim.

Hvað það snertir, sem verið var að tala um, að athuga afstöðu bankans til ríkisins og útvega upplýsingar um það, þá veit jeg ekki, hvað á að athuga þar; mjer finst að þar liggi alt ljóst fyrir. Bankinn hefir leyfi um ákveðið árabil, en um það, hvernig fer með inndráttinn síðar, skal jeg engu spá, en jeg vil benda á það, að svo framarlega sem frv. það, sem hjer er fyrir þinginu um Landsbankann, verður samþykt, þar sem aðeins er um heimild að ræða til þess að láta hann fá fje, og ef sú heimild verður ekki notuð, þá stendur bankinn miklu ver að vígi á eftir að taka við þeim viðskiftum, sem hann á að taka við, ef Íslandsbanki á að draga inn seðlana; það ætti þó hver maður að sjá. Það verður ekki hægt að gera hvorttveggja, láta Landsbankann ekki fá það fje, sem honum hefir verið lofað, en heimta svo af hinum bankanum, að hann dragi inn seðlana, því að hvernig fer þá fyrir atvinnuvegum landsins?

Hv. þm. Dal. mintist á þann óróa, sem verið hefir um bankann, en það hefir ekki verið síðan menn úr stjórn Framsóknarflokksins komust í stjórn bankans, og álít jeg, að bankinn hafi haft ákaflega gott af þeirri ró. En jeg held nú reyndar, að það sje ekki hægt að segja það, að það hafi bólað á neinum óróa hjer um bankann í dag, en hitt er alveg rjett, sem hv. þm. Dal. sagði, að þingið hefði oft með því að tala um bankann skapað þann óróa um hann, sem gert hefði miklu meiri skaða heldur en þær ívilnanir, sem hann hefir fengið, hafa gert honum gagn. En annars er það undarlegt að vera að blanda saman h/f Íslandsbanka við það, sem hjer er verið að gera í dag, því að það er sannarlega ekki verið að gera þetta fyrir Íslandsbanka sem hlutafjelag, heldur af því, að það er álitið best fyrir landsmenn sjálfa. Það er ekki verið að hjálpa hlutafjelaginu til að lifa, heldur landsmönnum, en það er þessi mjög einkennilegi misskilningur, sem svo oft hefir bólað á hjer á þingi, að alt, sem gert er fyrir bankann, sje gert til þess að halda hlutafjelaginu sjálfu uppi, en það er alt gert vegna landsmanna sjálfra.

Jeg vona, að hæstv. forsrh. svari fyrirspurn minni um það, hvort frv. þetta sje ekki borið fram í fullu samræmi við vilja stjórnar Landsbankans.